Mannlíf

Hvað viltu verða þegar þú verður stór?
Miðvikudagur 17. október 2018 kl. 08:54

Hvað viltu verða þegar þú verður stór?

Nemendur áhugasamir og opnir fyrir ýmsum störfum

Starfsgreinakynning fyrir grunnskólanemendur á Suðurnesjum hefur verið haldin reglulega frá árinu 2012 og hefur vaxið með hverju árinu. Hátt í hundrað ólíkar starfsgreinar voru kynntar fyrir grunnskólanemendum í íþróttahúsinu við Sunnubraut á dögunum og mátti sjá nemendur kynna sér hin ýmsu störf með opnum hug. Margir krakkarnir voru á því að starfið þyrfti að vera skemmtilegt fyrst og fremst, launin væru ekki endilega í fyrsta sæti. Kynningin er mikilvægur þáttur í því að auka starfsvitund og skerpa á framtíðarsýn ungs fólks. Henni er sérstaklega beint að eldri nemendum grunnskólanna meðal annars vegna þess að hlutfall þeirra 10. bekkinga sem halda áfram námi að loknum grunnskóla hefur verið lægra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu síðustu ár.

Bregður við að heyra launin

Leikskólakennararnir Halla og Rut fengu talsvert af heimsóknum á sinn bás. „Krakkarnir eru duglegir að koma til okkar og kynna sér starfið. Þau muna mörg hver eftir sinni leikskólagöngu þannig að það kveikir hjá þeim áhuga. Þau spyrja helst um launin og lengd háskólanámsins. Þeim bregður að heyra af laununum og það er greinilegt að þau hafa verið að kynna sér laun annarsstaðar. Þegar þau heyra okkar grunnlaun þá hörfa þau frá,“ segir Halla.

Public deli
Public deli

Kynfræðingurinn Sigga Dögg var með bás á kynningunni og naut talsverðra vinsælda. „Hún sagði mér að það væri mjög gaman að vera kynfræðingur og að maður myndi læra allt um kynlíf og alls konar. Það var gaman að tala við hana,“ sagði einn strákurinn sem Víkurfréttir spjölluðu við.

Dircelene Gomes er nýútskrifuð sem fiskeldisfræðingur en hún vinnur í Höfnum. „Ég fór óvart í þetta nám. Ég sá þetta auglýst og ákvað að prufa. Þetta er bara ótrúlega skemmtilegt, vinnan fjölbreytt og ég mæli alveg með þessu.“ Námið er árs diploma og fer fram á Hólum. Básinn hjá Stofnfiski var mjög vinsæll en krakkarnir voru spenntir fyrir því að fá að handleika fiskana og skoða hrognin.

Mætti kynna starf hjúkrunarfræðinga betur

„Mér finnst fólk almennt ekki meðvitað um hvað við erum að gera. Það mætti huga að því að kynna betur það sem við erum að fást við. Það eru kannski bara þeir sem hafa þurft á þjónustunni að halda sem gera sér grein fyrir því,“ sagði hjúkrunarfræðingurinn Ásta Bjarnadóttir. Viðtöl við hressa krakka og fagfólk úr öllum áttum má sjá í Suðurnesjamagasíni vikunnar.