Hvað minnir þig á jólin? Þrettán lesendur svara
Hvað minnir fólk á jólin. Víkurfréttir leituðu til þrettán (jólasveina) lesenda og lögðu þessa spurningu fyrir þeirra.
Veiga Sigurðardóttir:
„Fallegu jólaljósin sem koma og skína í hverri götu.“
Hlíf Káradóttir:
„Smörlíkisauglýsingin sem við sungum með Ríó tríó, æði. Það sem var gaman að leika jólasveininn og fara með jólakort a milli húsa. Eplalyktin dásamlega, appelsín og malt. Og stóra jólatréð, síðasta tréð í Nonna og Bubba, ég dróg það heim, auðvitað snjór. Tréð náði upp í loft, ég var nýflutt, vantaði jólaskraut, svo ég setti tréð út i horn og skreytti það bara að framan, maður bjargar sér sko.“
Ómar og Magga:
„Lyktin af nýjum eplum sem komu á þessum árstíma frá Bandaríkjunum.“
Hildur Sigfúsdóttir:
„Laufabrauðsgerð og börn að væla yfir aðgerðaleysi foreldra í skreytingum.“
Tómas J. Knútsson:
„Ég gleymi ekki eplalyktinni úr gámunum sem við fluttum með Jökulfellinu rétt fyrir jólin, alveg yndislegt alla leiðina yfir hafið.“
Jóna Fanney Holm:
„Sjónvarpsauglýsingar eru miklar þessa dagana, meðal annars eru bækur auglýstar.“
Helga Ragnarsdóttir:
„Lyktin af heimagerða rauðkálinu.“
Heba Ingvarsdóttir:
„Eplailmurinn í kaldri geymslunni en mamma geymdi alltaf jólaeplin þar og smákökurnar sem hún hafði bakað. Þar voru einnig tveir trékassar með malt og appelsín í glerflöskum. Ilmurinn var dásamlegur í geymslunni.“
Hjördís Árnadóttir:
„Hvernig við leitum leiða til að lýsa upp svartasta skammdegið og efla nánd fjölskyldunnar.“
Kristjana Jóhannesdóttir:
„Heitt súkkulaði með rjóma, eplalyktin og aðfangadagskvöld með öllu mínu fólki sem barn hjá ömmu og afa heima á Ísafirði, yndislegt að rifja upp dásamlegar minningar.“
Sveindís Valdimarsdóttir:
„Kertaljós og eplailmur.“
Ágústa Guðrún Gylfadóttir:
„Lesnar auglýsingar í útvarpinu með jólalagi undir, jólaljósin í glugganum og jólastúss heima við.“
Hrafnhildur Gunnarsdóttir:
„Ekkert stress, bara gaman að undirbúa jól, styttir skammdegið.“