Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Húsfyllir í útgáfuteiti Mei mí beibísitt?
Mánudagur 19. nóvember 2012 kl. 08:47

Húsfyllir í útgáfuteiti Mei mí beibísitt?

Fjölmargir lögðu leið sína í göngugötuna í Kjarna á laugardag til að verða sér út um fyrstu eintökin af bókinni Mei mí beibísitt?, æskuminningar úr bítlabænum Keflavík, sem Marta Eiríksdóttir gefur út í samvinnu við Víkurfréttir.

Í útgáfuteitinu las Marta upp úr einum kafla í bókinni, kafla sem er lýsandi fyrir efni bókarinnar. Þá léku bræðurnir Júlíus og Baldur Guðmundssynir nokkur vel valin lög úr bítlabænum.

Anna Lóa Ólafsdóttir í Hamingjuhorninu sá um að kynna herlegheitin og ræddi um kynni sín og Mörtu. Þá ræddi Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta um aðdraganda þess að Víkurfréttir ákváðu að vera útgefandi bókarinnar og ástæður þess að Marta hóf að skrifa fyrir Víkurfréttir fyrir tveimur áratugum.

Næstu vikur mun Marta Eiríksdóttir fara á flakk víða um suðvesturhorn landsins, með bækurnar sínar Mei mí beibísitt? og Becoming Goddess. Marta mun lesa upp úr bókum sínum og spjalla við gesti um lífið, áskoranir og fleira skemmtilegt. Marta segist einnig ætla að ræða um lífsgleðina og mál er snerta konur sérstaklega, um það að vera trú sjálfri sér, hjartanu sínu og draumum. Þetta verða bráðskemmtileg konukvöld sem Marta nefnir Gyðjur og Gleði.

Aðgangur er ókeypis og konur á öllum aldri eru hjartanlega velkomnar. Bækurnar hennar Mörtu verða til sölu á staðnum og einnig Orkuskartið sem hún hannar og skapar ásamt eiginmanni sínum, Friðriki Þór Friðrikssyni.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í útgáfuteitinu í göngugötunni í Kjarna sl. laugardag. VF-myndir: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Marta Eiríksdóttir, höfundur bókarinnar, las kafla úr bókinni og kynnti bókaútgáfu sína fyrir þessi jól en Marta gefur út tvær bækur í ár og segist vera með þá þriðju tilbúna til útgáfu.

Frá útgáfuteiti Mei mí beibísitt?

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, móðir Mörtu, færði henni fimm rauðar rósir í tilefni dagsins. Hrafnhildur fékk svo eintak af bókinni og afmælissöng, enda varð hún 77 ára sl. laugardag.

Bræðurnir Baldur og Júlíus Guðmundssynir sungu vel valin lög úr bítlabænum.

Afmælisborð eins og það var á heimili í Keflavík árið 1966. Hér er endurgerð af borði sem mynd er af í bókinni, þegar Marta hélt upp á fimm ára afmæli sitt.

Mei mí beibísitt? fer í almenna dreifingu í dag, mánudag. Bókin mun m.a. fást í bókabúðum Eymundsson og einnig á skrifstofu Víkurfrétta í Krossmóa 4a í Reykjanesbæ.