Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 21. ágúst 2000 kl. 11:01

Hvalaskoðun frá Keflavík vinsæl

Þann 7.sept. 1994 var farið í fyrstu hvalaskoðunarferðina frá Keflavík, að frumkvæði Helgu Ingimundardóttir. Farið var með Ólafi Björnssyni á bát hans, Hnoss, sem er tæpir 10 metrar á lengd. Helga hafði velt þessu nokkuð fyrir sér og taldi nauðsynlegt að fara út að Eldey, til þess að sjá nokkuð, sem útlendingar hefðu áhuga á. Í þessa fyrstu ferð fóru þrenn ensk hjón, Nokkrar hrefnur sáust og mikið af fugli, mest súlu, að sjálfsögðu. Ferðin tók um 6 tíma. Fólkið var ánægt með ferðina, en greinilega var þetta í lengra lagi fyrir fólk óvant sjó. Sjór er sjaldan alveg kyrr þarna úti. Í næstu ferð var farið 28. sept, Þá kom Helga með 6 Þjóðverja. Komið var að mikilli höfrungavöðu sunnan við Stafnes og miklu af fugli, súlunni ringdi niður, lengra var ekki farið. Þótt ekkert sæist stærra en höfrungar og fjölbreytt fuglalíf, uppfyllti það vel væntingar Þjóðverjanna, þeir gera þó hvað mestar kröfur þess sem boðið er upp á. Fleiri urðu ferðir ekki með farþega gegn gjaldi 1994, en nokkrar ferðir voru farnar með fólk til kynningar o.fl. . Aðstaða í Grófinni var og er eins og best verður á kosið. Helga hélt áfram að kynna hvalaskoðunarferðir út að Eldey og vorið 1995 var nokkuð spurt fyrir um hvalaskoðun. Þegar kom fram á sumarið fjölgaði hvalaskoðunarferðunum. Aðeins tvisvar var farið út að Eldey sumarið 1995. Oftast dugði að fara út í Garðsjó, þar brást sjáldan að hitta á höfrunga, stundum sáust hrefnur og fyrir kom að hnúfubakur sást og alltaf mikið af fugli, sem margt fólk virtist lítið síður leggja upp úr að sjá. Höfrungarnir eru mjög skemmtilegir, þeir synda með bátnum og fara í loftköstum þegar vel liggur á þeim, sem oftast er. Oft var farið með fátt fólk, jafnvel einn eða tvo, en 4 til 6 var algengast. Hámark í ferð voru 10. Skoðunarferð út í Garðsjó tekur aðeins 3 tíma og það reyndist mjög hæfilegur tími fyrir flesta. Farið er grunnt með Hólmsberginu og fuglarnir skoðaðir, þar er meira af þeim en menn ætla að óreyndu. Farþegar sem greiddu fyrir far 1995 urðu 145. Helga fór oftast með, sem leiðsögumaður. Að auki fór Helga nokkrar ferðir með fólk á fiskibátum. Kynning á þessum ferðum fór að skila árangri, 1996 urðu farþegarnir 432. Aðeins þrisvar var farið út að Eldey það sumar. Hnoss var eini báturinn í þessum ferðum hér um slóðir þar til vorið 1997, þá byrjuðu þeir Jón Sæmundsson og Valdimar Axelsson, skoðunarferðir á bát sínum Hvalbak. Hann er nokkru minni en Hnoss. Þeir gengu líka til samstarfs við Helgu. Samstarf var haft við SBK um flutninga farþega úr Reykjavík. Hnoss og Hvalbakur tóku uppí 12 farþega hvor. Farþegum fjölgaði mikið 1997, þá komst fjöldi þeirra í um 1300 og „útgerðin“ stóð þá nokkurnveginn undir útgjöldum í fyrsta sinn. Vorið 1998 kom Guðmundur Gestsson með bát, sem hann flutti inn frá USA. Sá bátur hentar vel í skoðunarferðir, hann tók 25 farþega. Helga sleit samstarfinu í