Mannlíf

Hvergi á förum á meðan það er gaman
Brynja Aðalbergsdóttir hefur verið leikskólastýra Vesturbergs síðan 2001.
Föstudagur 28. júlí 2017 kl. 06:00

Hvergi á förum á meðan það er gaman

-Leikskólinn Vesturberg fagnaði 20 ára afmæli nú í ár

„Ég er algjör barnakerling. Á meðan þetta er gaman og fólk vill hafa mig hér, þá verð ég hérna áfram,“ segir Brynja Aðalbergsdóttir, leikskólastýra Vesturbergs, en í ár fagnar leikskólinn tuttugu ára afmæli. Brynja hefur verið starfandi við leikskólann síðan árið 1999, en hún er menntaður leikskólakennari með mastersgráðu í stjórnun mennta- og menningastofnana frá Bifröst. Brynja hefur verið leikskólastýra Vesturbergs frá árinu 2001.

„Þetta er bara svo gaman og gefandi en þú þarft samt slatta af þolinmæði. Á meðan það er gaman þá tými ég ekki að hætta. Þetta er bara eins og risastórt heimili og alls konar sem kemur upp á. Númer eitt, tvö og þrjú þegar maður vinnur með börnum er ást og agi. Ef þú hefur það, þá nærðu þessu. Annað kemur svo bara. Þau verða að finna hver ræður, en líka það að virðingin sé gagnkvæm,“ segir Brynja.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024


Krakkarnir á Vesturbergi stilltu sér upp fyrir Víkurfréttir á 20 ára afmæli leikskólans.

Fylgdi börnum með myndavél
Hún hefur tvisvar sinnum fylgt barni í heilan dag á leikskólanum með myndavél en aðspurð um það hvernig leikskóli Vesturberg sé segir hún þau myndbönd lýsa því best. „Ég held það sé gaman að vera barn hérna. Svo er ég með ótrúlega flottan starfsmannahóp sem er algjört lykilatriði. Hér vinna allir vinnuna sína alveg með hjartanu. Það er það sem skiptir máli.“

Vesturberg var stofnað árið 1997 af Huldu Ólafsdóttur, en þar áður hafði Hulda stofnað Heiðarsel. Vesturberg fluttist svo í nýtt húsnæði árið 2008, sem var þó ekki langt í burtu frá því gamla, því starfsemin fluttist í næsta hús við hliðina. „Þegar við fluttum í þetta hús þá ætluðum við að hafa fjórar heimastofur og hafa þær aldursskiptar. Eftir næstum því ár í nýja húsnæðinu áttuðum við okkur á því að sú skipting hentaði okkur ekki. Við þurftum bara að kyngja því og viðurkenna það að svoleiðis ynnum við ekki, þetta var bara ekki Vesturberg. En við þurftum að selja foreldrunum þessa hugmynd og við gerðum það ótrúlega vel. Það gekk vel að blanda öllum krökkunum saman, óháð aldri.“ Brynja segir misjafnan aldur krakkanna á heimastofunum vera kostur og að hún myndi aldrei vilja fara aftur til baka í gamla horfið. „Þessi yngri læra svo ótrúlega mikið af þeim eldri og þessi eldri læra að taka tillit, vera til staðar og hjálpa. Þetta býður líka upp á það að systkini geta verið saman á heimastofu og sumir foreldrar velja það.“


VF-mynd: Hilmar Bragi

Ekki margar reglur á Vesturbergi
Brynja segir leikskólann virða sjálfsákvörðunarrétt barnanna og að þau ráði sér svolítið sjálf, þó innan ákveðins ramma. „Stundum langar þig ekki að perla eða pússla og villt frekar fara að mála. Þá bara ferð þú að mála. En þú berð líka ábyrgð á þínum ákvörðunum þó þú megir samt alveg skipta um skoðun. En frumkvæði barnanna og þeirra auður fær að njóta sín svona.“ Á Vesturbergi eru reglurnar ekki margar. Þar eiga börnin þó að vera góð hvort við annað og ekki er í boði að hlaupa á ganginum. „Hann er rosalega langur og freistandi þegar maður er lítill. En við ætlum að ganga á ganginum hérna.“

