Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hver dagur er ævintýri
Mánudagur 9. febrúar 2015 kl. 09:00

Hver dagur er ævintýri

Leikskólakennarar hvetja fólk af báðum kynjum til að kynna sér starfið og skella sér í nám.

Um 1300 leikskólakennara vantar til að uppfylla lagaákvæði um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda í leikskólum á Íslandi. Lítil endurnýjun er í stéttinni og innan fárra ára munu margir leikskólar vera í verulegum vanda vegna skorts á fagmenntuðu fólki. Enginn karlkyns leikskólakennari starfar í Reykjanesbæ. Sveitarfélagið hefur brugðist við þessu með því að veita nemum í leikskólafræðum leyfi á óskertum launum í vettvangsnámi og staðarlotum. Vonir eru bundnar um að það geri fleiri leiðbeinendum kleift að stunda nám með með vinnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

6. febrúar verður haldið upp á dag leikskólans en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólakennarar vinna öflugt og gott starf sem tekið er eftir og segja má að mikið álag sé á því fagfólki sem er innan skólanna er, en faglegt starf er á herðum fárra aðila. Í þessari umfjöllun segja svara nokkrir leikskólakennarar á Suðurnesjum spurningunni Hvers vegna er ég leikskólakennari? og gefa lesendum þannig innsýn í starfið. 

Bylgja Kristín Héðinsdóttir segir að hún beri mikla virðingu fyrir börnum og finnst gaman að vinna við krefjandi og skemmtilegt starf. „Í þessu starfi læri ég alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi; ég er bæði kennarinn og nemandinn. Rúmlega tvítug valdi ég að fara í Fósturskóla Íslands til þess að mennta mig sem fóstra, síðar leikskólakennari, og hafði ég mikinn áhuga á að vinna með börnum. Ég hafði unnið í leikskóla í nokkra mánuði áður en ég byrjaði í skólanum en maður getur aldrei verið alveg viss um hvort maður sé að fara rétta leið. Ekki einn dag síðan ég útskrifaðist hef ég efast um að ég væri í rétta starfinu. Að vinna við að mennta og sína framtíðinni umhyggju er eitt stórkostlegasta og mikilvægasta starf sem hægt er að hugsa sér. Því hvað erum við án framtíðar? Þetta starf er fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi og engir tveir dagar eru eins. Þegar ég mæti í vinnuna á morgnana mæta mér alltaf glöð, námfús og yndisleg börn sem bíða spennt eftir því njóta dagsins með mér. Hver dagur er ævintýri.“

Sigurbjört Kristjánsdóttir segir að börn gefi svo svo mikið af sér, séu fús til að læra og uppgötva umhverfið í kringum sig, skapandi og opin með sína einstöku hæfileika og lífsgleði.Á móti geti hún sem kennari gefið af sinni kunnáttu og færni til að efla þau áfram til alhliða þroska, bera virðingu fyrir hverjum og einum einstaklingi og leyfa honum að njóta sín í starfi og leik. „Ég er stolt af því að vera hluti af uppeldi barna sem undirbýr þau til frekari náms í samvinnu við aðra kennara, foreldra og samfélagið í heild. Það skiptir máli og hlúa vel að börnum og gera þau vel í stakk búin til að takast á við framtíðina. Það þarf sterka sjálfsmynd og félagslega hæfni til takast á við lífið og mitt hlutverk er einmitt að styrkja, hvetja, uppörva, sýna góðvild, þolinmæði og hlýju til barnanna.“ Sem leikskólakennari hefur Sigurbjört ótal tækifæri til að mennta sig frekar, kynnast nýjum aðferðum og leiðum sem nýta má í starfi með börnum. „Mér gefst tækifæri til að vera í kringum frábæra kennara og fagfólk sem ber hag barna fyrir brjósti. Það eru forréttindi að vera leikskólakennari, að hafa metnað til að glæða líf barnanna með áhugaverðu og skapandi umhverfi og eiga þátt í því að koma þeim til manns. Að upplifa hvern dag, hvernig sem skapið hjá manni er, að börnin eru þau sem lífga tilveruna með spurningum sínum, hreinskilni sinni, hlátri og húmor. Það hressir svo sannarlega í sálartetrinu hjá manni. Starfið er eins krefjandi og það er frábært, það er engin lognmolla í kringum börnin en þannig á það líka að vera.“ 

