Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvít víðbláinn galdrameistari og skapandi listamaður
Mánudagur 5. desember 2011 kl. 09:49

Hvít víðbláinn galdrameistari og skapandi listamaður

Einhverjir kannast við það hús sem hýsti áður Byggðarsafn Reykjanesbæjar. Nú hafa þarna hreiðrað um sig nokkrir listamenn sem halda úti vinnustofu og sýningarsal í Vatnsnes art gallery. Blaðamaður leit í heimsókn hjá listamanninum Reyni Katrínarsyni að Vatnsnesvegi 8 í Reykjanesbæ. Reynir sem augljóslega er þúsundþjalasmiður er þessa stundina að fást við ýmsa forvitnilega hluti. Hann og Ólafía Ólafs mála fallegar myndir en hráefni myndanna sækja þau á Reykjanesinu, í bókstaflegri merkingu.

Hann notast við jarðveg og steina héðan og blandar saman við eggjarauður, eins og gömlu meistararnir gerðu á árum áður. Einnig fæst Reynir við íslenskan vattasaum en hann lærði þá iðju fyrir tveimur árum síðan og þá kunni hann einn hnút. Nú hefur Reynir sjálfur búið til yfir 200 hnúta sjálfur sem hann teiknar upp í skissubók jafnóðum og gefur hnútunum nöfn. Reynir kallar sjálfan sig hvít víðbláinn galdrameistara og skapandi listamann, en hann hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina. Ásamt Reyni eru listamennirnir Ólafía Ólafs og Hildur Harðar með aðstöðu í húsinu en þær fást m.a. við útskurð á gúmmí og mála myndir. Á efri hæðinni er svo Unnur Karlsdóttir en hún málar og fæst við skermagerð sem er nánast útdautt handverk hér á Íslandi. Á neðstu hæðinni er svo ungur tónlistarmaður með aðstöðu.

Vatnsnes art gallery verður opið í desember frá fimmtudögum til sunnudaga frá kl 12.00 - 19.00. Fólk er velkomið í kaffibolla og til þess að skoða starfsemina. Jafnvel er hægt að láta Reyni spá fyrir sér í íslenskar rúnir en hann er þekktur fyrir spádóma sína.



Myndir/EJS: Reynir á vinnustofunni við Vatnsnesveg þar sem hann saumar húfur með vattsaumi eins og sjá má á myndunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024