Public deli
Public deli

Mannlíf

Í Eldhúsinu: Bragðgóðar bollakökur
Laugardagur 9. nóvember 2013 kl. 11:29

Í Eldhúsinu: Bragðgóðar bollakökur

Ólöf Birna Jónsdóttir er stödd í eldhúsinu hjá Víkurfréttum að þessu sinni. Þar deilir Suðurnesjafólk uppskriftum með lesendum Víkurfrétta. Ef þú þekkir einhvern sem hefur gaman af því að elda, eða vilt sjálf/ur koma gómsætri uppskrift að þá er hægt að hafa samband við Víkurfréttir á póstfangið [email protected].
Ólöf Birna Jónsdóttir er 17 ára Keflvíkingur. Hún stundar nám í FS á félagsfræðibraut en samhliða vinnur hún sem þjálfari hjá fimleikadeild Keflavíkur.

Ólöf er nokkuð dugleg í eldhúsinu og hefur hún sérstaklega gaman af því að baka og elda. Hún segist horfa töluvert á myndbönd á youtube á netinu til þess að fá hugmyndir, en henni þykir gaman að prófa nýja hluti í eldamennskunni. Uppskriftin sem Ólöf deilir með lesendum Víkurfrétta er í miklu uppáhaldi hjá henni en um er að ræða bollakökur af bestu gerð, sem hún hristir fram úr erminni þegar halda skal afmæli, eða veislu ber að garði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Uppskriftina er bæði hægt að nota í tertur eða bollakökur. Um er að ræða frekar stóra uppskrift sem dugar í ca. 42 bollakökur.

Uppskriftin:
170 g smjörlíki
225 g hveiti
200 g sykur
4 msk kakó
1½ tsk matarsódi
½ tsk salt
4 stk egg
2 eggjarauður
130 g suðusúkkulaði
120 g grísk jógúrt
½ bolli heitt vatn
½ bolli mjólk
1 msk vanilludropar

 

Aðferð:
Eggin og eggjarauðurnar eru þeyttar saman í hrærivél. Sykrinum er bætt út í smátt og smátt og þeytt þar til blandan er orðin létt og ljós. Því næst er súkkulaðið brætt. Kakó sett í aðra skál og mjög heitu vatni blandað saman við kakóið. Brædda súkkulaðið sett út í kakóblönduna.  Smjörlíkinu bætt út í og blandað vel saman í kekkjalausa hræru. Súkkulaðiblandan er sett út í eggjahræruna og hrært aðeins saman í hrærivélinni. 
Þurrefnunum, þ.e. hveiti, matarsóda og salti blandað saman í skál. Mjólk og jógúrt ásamt vanilludropunum blandað saman í aðra skál. Síðan er 1/3 af þurrefnunum sett út í eggja/kakóblönduna og hrært saman, þá helmingnum af mjólk/jógúrt, aftur 1/3 af þurrefnum, restin af mjólk/jógúrt og að lokum restin af þurrefnunum. Þegar allt er komið út í þarf að passa að hræra þessu ekki of mikið saman.
Deigið sett í bréfform og bakað við 180 gráður í 14-16 mínútur.

Kremið:
3 eggjahvítur
150 g sykur
120 g flórsykur
1 tsk kakó
300 g smjörlíki
1 tsk vanilludropar

Aðferð:
Sykur og eggjahvítur settar yfir vatnsbað og hrært stöðugt í þar til sykurinn er uppleystur. Þá er eggjablandan sett í hrærivélaskál, flórsykrinum og smá kakó bætt við og þeytt vel saman. Að lokum er smjörlíkinu blandað saman smátt og smátt og þetta látið blandast vel.

Ef þú þekkir einhvern sem hefur gaman af því að elda, eða vilt sjálf/ur koma gómsætri uppskrift að þá er hægt að hafa samband við Víkurfréttir á póstfangið [email protected].

[email protected]