HVALAGANGA Í NJARÐVÍK
Ingibjörg S. Danivalsdóttir fæddist árið 1913 á bænum Litla-Vatnsskarð í Laxárdal í Vestur Húnavatnssýslu. Hún kom árið 1933 í Njarðvíkurnar og var þá vinnukona á Völlum hjá Valdimari Björnssyni, útgerðarmanni og Sigríði Árnadóttur konu hans. „Ég minnist þess þegar stóra hvalagangan var í Njarðvíkunum. Ég gleymi því aldrei þegar hvalina rak upp í fjöru. Ég hef aldrei séð brjálaðara fólk en þegar þetta gerðist. Karlarnir misstu alveg stjórn á sér og skutu hvalina. Ég hefði getað grátið þegar ég horfði á þetta. Ég smakkaði aldrei hvalkjötið en það var mikið notað því þetta var geysimikill matur. Flestar minningar frá veru minni hér í Njarðvík eru góðar og sérstaklega vil ég þakka fólkinu sem hér býr og hefur búið“, segir Ingibjörg.