Mannlíf

Hvað ef hann hefði fengið að lifa?
Arnar er fimm barna faðir sem starfar á leikskólanum Sólborg í Sandgerði.
Laugardagur 2. mars 2019 kl. 06:00

Hvað ef hann hefði fengið að lifa?

Dagbjartur kom í heiminn á fallegum vetrardegi í febrúar um aldamótin 2000. Þegar keyrt var yfir heiðina, á leiðinni upp á spítala í sjúkrabílnum, var Dagbjartur farinn að gægjast út og hlaut því millinafnið Heiðar. Eins fljótt og hann kom í heiminn grunaði engan að Dagbjartur Heiðar yrði einungis ellefu ára gamall en hann tók sitt eigið líf sökum eineltis í september árið 2011. Arnar Helgason, faðir Dagbjarts, hitti blaðamann Víkurfrétta á öðrum fallegum vetrardegi í golfskálanum í Leiru og rifjaði upp sögu drengsins síns, sem kvaddi alltof snemma.

„Dagbjartur var skemmtilegur. Hann var algjör prakkari, miklu meiri prakkari en pabbi sinn. Ég fótbrotnaði eitt sinn þegar ég var að reyna að búa til golfvöll. Þá sat ég einn daginn í sófanum heima og var að horfa á sjónvarpið. Þá kemur hann til mín til að knúsa mig, stelur svo hækjunum af mér og fjarstýringunni, fer með hækjurnar fram, sest fyrir framan sjónvarpið og skiptir yfir á Cartoon Network. Ég gat ekkert gert,“ segir Arnar og hlær.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þetta hafi einkennt Dagbjart. Hann var stríðinn og skemmtilegur, hafði mikinn áhuga á risaeðlum, geimferðum og vísindum almennt og varði löngum stundum á bókasafninu í Sandgerði við að lesa um alls kyns hluti. Þar var hann fastagestur, gekk frá bókum fyrir starfsfólkið og fékk í staðinn að kíkja í tölvuna. „Honum fannst það mjög spennandi. Bókasafnið var í miklu uppáhaldi hjá honum. Þegar Dagbjartur var í fyrsta bekk var stóra systir hans farin að lesa. Þá fylgdist hann með og var fljótt farinn að lesa sjálfur.“


Feðgarnir sumarið 2002.

Heiðarlegur með hálft hjarta
Líf Dagbjarts hófst hins vegar erfiðlega. Hann fæddist með alvarlegan hjartagalla, svokallað hálft hjarta, og fór einungis fimm daga gamall til Boston þar sem hann undirgekkst hjartaaðgerð. Um tveimur mánuðum síðar fékk Dagbjartur loksins að fara heim til Sandgerðis. „Hann fór svo í aðra aðgerð þrettán mánaða gamall sem við vissum alltaf að hann þyrfti að fara í. Aðgerðin var svo gerð á föstudegi. Á sunnudegi var Dagbjartur sestur upp og farinn að dansa.“ Hjartagallinn átti þó alltaf eftir að hafa viss áhrif á líf Dagbjarts. Þol hans var ekki jafn mikið og annarra barna og það tók á litla sál að geta ekki hlaupið á eftir hinum eða hjólað eins og þau.

Dagbjartur var svo síðar meir greindur með ódæmigerða einhverfu. „Hann virkaði svolítill prófessor. Það var mótþrói í honum. Hann átti fullt af vinum en svo voru líka krakkar sem hann höndlaði ekki að vera í kringum, eins og gerist oft með börn með einhverfu,“ segir Arnar og lýsir Dagbjarti sem mjög heiðarlegu barni. Þar átti millinafnið einnig vel við. „Hann var alls ekki feiminn. Ef hann fékk til dæmis jólagjöf sem hann vildi ekki þá sagði hann bara: „Mig langar ekki í þetta,“ segir faðirinn og flissar.

Kvaddi eftir sumarið
Þar sem fjölskyldan bjó í Sandgerði hóf Dagbjartur nám við Sandgerðisskóla. Fyrstu árin þar gengu vel að sögn Arnars en smám saman fór Dagbjarti að þykja það erfiðara að mæta í skólann. „Börn eins og hann mikla oft margt fyrir sér og til að byrja með þá héldum við að hann væri ef til vill að gera of mikið úr þessu. En hann nefndi alltaf sömu strákana við okkur og gerði það alla tíð. Það var alltaf eitthvað,“ segir Arnar.

Veturinn áður en Dagbjartur dó reyndi hann að taka sitt eigið líf. Vikurnar fyrir það var hann mjög reiður og talaði um það að hann langaði ekki til þess að lifa lengur. Þetta væri allt saman ömurlegt. Þá var hringt inn á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. „Þetta virtist hins vegar ekki nógu alvarlegt tilfelli fyrir þau og við vorum send á HSS. Þar fékk hann ágætis aðstoð hjá sálfræðingi og yfir sumarið gekk ágætlega hjá honum. Okkur fannst þetta allt saman vera farið að ganga betur og hann var orðinn ánægðari. En eftir sumarið byrjaði skólinn og þá sáum við þetta fara niður á við aftur.“

Þremur vikum síðar ákvað Dagbjartur að kveðja. 

