Í bláum skugga
Það er óhollt að líta mikið til fortíðar. Nema e.t.v. til þess að læra af mistökunum og feilsporunum sem maður hefur stigið. Þær eru ótal krummafætlurnar sem vafist hafa fyrir mér í gegnum tíðina en blessunarlega hef ég alltaf náð að fóta mig á ný. En það getur verið þungt að kyngja einhverju sem maður er ekki sáttur við að hafa gert, því þessu skýtur af og til upp á yfirborðið, eins og óboðnum gesti í afmæli. Skuggi sem þú hræðist, dimmur og svei mér þá ef það er ekki daunn af honum. Eins og andskotinn sé á hælunum á þér.
Ég er hættur að láta þetta hafa áhrif á geðheilsuna. Hef reyndar ekki þá náðargáfu að sjá drauga en ígildum þeirra bregður þó oft fyrir. Langar ekki til þess að eiga í útistöðum við þá né aðra óvætti. Draugar fortíðar eru lævísir og samviskan getur nagað þig inn að beini ef þú gefur þeim tækifæri á því. Á yngri árum hélt maður að það að gera mistök væru endalok alls en með aldri og þroska hefur maður lært að sætta sig við þá hluti sem maður fær ekki breytt. Lofar sjálfum sér bót og betrun í staðinn.
Að þessu sögðu langar mig að þakka bæjarstjórn Reykjanesbæjar fyrir að horfa fram á við og vera ekki að velta sér upp úr drunga daunillar fortíðar. Framtíðarsýn er mikilvæg og það að láta okkur bæjarbúana vita af fyrirætlunum, ekki bara korter í kosningar, eru batamerki. Framtíðarsýnin sem hér birtist fyrir nokkrum vikum er eitthvað sem við getum hlakkað til að upplifa, notið þess að rökræða og umfram allt, snúið hugsunum okkar frá því sem slitið hefur okkur í sundur og verið engum til góðs. Við skulum hætta að vera eins og skugginn af sjálfum okkur.
Aðalsmerki bæjarstjórnar er að gefast ekki upp. Hún hefur reyndar gert af og til upp á bak, en ávallt haft trú á því að reisa sig og okkur upp á afturlappirnar. Það þarf kjark til að standa af sér orrahríðina úr öllum áttum, en að lokum höfum við sigur. Bæjarbragurinn mun aftur upp rísa.