Í draumavinnu hjá tæknirisa
- Suðurnesjamaðurinn Sigtryggur Kjartansson með fullkomna meðaleinkunn frá einum besta háskóla heims.
Sigtryggur Kjartansson útskrifaðist á dögunum frá hinum virta MIT háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum. Sigtryggur gerði sér lítið fyrir og úrskrifaðist með fullkomna meðaleinkunn og komst fyrir vikið inn í Phi Beta Kappa heiðursfélagið þar sem fyrrum Bandaríkjaforsetar eru meðal meðlima. Sigtryggur er þegar kominn með starf hjá tæknirisanum Oracle en honum bauðst einnig að starfa fyrir vefrisana Google og Amazon.
Aðeins um 8% þeirra sem sækja um að komast inn í MIT skólann fá inngöngu en rúmlega 10.000 nemendur eru við skólann hverju sinni. Sigtryggur býr sig þessa dagana undir að flytja búferlum til Kaliforníu en þar mun hann hefja störf hjá tæknirisanum Oracle. Sigtryggur hafði ákaflega gaman af skólagöngunni í þessum virta háskóla og eignaðist marga góða vini. „Þetta er frábært umhverfi. Menntunarstigið er hátt og meðalaldurinn lágur. Þannig að hérna er mikið til fólk sem er á svipuðum stað í lífinu og ég,“ en Sigtryggur lauk grunnnámi í stærðfræði og tölvunarfræði við skólann sem jafnan er talinn meðal bestu háskóla heimsins. Sigtryggur starfaði m.a. sem aðstoðarkennari við MIT samhliða náminu síðustu þrjár annir en þar sá hann m.a. um að fara yfir heimavinnu samnemenda sinna.
Í heiðursfélagi ásamt 17 Bandaríkjaforsetum og Nobelsverðlaunahöfum
Sigtryggur útskrifaðist með láði frá skólanum og komst fyrir vikið í sérstakt heiðursfélag, Phi Beta Kappa, þar sem mikilmenni og 17 fyrrum Bandaríkjaforsetar eru meðal meðlima. MIT skólinn (Massachusetts Institute of Technology) gefur engin verðlaun eða útnefnir dúxa til þess að skapa ekki spennu milli nemenda. Það að komast í þennan virta félagsskap þýðir því í raun að Sigtryggur hafi verið meðal hæstu nemenda í sínum árgangi en auk þess er félagið mikið tengslanet. Ekki skemmir fyrir að hafa slíkan árangur á ferilskránni.
Hafnaði Google og Amazon
Sigtryggur þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að fá ekki atvinnu vestanhafs en hann hefur þegar ráðið sig í vinnu hjá tæknirisanum Oracle. Hann fékk einnig atvinnutilboð frá Google og Amazon sem eru afar mikils metin fyrirtæki, en Sigtryggur starfaði m.a. tímabundið hjá Amazon í Seattle. Oracle er tæknirisi sem er með puttana í nánast öllu sem viðkemur tækni. Sigtryggur verður í sérstöku gagnagrunnsteymi í fyrirtækinu. Hann er ekki viss um hver hans fyrstu verkefni verða en hann verður hluti af teymi sem sér um að gera gagnagrunna hraðari og áreiðanlegri. Einnig vonast hann til þess að vinna að rannsóknum síðar meir hjá fyrirtækinu. Sigtryggur segist vera kominn í draumavinnuna, enn sem komið er. „Ég ætla mér lengra. Ætlunin er að vinna í 1-2 ár og fara síðan í meistaranám í tölvunarfræði. Eftir það langar mig að starfa að tæknihönnun, jafnvel við „startup“ fyrirtæki,“ en slík frumkvöðlafyrirtæki eru í mikilli sókn. Því virðist sem Sigtryggur sé ekki á heimleið í bráð. Það leggst vel í Sigtrygg að flytja til Kaliforníu í næsta mánuði en hann kemur þó heim til Íslands í millitíðinni. Sigtryggur segist líka hafa töluvert ferðast á þessari önn í nafni útskriftar. Annars fór mikill tími í námið fyrst um sinn en Sigtryggur leyfði sér aðeins að slaka á og ferðast undir það síðasta í náminu. „Það fer heljarinnar tími í að læra. Þegar þú ert ekki að læra þá ertu með samviskubit. Maður verður þó að taka sér frí annað slagið, annars missir maður bara vitið,“ segir hann léttur í bragði.
„Það fer heljarinnar tími í að læra. Þegar þú ert ekki að læra þá ertu með samviskubit. Maður verður þó að taka sér frí annað slagið, annars missir maður bara vitið“
Töluverðir peningar eru í tæknigeiranum og Sigtryggur viðurkennir að hann sé ekki á flæðiskeri staddur um þessar mundir. Þegar Sigtryggur skrifaði undir ráðningarsamning þá fékk hann ríflega summu og eins er Oracle að flytja hann milli fylkja og koma undir hann fótunum á vesturströndinni. „Það borgar sig alveg að fara í erfiðari skóla. Ef þú kemur úr MIT þá færðu líka betur borgað. Þetta er mjög vel borgað,“ segir Sigtryggur sem ávallt hefur verið vinnusamur í sínu námi. Þegar Sigtryggur var í Heiðarskóla sem unglingur þá sá hann fyrir sér að fara í háskóla í Bandaríkjunum. Hann taldi það nokkuð raunhæft allt frá unga aldri að útskrifast frá virtum skóla. „Ég hef unnið að þessu allan minn námsferil og nú er ég að uppskera.“ Það verður að viðurkennast að þetta er talsvert afrek hjá Keflvíkingnum. Það að útskrifast með hæstu einkunn frá einum virtasta háskóla heims er ekki á allra færi og líklega hafa fáir Íslendingar leikið það eftir.
Foreldrar Sigtryggs, bróðir hans, ömmur og afar voru viðstödd útskriftina á dögunum. Fjölskyldan gerði sér glaðan dag og fór út að borða.