HVAÐ ER ÞAÐ SEM ÆSIR KONUR?
Stæltir stóðhestar:Hvað er það sem æsir konur?Skyldi það vera skírlífur munkur, bassagítarleikari eða kannski læknir?Vinirnir Barði, Hermann, Geir, Leifur og Ævar velta slíkum spurningum fyrir sér þegar til stendur að vinna sér inn auðfengið fé með því að fækka fötum fyrir dömur bæjarins.Þeir félagar eru heldur týndir, flestir atvinnulausir og lífið virðist ekki hafa neina sérstaka stefnu, nema að vera skyldi á næsta bar. Líf þeirra tekur þó nýja stefnu þegar sýning er ákveðin og undirbúningur að fatafelluskemmtan þeirra hefst. Gaman er að fylgjast með þeim félögum og tilburðum þeirra í byrjun sem eru frekar vandræðalegir enda erfitt að sjá hvað Hómer og kynhvatir eiga sameiginlegt. Með tilkomu dansarans Brendu sem leiðbeinir piltunum ungu harðri hendi fer að komast mynd á sýningu vinanna en vinnan reynir um margt á samband þeirra auk þess sem þeir hafa ýmsar efasemdir um eigin getu til þess að kveikja í konum.En þetta snýst allt saman um kjark og sjálfstraust og sigur þeirra félaga er að stíga á svið þegar stundin rennur upp. Afgangurinn var hrein skemmtan en annars aukaatriði.Þeir félagar í Leikfélagi Keflavíkur sýna mikinn kjark með þessari uppfærslu sem er metnaðarfull og skemmtileg. Sviðsmynd var frekar einföld en lýsing mjög vönduð. Velti undirrituð því þó fyrir sér hvort ekki hefði mátt mála aðstæður piltanna og það sem knýr þá til slíkra örþrifaráða sterkari litum Í hlutverkum félaganna fimm sem reyna fyrir sér í fatafellubransanum eru þeir Jón Marínó Sigurðsson í hlutverki Barða, Sigurður Arnar Sigurþórsson í hlutverki Geirs, Arnar Fells Gunnarsson í hlutverki Hermanns, Alexander Ólafsson í hlutverki Leifs og Davíð Guðbrandsson í hlutverki Ævars. Hulda Guðrún Kristjánsdóttir leikur þjálfarann Brendu og Örn Ingi Hrafnsson leikur hinn háðska Garðar.Þótti mér allir standa sig með prýði og sérlega gaman var að fylgjast með Arnari Fells Gunnarssyni sem fór á kostum sem “looserinn” Hermann og átti salinn allan. Það er enginn skortur á góðum leikurum hjá L.K. og óska ég þeim sem fóru alla leið til hamingju með frábæra sýningu.Dagný Gísladóttir