Hvort á barnið að læra um kynlíf í skóla eða á netinu?
Nettröllin hafa farið hamförum. Samtökin ‘78 eru að fræða börn, ekki að innræta þeim hugmyndir. „Símarnir hafa breytt leiknum,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir.
„Símarnir hafa breytt leiknum gífurlega mikið og í raun er þetta bara spurning hvort þú viljir að barnið þitt sé frætt á faglegan hátt eða að það fræði sig sjálft á netinu,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir, rithöfundur og fyrirlesari, en talsverð umræða hefur verið að undanförnu á samfélagsmiðlum í kjölfar hinseginfræðslu innan skólakerfisins. Samtökin ‘78 hafa fengið mikla gagnrýni á sig og heitar umræður hafa skapast í athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna. Svo mikil hefur umræðan verið að barna- og menntamálaráðuneytið sá sig knúið til að birta fréttatilkynningu á heimasíðu stjórnarráðsins, www.stjr.is.
Keflvíkingurinn Sólborg hefur gefið út nokkrar bækur og getið sér gott orð sem fyrirlesari í skólum og félagsmiðstöðvum landsins um þessi málefni.
„Samtökin ‘78 eru eingöngu að fræða börn, ekki að innræta þeim eitthvað. Þessi gagnrýni á þau, ef gagnrýni mætti kalla, finnst mér sorgleg. Þetta er ekki kynlífsfræðsla, þetta er ekki BDSM-fræðsla og það er ekki verið að gera nein börn trans. Samtökin ‘78 miða nálgunina sína út frá aldri og þroska nemenda hverju sinni og ræða við þau um allt frá ólíkum fjölskylduformum yfir í almenna virðingu gagnvart sjálfum sér og öðrum. Fullt af börnum eru hinsegin, fullt af börnum eru það ekki en þau eiga það öll sameiginlegt að eiga rétt á vernd frá okkur fullorðna fólkinu. Við getum ekki bara verndað sum börn,“ segir Sólborg.
Fávitar
Sólborg vakti athygli þegar hún gaf út sína fyrstu bók árið 2020, Fávitar. Fram að þeim tíma hafði hún verið með Instagram-síðu undir sama nafni. Þar vildi Sólborg vekja fólk til umhugsunar um normalíseringuna á kynferðislegri áreitni á netinu og sýna fram á það hversu algengt ofbeldið væri. Fleiri bækur fylgdu í kjölfarið og undanfarin ár hefur hún farið í skóla og félagsmiðstöðvar og haldið fyrirlestra fyrir unglinga um heilbrigð samskipti og kynlíf. „Þegar ég flyt fyrirlestra geta unglingarnir sent nafnlausar spurningar og þar sést skýrt hvar þau eru stödd og hverju þau eru að velta fyrir sér. Þau eru svo miklu lengra komin í þessum pælingum en fullorðið fólk gerir sér grein fyrir. Kynfræðsla er ekki að koma neinu skaðlegu í kollinn á þeim. Það hafa aðrir séð um að gera, t.d. klám- og samfélagsmiðlar.“
Sólborg bendir á að meðalaldur ungra stráka á Íslandi sem byrja að horfa á klám sé ellefu ára og dæmi eru um að mörg börn sjái klám í fyrsta sinn fyrir þann aldur. „Það hlýtur því að vera ansi skýrt að við getum ekki byrjað á kynfræðslu eftir fermingu. Of margt ungt fólk beitir hvert annað ofbeldi vegna samskipta- og markaleysis sem þau sjá í klámi og við verðum að bregðast við því,“ bætir hún við.
Hvað fræðsluna frá Samtökunum ‘78 varðar bendir Sólborg á að ekki sé hægt að gera fólk hinsegin, það sýni ótal rannsóknir. „Þetta er ekki smitandi,“ segir hún kímin. „Ég hef oft setið hinseginfræðslu en aldrei upplifað mig í kjölfarið sem samkynhneigða eða trans. Ég verð ekki hinsegin af því einu að heyra um hinseginleikann. Annars get ég með engu móti skilið hvers vegna fólk telur það slæmt að fleiri einstaklingum muni, með hinseginfræðslu, loksins líða vel í eigin skinni og finnast þau geta verið þau sjálf. Ef það er það sem fólk er svona ótrúlega á móti þá ættu það kannski að byrja á því að skoða sig sjálf. Þetta samfélag er svo gegnsýrt af hinseginfordómum. Það er eitthvað sem við þurfum að tileinka okkur öll sem eitt, að taka eftir og aflæra,“ sagði Sólborg að lokum.