Hvert fer kjóinn?
Ferðir íslenska kjóans hafa vakið áhuga fuglafræðinga sem starfa hjá Þekkingarsetri Suðurnesja og Háskóla Íslands og nýverið hlutu þeir styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja til þess að kanna ferðir hans nánar.
Einn þeirra er Sölvi Rúnar Vignisson, fuglafræðingur sem starfar hjá Þekkingarsetri Suðurnesja, og segir hann að lítið hafi verið vitað um ferðir kjóans þar til Háskóli Íslands, Þekkingarsetur Suðurnesja og Náttúrustofa Suðvesturlands ásamt Náttúrustofu Norðausturlands settu út staðsetningartæki á kjóa árin 2013 og 2017.
„Niðurstöður þeirrar rannsóknar gáfu til kynna staðsetningu fimm eða sex vetrarstöðva kjóans sem ná frá vesturströnd Máritaníu niður til stranda Suður-Afríku og frá austurströnd Brasilíu niður að suðurodda Argentínu en þær upplýsingar fengust frá 30 kjóum.“
Merkingar fugla með staðsetningartækjum eru algengasta leiðin til að fylgjast með ferðum þeirra en þær eru bæði tímafrekar og kostnaðarsamar að sögn Sölva Rúnars þar sem handsama þarf sömu fuglana tvisvar auk þess sem tækin sjálf eru mjög dýr. „Því var ákveðið að kanna fjaðrir fuglanna en þær geyma mikilvægar upplýsingar um vetrarstöðvar þeirra og aðstæður þeirra.
Kjóinn endurmyndar sumar fjaðrir sínar eftir að hann fellir þær á vetrarstöðvum en við það steypast einstakar og stöðugar samsætur fæðu þeirra þar líkt og fingrafar inn í fjaðrir fuglanna. Með því að greina fjaðrirnar er hægt að greina upplýsingar um vetrarstöðvar þeirra og gengur verkefnið okkar sem nú hlaut styrk út á það.“
Verkefnið hefst í vor þegar fuglarnir hefja varp en þá verður hluti af fjöðrum tekinn. Nú þegar hafa fjaðrir verið teknar úr þeim fuglum sem fengu staðsetningartæki og endurspegla því gildi vetrarstöðvarinnar.
„Með þessari nýju aðferð væri hægt að safna fjöðrum úr fjölda kjóa á Suðurnesjum og annars staðar á landinu án þess að eyða miklum kostnaði í tækjabúnað og sjá hver algengasta vetrarstöðin er,“ segir Sölvi Rúnar sem starfað hefur sem fuglafræðingur hjá þekkingarsetrinu frá árinu 2012. Þar starfar hann við rannsóknir á fuglum, fjörum og sjávarspendýrum.
Hvernig fugl er kjóinn og er mikið um hann á Suðurnesjum?
„Kjóinn, ásamt skúminum, er sjófugl af kjóaætt og sérhæfir sig í að ræna fæðu af öðrum sjófuglum með því að elta þá þar til þeir sleppa fæðunni á flugi. Á varptíma skiptast foreldrar á um áleguna og að passa upp á ungann þegar hann er kominn úr eggi. Þeir fara til sjávar í fæðuleit við sjófuglabyggðir eða fæðusvæði annara sjófugla ásamt því að éta sætukoppa, aðrar plöntur og stöku unga eða egg annara fugla.
Kjóinn verpir um allt land upp í um 700 metra hæð en helstu varpsvæði eru snögggrónir melir eða mólendi, helst nálægt sjó. Varp var töluvert hér á Suðurnesjum en svo virðist sem þeim fari fækkandi. Helstu varpsvæði eru á lítið grónum melum t.d. við Hafnarberg, Krýsuvíkurberg og í grennd við máfavörp og kríuvörp hér og þar á skaganum.
Kjóinn er fimastur allra okkar fugla í flugi en hann er meðalstór fugl um 450–500g. Kvenfuglinn er ólíkt flestum fuglum stærri en karlfuglinn en enginn munur er á lit milli kynja. Kjóinn hefur mörg litarafbrigði en oftast er talað um ljósan og dökkan kjóa. Kjóinn fer yfirleitt að væla og barma sér til að lokka vegfarendur frá hreiðri sínu ef menn nálgast það og þaðan kemur orðið vælukjói. Sumir kjóar verja þó egg og unga með kjafti og klóm líkt og skúmurinn frændi þeirra, svo aðgát skal höfð í nærveru kjóa.“
En hver er sérstaða þessa verkefnis og hvaða þýðingu hefur það?
„Vetrarstöðvar flestra íslenskra fuglategunda eru þekktar en kjóinn er erfiður viðureignar og því mjög áhugavert og mikilvægt að skoða hvar hann heldur sig stærstan hluta úr ári. Kjóanum hefur verið að fækka mikið erlendis og vísbendingar eru um sambærilegar niðurstöður fyrir Ísland og það er okkar ábyrgð að vernda fuglastofna til þess að viðhalda heilbrigðu vistkerfi.“
Gert er ráð fyrir að verkefnið skili niðurstöðum næsta haust og gefi þá vitneskju um mikilvægustu vetrarstaði íslenskra kjóa.
Iris Nadeau, sumarstarfsmaður frá Frakklandi, aðstoðar við merkingu kjóans síðasta sumar.