Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvað segir unga fólkið um nýjan áratug?
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
fimmtudaginn 30. janúar 2020 kl. 16:18

Hvað segir unga fólkið um nýjan áratug?

Nú þegar nýr áratugur er genginn í garð setjast mörg hver niður og velta fyrir sér hver næstu skref verða. Nóg er af markmiðasetningum og lífsstílsbreytingum allt um kring, hvers kyns sem þær eru, og flestir leggja sig fram við að komast smám saman nær draumum sínum.
Víkurfréttir heyrðu í ungu fólki frá Suðurnesjum og fengu að vita hver plön þeirra fyrir 2020 væru.

Sara Lind Ingvarsdóttir: Klára BS-gráðuna

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég stefni á að klára námið mitt í sumar og þá vonandi útskrifast með BS-gráðu í efnafræði í október. Þegar ég klára BS-verkefnið mitt í sumar væri draumur að ná að fara eitthvert út í nokkrar vikur að safna köfunum í sjálfboðastarfi við að hreinsa sjóinn og strendur. Eftir útskriftina ætla ég svo bara að leita mér að vinnu og finna út í hvaða framhaldsnám mig langar.“

Hilda Mar Guðbrandsdóttir: Bíð spennt eftir sumrinu

„Ég hef á tilfinningunni að 2020 verði gott. Ég kem til með að útskrifast með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri í vor sem og klára bókhaldsnám frá NTV. Einnig starfa ég sem flugfreyja hjá Icelandair yfir sumartímann og bíð ég spennt eftir komandi sumri.

Einu markmiðin sem ég hef sett fyrir 2020 er að huga betur að andlegu heilsunni og einnig að bæta hreyfingu inn í rútínuna. Ég gerði heiðarlega tilraun árið 2018 og hreyfði mig einu sinni og er ennþá alltaf á leiðinni aftur eftir þetta eina skipti fyrir bráðum tveimur árum, viðurkenni að ég þarf aðeins að girða mig í þeim málum. Annars mun ég halda áfram að skapa dýrmætar minningar með fjölskyldunni minni og vinum.



Árný Sif Kristínardóttir: Til Las Vegas

„Árið 2020 mun ég útskrifast sem geislafræðingur og vonandi byrja að vinna fullt starf við það. En svo er planið bara að hafa gaman en í maí er ég til dæmis á leiðinni til Las Vegas í útskriftarferð.“

Melkorka Rós Hjartardóttir: Halda áfram að vinna í sjálfri mér

„Fyrst og fremst ætla ég að ná að verða stúdent í maí, taka upp meiri tónlist í janúar/febrúar og gefa út tónlist seinnipart árs. Ég ætla að spila á nokkrum stöðum og svo er líka fullt af dagskrá með Gospelkór Jóns Vídalíns. Annars ætla ég að halda áfram að vinna í sjálfri mér sem skiptir alltaf mestu máli, vera meira með fjölskyldunni og vinum þar sem að eftir útskrift hefur maður meiri tíma.“

Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir: Útskrift í júní

„Ég ætla að klára BA-ritgerðina mína í uppeldis- og menntunarfræði og útskrifast í júní, verð að vinna 50% í farþegaafgreiðslunni hjá Icelandair með því og svo er ég í fótboltanum í Keflavík. Eftir sumarið hugsa ég að ég reyni að finna vinnu við eitthvað tengt náminu mínu.

Una María Magnúsdóttir: Minnka kolefnissporið mitt

„Ég hyggst halda áfram í listnáminu sem ég er í við Gerrit Rietveld-akademíuna í Hollandi og ég ætla að minnka kolefnisfótsporið mitt, til dæmis með því að hætta að kaupa matvæli o.þ.h. í plastumbúðum, hjóla þangað sem ég þarf að fara og svo spara vatn og rafmagn eins og ég get.“