Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvatningarverðlaun menntaráðs afhent
Hvataverðlaunahafar ásamt Sighvati Jónssyni, sem stýrði verðlaunaafhendingunni, og Helga Arnarsyni, sviðsstjóra menntasviðs Reykjanesbæjar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 9. júní 2024 kl. 08:19

Hvatningarverðlaun menntaráðs afhent

Hvatningarverðlaun Reykjanesbæjar voru afhent við hátíðlega athöfn í Bíósal Duus húsa á fimmtudag í síðustu viku. Það eru kjörnir fulltrúar í menntaráði sem velja úr innsendum tilnefningum og núna voru tvö verkefni jöfn, annars vegar verkefnin Lindin – stofnun og þróun sértæks námsúrræðis (Akurskóli) og hins vegar Faglegt og fjölbreytt starf í Öspinni (Njarðvíkurskóli) og hljóta þau bæði Hvatningarverðlaun menntaráðs. Að auki hlaut verkefnið Allir í skólann – snemmtæk íhlutun vegna skólaforðunar (Holtaskóli) sérstaka viðurkenningu.

Guðný Birna Guðmundsdóttir, formaður menntaráðs, bauð gesti velkomna.

Í rökstuðningi um verkefnið Lindin – stofnun og þróun sértæks námsúrræðis segir: „Velferð nemenda er mikilvæg og ekki síst þeirra sem mega sín minna. Í ljósi umræðu í þjóðfélaginu þar sem fjölskyldur hafa stigið fram og líst úrræðaleysi sveitarfélaga og skóla þegar kemur að málefnum barna með taugafjölbreytileika þá er mikilsvert að lyfta því upp sem vel er gert fyrir þennan hóp barna. Lindin er dæmi um starf sem hugar að velferð nemenda sem hefur heppnast einstaklega vel. Nú er verið að styðjast við þá uppbyggingu og þróun sem hefur verið unnin í Akurskóla vegna Lindar til að stofna annað sambærilegt úrræði í Reykjanesbæ við annan skóla til að þjónusta enn betur nemendur Reykjanesbæjar sem glíma við einhverfu eða taugabreytileika af þeim toga.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í rökstuðningi um verkefnið Faglegt og fjölbreytt starf í Öspinni segir: Margir litlir sigrar eru unnir í Ösp á hverjum degi enda er starfið allt framúrskarandi, faglegt og vel skipulagt. Það er einnig öðrum til eftirbreytni að sjá hvernig allir sem þar starfa í krefjandi umhverfi vinna að því að mæta ólíkum þörfum nemenda á sem fjölbreytilegastan hátt. Við finnum líka svo vel að horft er til starfsemi í Ösp frá öðrum utanaðkomandi fagaðilum og fær starfsemin hrós víða.

Jenný Þórkatla Magnúsdóttir, fjölskyldufræðingur við Holtaskóla, fékk sérstaka viðurkenningu fyrir verkefnið Allir í skólann – snemmtæk íhlutun vegna skólaforðunar. Sighvatur Jónsson sá um að veita verðlaunin.


Þau verkefni sem voru tilnefnd:

Listsköpun og listþerapía (Heiðarskóli)

Leik tónar (samstarfsverkefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Heilsuleikskólans Heiðarsels)

Vika6 (Stapaskóli - grunnskólastig)

Faglegt og fjölbreytt starf í Öspinni (Njarðvíkurskóli)

Farsæld barna í leikskólastarfi (Heilsuleikskólinn Heiðarsel)

Heilsuefling og vellíðan í leikandi skólastarfi (Leikskólinn Tjarnarsel)

Grúskarar í Skógarási (Heilsuleikskólinn Skógarás)

Lindin - stofnun og þróun sértæks námsúrræðis (Akurskóli)

Náttúrufræðikennsla/lesskilningur/námsefnisgerð (Myllubakkaskóli)

Allir í skólann - snemmtæk íhlutun vegna skólaforðunar (Holtaskóli)

Ég er Ásbrú (Háaleitisskóli Ásbrú)

„Hvar stend ég?" (Leikskólinn Akur og Leikskólinn Völlur)

Litaskrímslið (Stapaskóli - leikskólastig)


Jóhann Páll Kristbjörnsson, Ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir við afhendingu Hvataverðlaunanna.

Hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjanesbæjar | 30. maí 2024