Hrönn Guðmundsdóttir var eitt sinn með þriggja ára börn í hóp og var að lesa fyrir þau úr bókinni Bína bálreiða. „Þau virtust ekki vera neitt sérlega áhugasöm að fylgjast með því sem ég var að lesa og ræða um. Svo heyrði leikskólastjórinn til þeirra og tók eftir að börnin virtust annars hugar. Þá spurði hún þau af hverju þau væru ekki að fylgjast með því sem ég var að segja. Þá teygir ein ljóshærð og bláeyg sig fram og segir: Af því að við nenntum ekki að hlusta á hana! Skilaboðin til mín voru þau: Stattu þig kennari og farðu aðra leið í að kenna okkur og leiðbeina. Þetta er virk og lifandi þátttaka í leikskólastarfinu sem er óborganleg upplifun.“ Gylfi Jón Gylfason, nú fræðslustjóri Reykjanesbæjar, hvatti Hrönn til að sækja um leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri árið 2001. Hún hefur aldrei séð eftir því að mennta sig sem slík. „Starfið er gefandi, krefjandi og heillandi að vinna með ungum börnum. Þau eru svo uppfull af áhuga á því sem er að gerast í kringum þau, opin og frjó. Ég hef starfað sem leikskólakennari í 10 ár og engin dagur er eins. Ég er enn að heillast af því sem börnin framkvæma og segja. Þau halda mér við efnið og láta mig vita ef ég er ekki að standast þeirra kröfur, þó á óbeinan hátt.“ 

Hafrún Ægisdóttir skellti sér á leikskólakennaranám þrátt fyrir að hafa aldrei unnið á leikskóla: „Hvað er betra og skemmtilegra en að vinna með börum allan daginn þar sem hlátur og gleði hafa völdin? Fá að upplifa og undrast með þeim yfir hlutum sem við fullorðna fólkið erum oft á tíðum hætt að taka eftir í umhverfi okkar. Í mínum huga er alger draumur að fá að taka þátt í að mennta og móta börn á mikilvægu æviskeiði.“ Í fyrstu var Hafrún frekar ráðvillt þegar hún var að reyna að finna sér nám sem henni fannst hæfa henni. „Ég byrjaði að læra viðskiptafræði í hálf ár, skellti mér svo í uppeldisfræði í hálf ár og inní því námi fór ég í vettvangsnám á leikskóla. Í því vettvangsnámi fann ég strax að mig langaði að læra leikskólakennarann, þannig ég skellti mér í námið án þess að hafa nokkurntímann unnið í leikskóla og sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun. Því það að  fá að fylgast með barni vaxa og dafna dag frá degi er yndislegt og í raun forréttindi. Ég útskrifaðist vorið 2012 og byrjaði að vinna þá um haustið þannig ég er bara rétta að byrja mitt ævintýri sem leikskólakennari og hlakka mikið til komandi ára.“

Í starfi sínu er Þórunni Kötlu Tómasdóttur oft boðið gull og grænir skógar af litlu vinunum sínum: „Þórunn, af hverju kemur þú ekki og gistir heima hjá mér um helgina? Þú getur bara sofið á milli mömmu og pabba, eða þau geta bara farið inn í mitt rúm, svo geturðu komið með okkur upp í sumarbústað“. Þórunn segist gera sér alltaf betur grein fyrir hversu mikilvægt það er að í leikskólanum starfi gott fagfólk og góðir leiðbeinendur. Tvítug byrjaði hún að vinna í leikskóla. „Ég ætlaði bara að stoppa stutt við á meðan ég ákvað hvað ég vildi mennta mig í. Leikskólakennaranám kom aldrei til greina hjá mér, ég ætlaði að verða eitthvað allt annað. Starfið náði að heilla mig upp úr skónum. Það var svo mikið frelsi, mikið af verkefnum og börnin voru svo skemmtileg. Þannig að ég sótti um í KHÍ. Starfið heldur áfram að veita mér gleði. Mér finnst frábært að taka þátt í að auka gæði kennslunnar. Það er erfitt að neita þessum tilboðum sem streyma inn reglulega . Ég geri mér alltaf betur og betur grein fyrir hversu mikilvægt það er að í leikskólanum starfi gott fagfólk og góðir leiðbeinendur. Á hverjum degi gerir þú eitthvað sem skiptir máli fyrir framtíð barnsins.“

