Hvernig hlutir hverfa á dularfullan hátt
Laugardaginn 9 október kl.16:00 opnar Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar sýninguna „Heimsendingarþjónusta“ í Suðsuðvestur í Reykjanesbæ. Á sýningunni, sem samanstendur af ljósmyndum og skúlptúr veltir Geirþrúður fyrir sér hugmyndinni um merkingu orðsins „Heimsendingarþjónusta“ sem auðveldlega getur þýtt „Heims-Endingarþjónusta“, eftir því hvaða beygingarmynd orðsins er notuð.
Orðið „Heim“ er dregið af orðinu „Heimur“ og því getur „endirinn“ átt við hvort sem er. Hér er ekki átt við heimsendi í eiginlegri merkingu þess orðs, heldur punkt á fleti sem ruglað hefur verið saman við sjónahorn. Geirfugl er hér gott dæmi – heimsendir hans varð á 19. öld þegar dauði síðasta fuglsins átti sér stað í Eldey, lítilli eyju vestan af Reykjanesskaga.
Einnig tengir Geirþrúður sýninguna við Geirfinnsmálið, ráðgátu á Reykjanesskaga sem ekki hefur tekist að setja fram ásættanlega kenningu um þ.e. hvers vegna tveir menn hurfu árið 1974. Leirstyttan Leir-Finnur var gerð eftir framburði sjónarvotta, en hún varpar ljósi á lögmál sjónarhornsins og þá einföldu staðreynd að hún var látin mynda samofna heild. „Heimsendingarþjónusta“ skírskotar í þriðja lagi til herstöðvar Atlantshafsbandalagsins (NATO) og hins dularfulla hvarfs hennar. „Völlurinn“ varð að samheiti yfir Keflavík, sem jöfnum höndum var flugvöllur, hervirki og kaupstaður (nú þekkt sem Reykjanesbær). Þannig stóð nafn bæjarins fyrir þrjú ólík fyrirbæri sem voru til á þremur stöðum á sama tíma (eins og allir aðrir stafir stafrófsins hafi verið uppteknir). „Heimsendingarþjónusta“ vísar einfaldlega til þess hvernig hlutir hverfa á dularfullan hátt.
Sýningin mun standa til 14 nóvember. Suðsuðvestur er opið um helgar frá kl.14-17 og eftir samkomulagi (662 8785) Hafnargata 22, 230 Reykjanesbær. www.sudsudvestur.is