Húsfyllir hjá Hallgrími
Það var þétt setinn kirkjubekkurinn í Hvalsneskirkju síðasta sunnudag. Þar fór fram sumarmessa sem helguð var minningu sr. Hallgríms Péturssonar, sem þjónaði á Hvalsnesi á árunum 1644–1651. Í haust verða liðin 350 ár frá andláti hans. Félag fyrrum þjónandi presta annaðist sumarmessuna í Hvalsneskirkju en myndin var tekin að lokinni athöfn. Kirkjugestum var öllum boðið í kaffi og konfekt að lokinni messu í gamla Hvalsnesbænum. Þar verður opnað veitinga- og kaffihús í lok júlí.