Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Húsfyllir í söngveislu í Grindavíkurkirkju
Sönghópur Suðurnesja, ásamt Magnúsi Kjartanssyni.
Fimmtudagur 19. mars 2015 kl. 09:18

Húsfyllir í söngveislu í Grindavíkurkirkju

Það var sannkölluð söngveisla í Grindavíkurkirkju í gærkvöldi þegar fimm sönghópar og kórar tróðu upp og fylltu kirkjuna af söng og fjöri. Vísiskórinn, undir stjórn Margrétar Pálsdóttur, sló takinn með gleði sinni og fjölmenningu og söng lög á nokkrum tungumálum og kom tónleikagestum í hörkustuð. Þetta kemur fram á vefsíðu Grindavíkurbæjar. 
 
Karlakór Grindavíkur, undir stjórn Renötu Iván, tók fjögur lög og þegar hann söng Á Sprengisandi fór kirkjan öll á ið. Næst kom Kór Grindavíkurkirkju undir stjórn Bjarts Loga Guðnasonar sem flutti m.a. ítalskt lag af stakri prýði og fagmennsku en kórinn fer á ítalskar slóðir í sumar. 
 
Eftir hlé var tók við léttsveitin Guðjón og þar var heldur betur hæfileikaríkt fólk frá Grindavík á ferð ásamt stjórnanda kórs Grindavíkurkirkju. Þau tóku m.a. þetta sálma eins og Joshua Fought the Battle of Jericho og hrifu alla með sér.
 
Að síðustu steig Sönghópur Suðurnesja á stokk en í hópnum eru m.a. nokkrir Grindvíkingar. Stjórnandi er hinn landsþekkti tónlistarmaður Magnús Kjartansson. Sönghópurinn tók skemmtileg lög, m.a. eftir Þóri Baldursson, Gunnar Þórðarson og Magnús sjálfan og sló botninn í frábæra kvöldstund.
 
Meðfylgjandi myndir tók Eyjólfur Vilbergsson.
 
 
Vísiskórinn ásamt Margréti Pálsdóttur. 
 
 
Kór Grindavíkurkirkju er ótrúlega faglegur og flottur undir stjórn Bjarts Loga.
 
 
Karlakór Grindavíkur fyllti kirkjuna af krafti og karlmennsku.
 
 
Léttsveit Guðjóns hefur ekki komið fram opinberlega áður og sló í gegn.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024