Hvatning til að gera eitthvað jákvætt
Ingó Veðurguð heldur tónleika og segir sögur í Andrews Theater
Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, verður með tónleika sem hann kallar „Söngur og sögur“ í Andrews Theater á Ásbrú þann 20. apríl næstkomandi. Á tónleikunum fer hann yfir tuttugu ára feril sinn sem tónlistarmaður og segir kemmtilegar sögur honum tengdum. Það hefur blásið svolítið um Veðurguðinn síðustu misseri en hann lætur mótvindinn ekki halda aftur af sér og segir tónleikana vera sína leið til að rísa upp eftir að hafa gengið í gegnum hluti sem honum finnst hafa verið ósanngjarnir. Víkurfréttir fengu Ingó til að segja við hverju fólk megi búast.
Aldrei haldið alvöru tónleika í Reykjanesbæ
„Þetta er ný hugmynd sem ég fékk þegar ég fór að hugsa um að það eru tuttugu ár síðan ég byrjaði að spila með gítarinn og gefa út lög. Ég ákvað að það gæti verið gaman að blanda saman reynslunni og segja sögur, fyndnar sögur í kringum tónlistarbransann, hvernig lögin verða til og allt í kringum það.“
Ingó hefur haldið samskonar tónleika á Selfossi fyrir pakkfullu húsi, í Vestmannaeyjum, á Sauðárkróki og Blönduósi og hann segir tónleikana hafa fallið vel í kramið hjá fólki því þeir séu eins og uppistand og tónleikar í bland við samtal við fólkið úti í salnum.
„Svo langaði mig að koma hingað því ég hef mjög oft spilað á Suðurnesjum en aldrei haldið alvöru tónleika hér. Ég var með tónleika í Háskólabíói í fyrra og það var mjög margt fólk héðan sem mætti á þá. Þess vegna fannst mér spennandi að gera þetta hér og Andrews er líka eins og teiknað upp fyrir svona prógram.“
Veðurguðinn segir þessa dagsetningu, 20. apríl, hafa orðið fyrir valinu vegna þess að þá væri farið að vora. „Vonandi veðrið orðið gott og komin góð stemmning í bæinn.“
Tónleikar fyrir fólk með athyglisbrest
„Þetta er líka fyrir mig, að gera þessa hluti sjálfur. Gera sem mest sjálfur eftir að hafa gengið í gegnum margt sem mér fannst ósanngjarnt. Þetta er mín leið til þess, að halda bara tónleika og þá koma þeir sem vilja. Tónleikarnir hafa allavega fengið mjög góðar viðtökur hingað til.
Ertu að flytja nýtt efni líka?
„Já, svona í bland. Ég er samt mest að spila lög sem ég hef gefið út í gegnum tíðina, lög sem hafa náð í gegn og einhver lög sem ég hélt að myndu ná í gegn en gerðu ekki – og segi sögur því tengdu.“ Núna er Ingó að vinna í nokkrum lögum í hljóðveri og hann mun segja sögur af þeim og tilurð þeirra.
„Ég myndi segja að þessir tónleikar séu góðir fyrir þá sem eru með athyglisbrest, eins og flestir eru með núna,“ segir Ingó glottandi. „Af því þetta er svolítið hratt prógram. Það eru ekki langar útgáfur af lögunum eða neitt svoleiðis, heldur gerist þetta mjög hratt og fer úr einu í annað. Þannig að áheyrendur ættu að geta dottið inn í nokkurs konar ferðalag – ég myndi segja að þetta sé ferðalag í gegnum tuttugu ára feril þar sem ég flakka um landið með einn gítar. Ég næ vel utan um það konsept með því að fara í gegnum lögin mín og það allt saman.“
Nú hefur þú þurft að ganga í gegnum erfiða tíma, myndirðu segja að þeir hafi þroskað þig og skili einhverju í þetta verkefni?
