Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvatagreiðslur fyrir eldri íbúa
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 13. janúar 2024 kl. 06:06

Hvatagreiðslur fyrir eldri íbúa

Nú um áramót tóku í gildi reglur í Reykjanesbæ um hvatagreiðslur sem niðurgreiða íþróttir og tómstundir fyrir íbúa, 67 ára og eldri. Víkurfréttir ræddu við Hafþór Barða Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúa Reykjanesbæjar, sem fór yfir hvernig fyrirkomulagi hvatagreiðslnanna er háttað.

„Það er rétt að Reykjanesbær býður nú í fyrsta sinn hvatagreiðslur til 67 ára og eldri,“ segir Hafþór Barði. „Það er almanaksárið sem gildir þannig að þeir sem verða 67 ára á árinu eiga rétt á hvatagreiðslunum sem nema 45 þúsund krónum á ári og með þeim viljum við hvetja eldri borgara til frekari þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi, sama hvort það leggur stund á leikfimi, sund, golf eða tónlistarnám. Það skiptir ekki öllu hvaða íþrótt eða tómstund viðkomandi velur, aðalatriðið er að auðvelda fólki að vera áfram virkt í sínu samfélagi. Þess ber að geta að ónýttar hvatagreiðslur fyrnast um hver áramót en safnast ekki upp.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hafþór bendir jafnframt á að hvatagreiðslur falli vel að stefnu Reykjanesbæjar í lýðheilsumálum. „Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag og markmiðið er að halda íbúum heilsuhraustum eins lengi og kostur er. Við viljum að fólk geti verið eins lengi og það vill heima hjá sér og þurfi ekki að leggjast inn á stofnun heilsu sinnar vegna. Með þátttöku í tómstundastarfi spornar fólk við andlegri og líkamlegri hrörnun og eykur þannig lífsgæði sín.

Það má ekki gleyma félagslega þættinum sem er fólginn í því að hitta annað fólk reglulega. Ef fólk gefur sér ekki tíma til þess er hætt við félagslegri einangrun sem bitnar þá á andlegri heilsu viðkomandi. Andlegt heilbrigði er ekki síður mikilvægt en líkamlegt, ekki síst eftir því sem maður eldist.“

Hvernig ber fólk sig að til að nýta hvatagreiðslurnar?

„Mörg íþróttafélög eru að nota kerfið Sportabler. Þar skráir maður sig með rafrænum hætti í félög, tómstundir eða á námskeið og þegar kemur að greiðsluþættinum er boðið upp á að láta hvatagreiðslu ganga upp í gjaldið. Ég hef rætt við forsvarsmenn deilda og félaga sem eru boðnir og búnir að aðstoða þá sem þess þurfa við skráninguna en við vitum vel að fólk kann misvel á tölvur og þess háttar.

Svo er líka hægt að borga á gamla mátann og koma með kvittun á þjónustuborðið í ráðhúsinu. Þá þarf að fylla út eyðublað með bankaupplýsingum til að leggja hvatagreiðslurnar inn á. Það verður svo gert innan tveggja vikna en ég þarf að yfirfara og skrá allar beiðnir.“

Ekki aðalatriðið í hvað fólk notar hvatagreiðslurnar

„Við höfum ekki sett neinar takmarkanir á í hvað fólk geti notað hvatagreiðslurnar. Það sem við viljum fyrst og fremst sjá er að fólk nýti þær í eitthvað uppbyggilegt fyrir sjálft sig, eitthvað sem stuðli að bættri heilsu og heilbrigði. Ég á ekki von á því að fjöldi þeirra sem nýti hvatagreiðslurnar verði það mikill að kostnaðurinn fari úr böndunum, það hefur reynslan sýnt í öðrum sveitarfélögum sem hafa tekið upp sambærilegar greiðslur, en ef það gerist þá þurfum við bara að endurskoða málin – aðalmálið er að virkja fólk til að vera hluti af þessu heilsueflandi samfélagi okkar.“

Allar upplýsingar um hvatagreiðslur fyrir íbúa, 67 ára og eldri, í Reykjanesbæ er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins [www.reykjanesbaer.is].