sumarbyrjun ´98 og tók á leigu bát frá Patreksfirði, Lindu, sem tók 30 farþega. Upphaflega var það tollbátur í Reykjavík og hentaði ekki vel í þetta verkefni. Ennfremur bættist við bátur úr Hafnarfirði, sem á sínum tíma var fluttur inn frá Svíþjóð og var farinn að láta mikið á sjá. Á ýmsu hafði gengið með útgerð hans, nú hét hann Andrea. Árið áður var hún í skoðunarferðum frá Hafnarfirði með litlum árangri, Nú hélt hún sig mest í Keflavík, eitthvað var það tengt Kynnisferðum og ráðamönnum Bláa Lónsins. Andrea tekur um 50 farþega. Sætaframboð, jókst því mikið 1998 eða úr um 50 í um 125. þrátt fyrir mjög mikla fjölgun farþega stóðst þetta ekki. Haustið ´98 stofnuðu eigendur bátanna Hnoss, Hvalbaks og Gests hlutafélagið Hvalstöðin, ásamt SBK og Kaffi Duus, til þess að auglýsa og markaðssetja starfsemina. Kaffi Duus reyndist þessari starfsemi mikil búbót. Um haustið keypti Gunnar Garðarsson Hnoss. Vorið 1999 féll Linda út en Helga tók Andreu á leigu, Guðmundur lét lengja Gest svo hann gat tekið 35 farþega. Sætaframboðið minnkaði því um nær 20 það sumar. Enn fjölgaði fólki í hvalaskoðunarferðir mikið sumarið 1999. Um haustið seldu eigendur Hnoss og Hvalbaks hlut sinn í Hvalstöðinni, Gestur varð því eini báturinn í félaginu og öllu samstarfi milli bátanna hætt. Vorið 2000 varð mikil fjölgun í hvalaskoðunarferðir strax í maí. Elding, sem tekur um 100 farþega bættist í flotann með aðsetur í Sandgerði, en oft í Keflavík. Ekkert samstarf var með útgerðum bátanna. Í byrjun júní, hóf flugfélagið Atlanta, dagsferðir frá London til Keflavíkur á sunnudögum, með vélum sem taka nær 400 farþega. Kynnisferðir sáu um móttöku á farþegunum, flestir virðast fara í hvalaskoðunarferðir. Kynnisferðir komu með „skemtiferðaskipið“ Brimrúnu í eigu Sæferða ehf. í Stykkishólmi, glæsilegan og hraðskreiðan bát, sem keyptur var frá Noregi og endurbættur í Hólminum, hann tekur 120 farþega. Brimrún ásamt Gesti, fór tvær ferðir dagana sem þetta flug kom. Fólkinu var skipt, meðan hluti fór í sjóferð fór annar hluti í Bláa Lónið. Sæferðir ehf. eiga annað, nær samskonar skip, Særúnu. Sunnud. 30. júlí komu þau bæði til Keflavíkur og fóru tvær ferðir hvor í hvalaskoðu með „fullfermi“. Í norðanátt hafa stærri bátarnir gjarnan farið til Grindavíkur og þaðan í hvalaskoðun, en reyndin hefir orðið sú að frá Keflavík er jafn best að fara, höfrungarnir og fuglalífið duga vel til þess að uppfylla væntingar flestra, en stærri skepnur eru vissulega mikil uppbót þegar þeim þóknast að sýna sig. Allt sækir þetta í Garðsjóinn. Í upphafi var ætlunin að stunda veiðar með sjóstöng á Hnossi og nú er það orðið aðalverkefnið fyrir þann bát aftur, sama má segja um Hvalbak. Báðir dugðu vel til þess að ryðja brautina. Allir bátarnir eru samhliða hvalaskoðun leigðir til hverskonar skoðunarferða og skemmtisiglinga, þeir stærri gjarnan fyrir smærri veislur og hverskonar uppákomur. Allt verður þetta sí vinsælla. Ólafur Björnsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024