Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvunndagshetjan Kristján varð internetstjarna á svipstundu
Laugardagur 4. júní 2016 kl. 06:00

Hvunndagshetjan Kristján varð internetstjarna á svipstundu

Par frá Kóreu sem missti af vél sinni frá Keflavíkurflugvelli á dögunum var himinlifandi með aðstoð sem þau fengu frá Kristjáni Þór Karlssyni, þjónustufulltrúa eignaumsýslu hjá Isavia. Seungsoo Shin, annar ferðamannanna, skrifaði færslu og birti á Facebook-síðu Keflavíkurflugvallar þar sem fram kom að þau hafi misskilið hvenær vélin þeirra átti að fara í loftið, ekki verið með pening sé síma og að þau hafi ekki fundið starfsmann frá flugfélaginu sínu. „Þetta leit ekki vel út en þá kom Kristján til sögunnar. Við sögðum honum söguna okkar og hann hjálpaði okkur og fann upplýsingar um betra flug þó að hann hafi ekki þurft þess. Hann var mjög almennilegur allan tímann og gerði sitt besta fyrir okkur í heila þrjá klukkutíma. Hann var bjargvætturinn okkar og ég vil þakka honum fyrir fyrir. Ég veit ekki hvernig þetta hefði verið hefði hann ekki hjálpað okkur,“ segir í færslu Seungsoo Shin. Færslan fór eins og eldur um sinu netheima, en yfir 5000 netverjar lýstu yfir ánægju með færsluna og rúmlega 500 manns deildu póstinum.

„Stór hluti af vinnutímanum fer í eitthvað í líkingu við þetta tilvik, þó að þau sé kannski ekki alveg eins en þá er þetta nokkuð algengt,“ segir Kristján í spjalli við Víkurfréttir. Hann segir ferðamenn lenda í alls kyns hrakningum á sambandi við flug sín, bæði hér á landi og erlendis. „Þá er maður til aðstoðar og gefur fólki tækifæri til að komast í samband á réttan stað. Það kemur líka fyrir að fólk hafi týnt öllum sínum skilríkjum og þá komum við þeim í samband við þeirra sendiráð ef slíkt er ekki á landinu. Það er því ýmislegt sem til fellur,“ segir Kristján og bendir á að við úrlausn á máli ferðamannanna frá Kóreu hafi hann notið góðrar aðstoðar frá fleiri starfsmönnum flugvallarins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fréttir af sívaxandi ferðamannastraumi hafa vart farið fram hjá neinum og er áætlað að á þessu ári komi um 1,7 milljón erlendra ferðamanna til Íslands. Kristján segir starfsmenn Keflavíkurflugvallar finna vel fyrir aukningunni og að með fleiri ferðamönum komi upp fleiri atvik sem greiða þarf úr. Kristján segir allan gang á því hvort fólk sé jafn þakklátt fyrir hjálpina og ferðamennirnir frá Kóreu. Stundum fái starfsfólkið skammir þrátt fyrir að hafa varið löngum tíma í úrlausn mála, sem jafnvel fóru úrskeiðis á öðrum flugvöllum. „Maður tekur því líka. Fólk í þjónustustörfum þarf að geta tekið sorg og gleði.“

Kristján hefur starfað hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli frá vorinu 2006 og er því að fara að vinna sitt ellefta sumar þar. Áður var hann hinu megin á heiðinni, hjá varnarliðinu. Þar var hann í tuttugu ár með tíu ára hléi þegar hann var grunnskólakennari á Raufarhöfn. „Ég tók ársleyfi árið 1981 en snéri þó ekki til baka fyrr en 1991. Ég fékk ársleyfinu alltaf framlengt. Ég ætlaði bara að hvíla mig á varnarliðinu í eitt ár en svo teygðist á því.“

Hér fyrir neðan má lesa færslu kóreska ferðamannsins: