Hvalaskoðun með rútum frá SBK
Sérleyfisbílar Keflavíkur (S.B.K.), brydda upp á þeirri nýung í sumar að verða með ferðir um Reykjanesið og eru þar í samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækið Hvalstöðina. Ferðamönnum býðst að verða sóttir á hótel og gististaði í Reykjavík og nágrenni, sem og í Reykjanesbæ. Þeir sem ætla í hvalaskoðun eru settir af við smábátahöfnina í Keflavík, en aðrir fara hinn dæmigerða hring um Reykjanesið. Komið við á áhugaverðum stöðum á nesinu, s.s. Reykjanesvita, Grindavík; þar sem höfnin verður skoðuð ásamt kirkju sem breytt hefur verið í leikskóla. Þá verður litið við í Eldborg og endað á sundferð í Bláa lónið. Reiknað er með að ferðin taki um 6 klst fyrir þá sem sóttir eru til Reykjavíkur, en 4 klst fyrir þá sem gista í Reykjanesbæ. S.B.K. verður með áætlunarferðir frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur, í Garð og Sandgerði í sumar, en einnig verða farnar tvær ferðir á dag í Bláa lónið.Fyrirtækið verður einnig með mikið af hópferðum í sumar fyrir íþróttafélög, ferðamenn og fleiri hópa, en á síðasta ári fóru bílar fyrirtækisins t.d. 16 hringferðir um landið.