Móðir Þóru Sigrúnar Hjaltadóttur var leikskólakennari og þegar Þóra velti fyrir sér námi og framtíð, þá stóð strax upp úr hvað mamma hennar var alltaf einstaklega glöð og ánægð í sínu starfi. „Hún talaði alltaf um starfið sitt af svo miklum eldmóð og hlýju, sagði frábærar og skemmtilegar sögur af starfsdögum sínum. Það var þess vegna sem ég ákvað að fara í leikskólakennaranám, því mig langaði svo sannarlega í starfsvettvang og framtíð fulla af gleði og ánægju.“

 

Árið 2004 ákvað Theodóra Mýrdal
 að sækja um í KHÍ í leikskólakennarafræðum og þeirri ákvörðun hef hún aldrei séð eftir. Eftir að hafa unnið við ýmis störf, allt frá verslunarstörfum í að starfa við ferðaþjónustu langaði hana að söðla alveg um og vinna með börnum. „Námið tók ég samhliða vinnu í leikskólanum Tjarnarseli og það var árið 2008 sem ég útskrifaðist frá KHÍ sem leikskólakennari. Mér finnst starfið veita mér öryggi, atvinnulaus leikskólakennari er örugglega vandfundinn, það er ef hann á annað borð vill starfa í leikskóla. Ég hlakka til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Ég á þátt í að móta unga huga, hef áhrif og lít á mig sem fyrirmynd. Mér er treyst til að kenna, hugga, knúsa, leiða og umfram allt að veita umhyggju 20 snillinga sem sýna manni á hverjum degi hvað veröldin getur verið ótrúleg og skemmtileg. Á síðasta ári fann ég þörf fyrir að bæta mig ennþá meira og hóf meistaranám við HÍ í sérkennslufræðum svo ég geti orðið ennþá betri við að annast snillingana ykkar.“ 

Þegar B. Sif Stefánsdóttir var 18 ára fékk hún vinnu í leikskóla og henni varð fljótt ljóst að að vinna með börnum væri afskaplega gefandi og skemmtileg. „Það er fátt sem jafnast á við það þegar börnin taka manni fagnandi á morgnana, slást um að fá að leiða kennarann sinn í vettvangsferðum og fá að sitja við hliðina á mér í samverustund. Það gleður hjartað og veitir yl út í daginn sem er ómetanlegt í annasömu starfi. Það þarf oft ekki mikið til að gleðja lítil börn og fá þau til að treysta og leita til okkar. Mér fannst starfið einnig hentugt að því leyti að vera alltaf í fríi um helgar, á sumrin og öllum helstu hátíðum. Þess vegna er starfið fjölskylduvænt auk þess að skemmtilegar uppákomur eru nánast daglegur bónus. Með árunum og reynslunni er ekki síður ánægjulegt að fá þann heiður að kenna þeim og leiðbeina á fyrsta stigi skólagöngunnar. “ Eitt sinn var Sif að kenna 5 ára börnum allt um stafinn F og reyndi með börnunum að finna orð og nöfn með F-i í. „Ein stúlkan var frekar óánægð með að hafa ekki F í nafninu sínu sem var María. Þegar hún skrifaði svo nafnið sitt í skriftarbókina datt henni fljótt í hug að breyta einum stafnum í F þannig að hún hét ekki lengur María heldur Mafía. Það er skemmst frá því að segja að hópurinn hló mikið af nýja nafninu hennar (og ekki síst annað starfsfólk sem heyrði af þessu) og öllum datt næst í hug að breyta nafninu sínu líka með því að bæta F-i í það. Já, það er gaman að læra í gegnum leikinn!“