Á síðasta ári barnanna á leikskólanum er farið í markvissa kennslu. „Elstu krakkarnir eru svolítið sér. Þau eru bara með með kennara og fá nýjan staf í hverri viku til að læra og allt tengt honum, fara í vettvangsferðir og ýmislegt. Svo læra þau líka stærðfræði.“ Elsti hópur Vesturbergs er kallaður pennahópur og segir Brynja krakkana ótrúlega spennta fyrir því að komast í pennahóp. „Þú kemst bara ekkert hærra en í pennahóp. Við gerum svolítið mikið úr því á síðasta árinu. Þau fara í útskriftarferðir og það eru ýmsar uppákomur.“

Ekkert dót keypt
Þegar Brynja lítur til baka segir hún svakalega mikið hafa breyst á síðustu tuttugu árum leikskólans. „Ég byrjaði fyrst að vinna á leikskóla þegar ég var 19 ára og þá var þetta allt öðruvísi. Þá var í raun og veru bara verið að hafa ofan af fyrir börnunum allan daginn en í dag er þetta rosalega mikið nám. Það er þó lögð mikil áhersla á leikinn sjálfan. Þau læra svo ótrúlega mikið af því að leika saman. Ég kaupi til dæmis ekki tilbúið dót. Þau búa dótið bara til sjálf.“

Á Vesturbergi er boðið upp á venjulegan heimilismat en þar er fiskur í matinn allavega tvisvar í viku. Þá eru einnig ávextir í boði tvisvar á dag og vatnsbrunnar víðs vegar um húsið. „Þær í eldhúsinu hafa verið hérna frá upphafi og ég er mjög ánægð með eldhúsið.“


Brynja og Halldóra, aðalleikskólastýra, fremstar í flokki á afmælisskrúðgöngu leikskólans.

Öðruvísi blær að hafa stráka
Ekki margir karlar starfa sem leikskólakennarar og segist Brynja vilja sjá miklu fleiri karla í þessu starfi. „Það kemur öðruvísi blær að hafa stráka. Það eru tíu menntaðir leikskólakennarar hérna núna en það er enginn strákur að vinna hjá okkur í sumar.  En ég er með rosalega flottan kjarna. Ég er bara lukkunnar pamfíll. Það er svo meðvitað hjá mér að ráða nokkrar yngri stelpur líka. Ég veit að þær fara bráðlega aftur í skóla, en það er gott fyrir okkur gömlu að fá aðeins nýtt blóð hingað inn. Annars viljum við að sjálfsögðu fá menntaða kennara.“

Hún segir Reykjanesbæ hafa hlúð vel að leikskólum bæjarins. „Það eru tíu leikskólar í Reykjanesbæ og þeir eru allir æðislegir. Þeir eru ólíkir en rosalega flottir. Mikið og
faglegt starf í öllum þessum skólum. Reykjanesbær má bara vel við una.“

Kiddasalur á Vesturbergi
Vesturbergi er skipt niður í heimastofur, listastofu og ýmislegt fleira en eina svæðið í húsinu sem heitir ekki eftir neinum örnefnum er svokallaður „Kiddasalur“, en salurinn heitir eftir Kristni Veigari Sigurðssyni, sem lést langt fyrir aldur fram árið 2007, en hann var nemandi leikskólans. „Okkur vantaði að minnast hans einhvern veginn og fengum leyfi frá foreldrum hans til að nefna salinn „Kiddasal“. Salurinn er nýttur í eiginlega allt. Þarna hittumst við alltaf þegar það eru hátíðir en hann er opinn alla daga. Mér þykir voða vænt um þetta og krakkarnir tala um „Kiddasal“.“

Eftir tuttugu ár í bransanum segist Brynja að sjálfsögðu annað slagið verða þreytt. „Maður þarf alveg stundum hljóð í smá tíma. En ég hef svo gaman að börnum. Ef maður hefur það ekki þá hefur maður ekkert að gera hérna. Þegar ég mæti í vinnuna á morgnanna er gripið í lærið á manni og spurt: „Ertu komin?“ Það er bara ómetanlegt.“

[email protected]