Hvetur börn til þess að trúa á sig og drauma sína
Sædís Sif gefur út sína fyrstu bók.
Sædís Sif Jónsdóttir, tveggja barna móðir úr Garðinum hefur gefið út sína fyrstu barnabók. Bókin ber nafnið Draumálfurinn Dísa, og á hún að hvetja börn og aðra lesendur til að hugsa um mikilvægi þess að hafa trú á sér og sínum draumum.
„Hugmyndin að bókinni byrjaði í raun að myndast stuttu eftir að eldri sonur minn, Manúel Jón, fæddist árið 2009. Þá fór ég að horfa á barnaefni og lesa barnabækur af krafti. Það er eins og að barnið innra með mér hafi vaknað upp aftur eftir að ég eignaðist börnin mín. Þó hef ég aldrei tekið lífinu of alvarlega,” segir Sædís Sif og tekur fram að mikilvægt sé að leyfa sér að dreyma og hafa trú á sjálfum sér. Hún segist sjálf vera mikil draumóramanneskja og skammast sín ekkert fyrir það. „Ætli ég sé ekki bara svolítið eins og draumálfurinn Dísa. Fólk var alltaf að segja við mig setningar eins og: Byrjar hún!, Er þetta enn ein hugmyndin?, Þú ert svo mikil draumóramanneskja!“
Þá hefur Sædísi Sif margoft verið bent á að koma sér aftur niður á jörðina. „En oft er það fólk sem er frekar þröngsýnt og leyfir sér ekki að eiga drauma sem kemur með slíkar ábendingar. Nú þegar ég er orðin fullorðin, veit ég það. En þetta átti til að draga úr mér kraftinn þegar ég var yngri. Í kjölfari þess kom hugmyndin að draumálfinum því mig langaði til þess að hvetja börn frá unga aldri til sjálfstæðrar hugsunar og minna á mikilvægi þess að hafa trú á sér og draumum sínum.”
Sædís útskrifaðist sem markþjálfi í maí 2013 og eignaðist svo yngri son sinn, Daníel Ísak, haustið 2013.
Í fæðingarorlofinu fór hún á námskeiðið Konur til athafna hjá Sigrúnu Lilju, eiganda Gydja Collection. Eftir það námskeið, segist hún hafa fyllst af kraft, og ákveðið að drífa sig í að gefa bókina út fyrir jólin 2014. „Ég hafði samband við forlögin en enginn virtist geta hjálpað mér að koma bókinni út fyrr en árið 2015, sem er skiljanlegt,því bókartíðindi voru að koma út og ég alltof sein í þessu. En ég er svo þrjósk að ég hugsaði: Nú jæja, ég bara gef þetta bara út sjálf.”
Bókin er fallega myndskreytt og fékk Sædís hæfileikaríkan myndskreyti með sér í lið, Alyssa Erin, frá Bandaríkjunum. Þær unnu saman að hugmyndum fyrir myndirnar. „Þess má til gamans geta að þessi mynd úr bókinni er teiknuð eftir Paradísarlaut í Grábrókarhrauni nokkru neðan við fossinn Glanna í Norðurá. Ég hef farið þangað nokkrum sinnum og líður alltaf jafn vel þegar þangað er komið. Algjör náttúruperla í Borgarfirði.”
Sædís Sif segir að útlitið á Dísu draumálfi sé í raun vel þróuð hugmynd hennar og sonar hennar, Manúels Jóns. „Ég var alltaf að teikna upp einhvers konar ský með augu, munn, hendur og fætur. Sonur minn hafði greinilega fylgst vel með mér, því eitt kvöldið kemur hann með sína útgáfu af því sem ég hafði verið að reyna krassa á blað. Mér fannst myndin hans svo falleg að ég gat ekki annað en notað hana til þess að fullkomna svo draumálfinn okkar.”
Bókin 'Draumálfurinn Dísa' kom út 28. nóvember og mun hún fást í verslunum Hagkaupa, Pennanum Eymundsson, Nettó, Iðu og á vefsíðu Heimkaupa, enn sem komið er. Áhugasamir geta fylgst með framhaldinu með því að „like-a“ síðuna á Facebook.