Eftir að Ingibjörg Guðmundsdóttir byrjaði að vinna í leikskóla dóu fljótlega önnur áform um nám. „Þetta var rétta starfið þar sem það inniheldur allt sem máli skiptir. Gleði ríkir hvern dag enda er gleði ein af einkunnarorðunum á mínum vinnustað. Fjölbreytnin er mikil. Í leikskólanum er tekist á við allskonar verkefni við hinar ýmsu aðstæður inni sem úti. Fyrst og fremst er ég í starfi sem er uppbyggilegt og krefjandi og gríðarlega mikilvægt fyrir komandi framtíð. Börnin okkar eru framtíðin og því er starfið mikilvægt og ábyrgðarmikið. Það er ekkert dýrmætara en börn.“
 
 
Hallfríður Anna Matthíasdóttir segist vera leikskólakennari vegna þess að það sé skemmtilegt og gefandi starf. „Starfið er bæði krefjandi og þroskandi. Það er hægt að láta sér líða vel með börnum því þau eru einlæg og hreinskilin. Í gegnum leikinn lifir barnið í okkur og ég er svo heppin að fá að upplifa það á hverjum degi í mínu starfi. Það er auðvelt að vakna á morgnana og vita að dagurinn á eftir að vera eftirminnilegur með litlu gimsteinunum.“     
 
Hvað er skemmtilegra en að mæta til vinnu sem býður þér upp á ótal ný ævintýri daglega? segir Berglind Kristjánsdóttir. „Leikskólabörn lifa fyrir stað og stund og eru ávalt að kanna og uppgötva nýja hluti. Því er óhætt að segja að mín bíði stór hópur fróðleiksfúsra vísindamanna sem stöðugt sækja eftir aukinni þekkingu. Það að efla menntun og vellíðan barna ásamt því að kenna þeim á lífið og tilveru er mikilvægur þáttur í öllu leikskólastarfinu. Leikskólakennarar efla og styrkja nám barna og félagsleg samskipti þeirra í gegnum leikinn. Sú leið gerir börnum kleift að uppgötva einhverja áður óþekkta hæfni sem gerir daginn svo eftirminnilegan. Fyrir mér er afar fátt sem getur toppað það!“
 
Ragnhildur Sigurðardóttir hafði unnið sem leiðbeinandi við leikskóla Reykjanesbæjar og Skólasel í u.þ.b. tíu ár þegar hún fékk hvatningu um hún ætti að verða leikskólakennari. Sú hvatning ýtti henni áfram þó að henni fyndist hún frekar öldruð að fara í fullt nám til Reykjavíkur, en lét slag standa þegar hún sá fram á að hún myndi eiga tuttugu ár eftir á vinnumarkaðnum að námi loknu. „Ég hóf námið haustið 1996 og útskrifaðist með Bed. leikskólakennarapróf vorið 1999. Sú skólaganga var gleðin ein en auðvitað ekki fyrirhafnarlaus og eignaðist ég fullt af vinum þar fyrir lífstíð. Hóf síðan störf í leikskólanum Tjarnarseli en þar hafði ég verið í vettvangsnámi síðasta árið mitt í námi. Byrjaði sem sérstuðningur við fatlaðan einstakling og tveimur árum síðar var mér boðið að leysa aðstoðarleikskólastjórann af þegar hann fór í ársleyfi.“ Ári síðar varð hún ráðin aðstoðarleikskólastjóri og sinni því enn og hefur umsjón með lestrar- og skriftarkennslunni í Tjarnarseli. „Ómetanlegt er að fá að vera fyrirmynd og þátttakandi á framtíðarvegi hvers barns í leikskólanum, því börn eru bestu og skemmtilegustu manneskjurnar, einlæg, fölskvalaus, hrifnæm og yndisleg. Enginn dagur er eins, alltaf gefandi og gleðiríkur, fullur af ævintýrum og óvæntum uppákomum.
 Gaman er að taka þátt í spennandi starfi, þróunarverkefnum og kynna leikskólann fyrir öllum þeim sem koma sem nemendur eða  í heimsókn til að kynna sér nýjungar og gott og starf. Allt starfið og samneyti við börnin og fjölskyldur þeirra og gott samstarfsfólk hefur glætt og glatt mitt líf daglega s.l. fimmtán ár sem leikskólakennari.
“
 
 
(Frétt sett aftur inn vegna rafmagnsleysis þegar hún átti að birtast 6. febrúar)