„Amma, af því þú ert með ofnæmi fyrir
kisum þá vil ég að þú eigir þessa,“

Kisur og knús síðasta daginn
Andlátið kom fjölskyldunni algjörlega í opna skjöldu. Vikurnar áður virtist hann svo hamingjusamur. Þegar Arnar lítur hins vegar til baka, nú átta árum síðar, telur hann Dagbjart hafa verið búinn að ákveða þetta löngu fyrr. „Hann hafði komið alls kyns eignum fyrir hér og þar. Hann fékk til dæmis litla kisustyttu að gjöf frá ömmu sinni einhverjum árum áður. Helgina áður en hann lést átti amma hans svo afmæli.“ Þá gaf Dagbjartur henni styttuna í gjöf og sagðist vilja að hún héldi henni. „Amma, af því þú ert með ofnæmi fyrir kisum þá vil ég að þú eigir þessa,“ sagði hann.

Eftir síðasta skóladaginn knúsaði Dagbjartur samnemendur sína. Það hafði hann ekki gert áður en engan grunaði neitt. „Systir hans var þá nýbyrjuð í fyrsta bekk og þau voru samferða heim. Mamma hans nefndi það einmitt við mig þá að loksins væri honum farið að líða betur,“ segir Arnar. Þann dag hafði Dagbjartur haldið í hendina á systur sinni á leiðinni heim og spjallað heilmikið við hana, leyft litla bróður sínum að leika með dótið sitt og leikið sjálfur við hann, eitthvað sem hann vanalega gerði ekki.

Síðasta kvöldið í lífi Dagbjarts sátu feðgarnir inni í stofu. „Ég var að horfa á sjónvarpið. Dagbjartur sat í sófanum að lesa bók. Ég sagði honum að fara inn til sín að sofa en hann vildi fá að klára.“ Korteri síðar fór Dagbjartur svo upp í herbergi til sín, eftir að hafa spurt mömmu sína hvort hann fengi að fara í tölvuna daginn eftir. „Mamma hans sest svo í sófann hjá mér og við horfum á einhvern þátt í sjónvarpinu. Við vorum með sængurfötin hans Dagbjarts í þurrkaranum og ætluðum að setja nýtt á rúmið fyrir hann. Við ákváðum að leyfa þurrkaranum að klárast. Rúmum klukkutíma síðar fer ég upp með lak sem ég ætlaði að setja á rúmið hans. Þá finn ég hann.“

Leikfélagið bjargaði geðheilsunni
Tæpum klukkutíma síðar var Dagbjartur Heiðar úrskurðaður látinn á heimili fjölskyldunnar og við tóku gríðarlega erfiðir tímar. „Þetta er eiginlega bara allt í þoku. Maður endaði bara í því að reyna að koma börnunum yfir þetta, að koma þeim í einhverja rútínu. Þarna var yngsta barnið okkar fjögurra ára,“ segir Arnar, en samtals á hann fimm börn, að Dagbjarti meðtöldum. „Svo uppgötvaði ég bara að maður þyrfti sjálfur að fá hjálp andlega.“

Á þeim tíma kynntist Arnar starfinu hjá Leikfélagi Keflavíkur sem hann segir án efa hafa bjargað geðheilsu sinni. „Það er ósköp einfalt. Ég átti rosalega erfitt með það fyrst að leyfa mér að hafa gaman. Að átta mig á því að ég mætti njóta lífsins. Það tók mig mjög langan tíma.“

Gerður að forsíðufrétt
Eins og gengur og gerist í litlum bæjarfélögum spurðist þetta hratt út og var Dagbjartur gerður að forsíðufrétt einungis daginn eftir andlátið. „Ég var ekki sáttur við það. Þetta er svona æsifréttamennska. Það þarf alltaf að vera fyrstur með fréttirnar,“ segir Arnar. Viðbrögð fólks voru svo í kjölfarið alls konar.
„Einstaklingar sem maður hélt að kæmu til manns fjarlægðust en svo var líka fullt af fólki, sem manni hélt að væri sama, sem kom. Við fengum óhemju mikið af matarsendingum, pönnukökum og kjötsúpu. Fólki vantar að gera eitthvað og það finnur oft hjálp í því að geta allavega sent manni mat. Það veit oft ekkert hvernig það eigi að bregðast við en það er oft líka bara nóg að fólk komi og taki utan um mann. Maður veit oft ekkert hvað maður á að segja og það er ekkert eitt rétt sem þarf að segja.“

Með árunum segist Arnar svo finna fyrir því að fólk forðist það oft á tíðum að minnast á Dagbjart við hann. „Það heldur oft að það sé að minna mig á hann og að ég sé þá að rifja upp eitthvað sem ég vilji ekki. En ég er ekkert búinn að gleyma þessu. Í dag get ég alveg talað um hann og farið svo bara að ræða eitthvað allt annað.“

