Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 12. nóvember 1999 kl. 22:55

HVAÐ ER AÐ GERAST Í HEILBRIGÐISSTOFNUN SUÐURNESJA?

Ritstjóri Víkurfrétta hefur góðfúslega farið þess á leit við undirritaðan, að fá í blaðið til birtingar reglulega pistla um þá þætti sem efstir eru á baugi hjá okkur hverju sinni. Það vakir eflaust fyrir ritstjóranum að slíkt myndi geta tengt almenning nánar þeirri stofnun sem daglega tengist lífi þess. Það er ánægjulegt að geta orðið við þeirri beiðni því ekkert er okkur jafn kært en að geta komið á móts við það fólk sem við eigum að þjóna. Það hefur stundum borið við í okkar samfélagi að gagnrýnisraddir hafi fengið stórt rými til afnota og lítið orði aflögu til málefnalegrar umfjöllunar. Sú ánægjulega þróun sýnist manni vera að verða á starfsemi fjölmiðla hér í bæ að betri gaumur sé gerður að því sem jákvætt er enda fyllilega ástæða til. Umhverfi okkar hefur tekið miklum breytingum að undaförnu, bærinn fríkkar og hingað flyst fólk með uppbyggilegar hugmyndir og reynslu að baki. Við sem vinnum á H.S.S höfum svo sannarlega fundið fyrir þessum breytingum. Innan húsveggjanna býr nú mikill mannauður. Ungir vel menntaðir læknar hafa hópast hingað erlendis frá hver með sitt sérsvið til að mæta kröfum ört blómstrandi samfélags. Samstæður hópur hefur í för með sér glaðværa stemmningu og smitandi jákváætt viðmót útávið. Teknar hafa verið upp nýjungar í starfi sem áður þekktust ekki og vonandi er háægt að miðla hluta þeirra í pistlum sem þessum. Sú almenna skoðun er hér ríkjandi innan húss að fyrirtækið eigi framtíð fyrir sér, það sannar d-álman sem nú er vel á veg komin. Sá sem þessi orð ritar telst nú orðið til eldri kynslóðar lækna hér á svæðinu og hefur fengið að fljóta á öldum líðandi stunda þar sem stundum hafa skipst á skyn og skúrir. Að upplifa nýtt blóð áhugasamra samverkamann hlýtur alltaf að vera hvetjandi. Saman munum við halda áfram að veita þá þjónustu sem við best kunnum. Á næstu vikum munu lesendur VF fá borið á borð sendingar sem ýmist geta verið í formi ráðlegginga, upplýsingar um nýungar eða sjúkdóma, stjórnunarlegs eða faglegs eðlis. Fagfólk, hvert á sínu sviði mun taka þátt í þessari pistlagerð svo þunginn leggist ekki á of fáar hendur. Efniviðurinn er óendanlegur það er aðeins að vinna úr honum. Á næstu viku verður kynnt aðferð í meðhöndlun á þvagleka hjá konum sem við höfum nýlega tekið upp og valdið hefur straumhvörfum í meðhöndlun á þessum leiða kvilla. Góðar stundir Konráð Lúðvíksson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024