„Já, að einhverju leyti. Aðalhugmyndin á bak við þessa tónleika var að mér fannst, og hefur fundist, erfitt að reyna að vinna áfram við það sem ég hef gert alla ævi. Þetta var í raun besta leiðin til þess. Ef ég myndi geta gert þetta á skemmtilegan hátt og fókusað á tónlist og sögur, bara fókusað á það sem er jákvætt, þá myndi fólk vilja koma og fyndist það bara skemmtilegt – og það hefur verið reynslan hingað til. Þetta var hvatning til að gera eitthvað jákvætt og veita fólki öðruvísi innsýn í tónlistarbransann sem virðist oft vera rosalega skemmtilegur og alltaf stuð – en svo eru alltaf sögur inn á milli þar sem maður hefur haldið gigg og það mæta bara fjórir,“ segir Ingó „Það er margt svona sem maður hefur lent í og ég mun fara yfir skrítnustu giggin á þessum tónleikum. Þá fær fólk svolítið aðra sýn á þessa hluti, að þó þú sért eitthvað þekktur á einhverjum tímapunkti þá er svo margt sem er skrítið því þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta alltaf bara litla Ísland.“
Gerir upp alla erfiðleika í einu lagi
Miðað við þá mynd sem Ingó dregur upp af tónleikunum munu þeir snúast meira um gleði, fyndni og stuð en að vera eitthvað uppgjör við fortíðina.
Þú ert ekkert að velta þér upp úr einhverju þunglyndi á þessum tónleikum?
„Nei, langt frá því. Ég hef litið á það þannig að ég er með eitt lag sem ég samdi og fer í raun í gegnum allan erfiðan tíma og geri hann upp í einu lagi. Frá þeim punkti er þetta meira stemmning og vonandi einhver góð lög fyrir fólk. Ég leyfi mér líka að segja mínar skoðanir á tónlist, hver séu bestu lög allra tíma að mínu mati og af hverju, hvað sé flott á gítarinn og hvernig lög eru oft samin. Það eru margir svoleiðis vinklar sem mér finnst gaman að segja frá. Ég held að fólki finnist gaman að heyra það í stað þess að setjast bara niður og hlusta á lög sem eru þrjár og hálf mínúta. Þetta er aðeins öðruvísi finnst mér og þá leiðist mér allavega ekki.“
Og hvað hlustar Ingó Veðurguð á? Hver er hans uppáhaldstónlist?
„Það er svona í tímabilum. Ég er svolítið í klassískri popp- og rokktónlist, þannig að maður hefur nánast tekið allt inn í gegnum tíðina og maður hefur stundum þurft að gera það. Það er líka skemmtilegt af því að ég byrjaði auðvitað bara sautján ára að spila á hótelum úti á landi. Þá settist maður bara niður með gítar og það voru kannski Þjóðverjar, Bandaríkjamenn eða Bretar í salnum sem voru að biðja um lög eftir allskonar listamenn. Þannig hefur maður uppgötvað marga tónlistarmenn í gegnum tíðina og er einhvern veginn með brot af tónlistarsögunni líka. Þetta eru eins og ég segi orðin tuttugu ár og ég veit ekki hve mörg gigg, stundum þrjú, fjögur hverja einustu helgi og örugglega að meðaltali tvö um hverja helgi í tuttugu ár sem maður hefur verið með gítarinn einhvers staðar. Inn í það safnast bæði mikil reynsla af tónlist annarra og einhverju sem maður hefur búið til sjálfur. Þannig að þetta kemur saman í einhvern pott sem maður getur vingsað úr það sem manni finnst skemmtilegast að spila.“
Þegar menn hafa verið svona lengi í þessum bransa, fá þeir ekkert leið á honum?
„Sko, ég kem alveg inn á það á tónleikunum. Það er á köflum, sumt er rosalega gaman að gera en annað er ekki eins gaman. Ég reyni að fara heiðarlega í gegnum að stundum er þetta ekkert rosalega skemmtilegt, það kemur skýrt fram á tónleikunum, og ég sýni t.d. hvað er á topp fimm yfir það sem þú átt aldrei að biðja tónlistarmann um að gera – sem maður er samt eiginlega alltaf beðinn um,“ segir Ingó og nefnir að það sér m.a. ákveðin lög sem allir sem eru í þessum bransa eru komnir með nóg af að spila.
Hefurðu fengið einhver viðbrögð við tónleikunum hérna?
„Núna þegar við erum að tala saman eru ennþá um þrjár vikur í tónleikana og það er samt mjög mikið farið af miðum. Ég er heppinn að hafa spilað mjög oft hjá allskonar fyrirtækjum og hópum hérna og ég var búinn að láta fólkið vita af miðum í forsölu – líka til að vera viss um að veri einhverjir mæti. Það hefur gengið vel að koma miðasölunni af stað og núna eru þeir komnir í almenna sölu á tix.is. Það var nauðsynlegt að kanna aðeins jarðveginn fyrst og ég finn að þetta verður geggjað kvöld,“ lofar Veðurguðinn að lokum.
Miðar á tónleikana eru í sölu á tix.is