Hnúturinn minnkar með tímanum
Enn þann dag í dag heldur fjölskyldan upp á afmæli Dagbjarts, enda er það dagur til að gleðjast yfir. „Ég ákvað strax að halda áfram að halda upp á afmælisdaginn hans en ég minnist ekki á dánardaginn hans. Hann á ekki að vera eitthvað sérstakur. Ég held að núna síðast hafi verið í fyrsta skipti sem ég mundi ekki eftir því, á dánardeginum, hvaða dagur væri. Það er stór áfangi.“ Arnar var vanalega farinn að kvíða þeim degi mánuði áður en hann rann upp. Hnútur myndaðist í maganum en í gegnum árin hefur hann smám saman minnkað.
„Þetta verður auðveldara og það verður ljúfara að hugsa um minningarnar. Ég hitti til dæmis gamlan kennara Dagbjarts fyrir stuttu og hún sendi mér fullt af myndum af honum. Þá féllu nokkur tár. Maður á að fagna lífinu,“ segir hann.

Í miðju viðtali hringir síminn hjá Arnari og hann svarar. „Þetta var yngsta stelpan mín á leiðinni á bekkjarkvöld. Hún er ellefu ára.“

Aðrir taki Sandgerðisskóla til fyrirmyndar
Eftir fráfall Dagbjarts fór Sandgerðisskóli í gríðarlega mikla vinnu varðandi einelti og hvernig best sé að taka á svoleiðis málum. „Ég kenni þeim alls ekki um það hvernig fór þó margir haldi að ég geri það. Ég hef oft verið spurður að því af hverju ég sé ennþá með börnin mín í þessum skóla en ég ber engan kala til skólans.“
Hann segir skólastjórn hafa staðið sig vel eftir á og að mjög gott starf sé unnið þar í dag. „Fleiri skólar mættu taka sér það til fyrirmyndar.“

Þeim drengjum, sem Dagbjartur nefndi hvað oftast við foreldra sína að gerðu honum lífið erfiðara fyrir, er Arnar ekki heldur reiður. „Þetta voru bara börn sem áttu erfitt. Ég þekki þessa stráka í dag og tala alveg við þá. Ég er á þeirri skoðun að þau börn sem leggi í einelti líði illa annars staðar.“

Ástæðan á bak við tárin
Arnar hefur síðustu þrjú ár starfað á leikskólanum Sólborg í Sandgerði og segir það yndislegt. „Það koma alveg erfiðir dagar en það er bara eitthvað við það að fá að vinna með börnum sem er svo gott. Það er svo mikið líf í kringum þau og ómetanlegt að fá að sjá unga einstaklinga þroskast. Ég tala nú ekki um að fá að fylgjast með þeim vaxa og dafna frá því þeir koma á leikskólann og þar til þeir útskrifast.“

Hann segir mikilvægt að bera virðingu fyrir líðan barnanna og að ætlast ekki til þess að þau séu alltaf glöð og stillt. „Það þarf að leyfa þeim að tjá sig. Í stað þess að segja þeim að hætta að gráta þurfum við að spyrja þau hvers vegna þau séu að því og hlusta.“

„BUGL þyrfti að vera
sex sinnum stærri"

Hvað ef?
Íslenska heilbrigðiskerfið hefur í fjölda ára verið gagnrýnt fyrir takmarkaða þjónustu hvað varðar andleg veikindi. Það sé ótrúlega dýrt að leita sér aðstoðar og almennt litla hjálp að fá. „Heilbrigðiskerfið er svo fjársvelt að það getur ekki tekið við þessum fjölda fólks. Ég skil alveg BUGL, þau verða að velja og hafna. Þau geta ekki tekið við öllum. Þessi stofnun þyrfti að vera svona sex sinnum stærri en hún er í dag.“ Að mati Arnars hefði Dagbjartur þurft að fá stærra teymi til að aðstoða sig við að vinna í erfiðleikunum.

„Hvað ef?“ er spurning sem Arnar glímdi við í langan tíma. „Þetta var erfiðasta spurningin. Hvað ef ég hefði ekki horft á þennan þátt í sjónvarpinu? Hvað ef ég hefði kveikt á þurrkaranum fyrr? Hvað ef ég hefði nú farið upp og talað við hann fyrr? En þegar maður sættir sig við það að þessi spurning skili ekki neinu, að maður geti ekkert gert til að breyta þessu, þá fyrst getur maður haldið áfram með líf sitt.“

Þetta líf er fullt af alls kyns tilviljunum og hlutum sem við skiljum ekki og munum eflaust aldrei skilja. Það var sami sjúkraflutningamaður sem keyrði verðandi foreldra yfir heiðina á fyrsta degi í lífi Dagbjarts og reyndi að halda í honum lífinu, ellefu árum síðar, á heimili fjölskyldunnar. Í dag væri Dagbjartur nítján ára gamall, hefði hann fengið að lifa. Stoltur faðir sér hann reglulega fyrir sér og veltir því fyrir sér: „Hvað ef?“.
„Ég er viss um að hann væri að plumma sig ágætlega.“

-Sólborg Guðbrands