Húsasmiðurinn sem slóst mikið í æsku og endaði í júdógallanum
„Við byrjuðum að glíma á efri hæðinni í gamla Festi,“ segir Jóhannes Haraldsson, eða Jói júdó eins og hann er jafnan kallaður. Jói er lifandi goðsögn í Grindavík, en hann er guðfaðir júdóíþróttarinnar þar í bæ og var með fyrstu landsliðsmönnum Íslands í íþróttinni. Jói er að austan en fluttist snemma suður, iðkaði hinar ýmsu íþróttir og var frambærilegur knattspyrnumaður um tíma áður en hann sneri sér alfarið að júdóinu. Jói er lærður húsasmiður, reyndi fyrir sér í smábátaútgerð og þótt hann sé ný orðinn 80 ára gamall þá tekur hann hamarinn stundum upp og bregður sér jafnvel í júdógallann.
Jói fæddist á Seyðisfirði 1942 og ólst þar upp fyrstu árin ásamt systkinum sínum sem flest fæddust þar. „Þetta var á stríðsárunum, þarna var hinu fræga breska olíuskipi, El grillo, sökkt af þýskum herflugvélum er það lá við akkeri fyrir utan Seyðisfjörð. Pabbi var að vinna sem stöðvarstjóri yfir rafstöðinni og slökkti ljósin í bænum þegar þetta reið yfir til að reyna afstýra hættunni. Fjölskyldan fluttist svo 1945 suður og settist að í Kópavogi en fyrsta vinna pabba var einmitt hér í Grindavík, setti upp rafstöð austur í hverfi. Ég kunni aldrei sérstaklega vel við mig á höfuðborgarsvæðinu og nýtti hvert tækifæri sem gafst til að fara til systur minnar sem var bóndakona í sveit.“
Jói hneygðist fljótt til íþrótta og æfði og spilaði fótbolta með Breiðabliki, lék upp alla yngri flokka og á einhverja leiki með þeim í meistaraflokki. „Ég var alltaf með gott úthald og gat hlaupið mikið. Þess vegna hentaði vel að láta mig spila á kantinum. Eftir grunnskóla fór ég í íþróttaskólann í Haukadal og kynnist þar m.a. íslenskri glímu og væntanlega kviknaði eitthvað ljós hjá mér þá því þegar ég var einhverjum árum síðar að vinna með mönnum sem stunduðu júdó og var að tuskast við þá, þá kom í ljós að ég var bara nokkuð lunkinn og þeir hvöttu mig til að kíkja á æfingar með sér. Sem gutti tuskaðist ég mikið við eldri bræður mína og það var bara þannig í Kópavoginum að ef maður gat ekki varið sig þá var maður laminn eins og harðfiskur, þess vegna öðlaðist ég snemma góða færni sem nýttist mér síðar meir í júdóinu“.
Flytur til Grindavíkur
Jói lærði húsasmíði í Kópavogi og flutti til Grindavíkur árið 1971 vegna vinnu. „Ég fann strax að þar sló hjartað og ég kunni vel við mig. Spilaði fótbolta með Grindavík en vinnan tók ansi mikinn tíma en ég var í leiðinni að byggja þak yfir höfuð fjölskyldunnar. Júdóið var mér líka ofarlega í huga og fljótlega var ég farinn að draga Grindvíkinga með mér til að tuskast við þá. Við byrjuðum að glíma í gamla Festi, Tommi Tomm, sem þá rak Festi og er í dag alþingismaður og veitingamaður á Hamborgarabúllunni, leyfði okkur að æfa uppi en þar var teppi. Fljótlega fengum við þó inni í gamla íþróttasalnum við grunnskólann og gátum notast við gamlar fimleikadýnur. Svo voru pantaðar alvöru júdódýnur en peningar voru af skornum skammti og ég þurfti að leysa dýnurnar út sjálfur. Eftir þetta byrjuðu reglubundnar æfingar og ég sá strax að efniviðurinn var góður, þetta voru allt hraustir strákar sem höfðu greinilega tekið til hendinni og unnið í fiski og á sjó. Það gefur auga leið að júdómaður þarf að búa yfir líkamlegum styrk og þegar þessir strákar byrjuðu að æfa og lærðu réttu handtökin, þá voru þeir fljótir að komast upp á lagið.
Ég varð fyrsti Íslandsmeistarinn í júdó frá Grindavík árið 1972 og mjög fljótlega fóru að koma upp góðir júdómenn í Grindavík, þekktastur þeirra er Ólympíufarinn Sigurður Bergmann en hann keppti á Ólympíuleikunum í Seúl árið 1988. Einnig var Björn Lúkas Haraldsson mjög öflugur, varð tvöfaldur Norðurlandameistari í unglingaflokkum en hann sneri sér svo að blönduðum bardagaíþróttum (MMA).“
Keyrt með guttana í sendibíl á mót
„Þetta var frumstætt til að byrja með og líklega yrði nú ekki samþykkt hvernig ég ferðaðist með guttana í keppnir til Reykjavíkur en þá komu einfaldlega strákarnir sér fyrir aftur í vinnubílnum mínum. Þetta tíðkaðist í þá daga, svona var þetta bara. Ég var með allt batterýið í höndunum fyrstu árin, þjálfaði, rak deildina og var fljótlega farinn að dæma líka í mótum. Þá þurfti ég stundum að bregða mér úr júdógallanum og fara í dómarabúninginn. Þetta var oft mikið álag en ég sé ekki eftir neinu, ef ég náði að forða einhverjum unglingnum frá slæmum félagsskap og óreglu með því að draga hann í júdóið, þá var tilganginum náð. Ég var á kafi í þessu til aldamóta en þá tók Gunnar sonur minn við sem formaður deildarinnar. Ég hef alltaf fylgst með og verð að segja að mér líst ekki nóg vel á árangurinn í dag, ég vil ekki vera í íþróttum bara til að vera með, það verður að stefna á árangur,“ segir Jói.
Landsliðsferillinn og Íslandsmeistari 48 ára gamall
Jói var með fyrstu landsliðsmönnum Íslands. „Við fórum árlega á Norðurlandamót. Það voru engir peningar í þessu þá og maður þurfti sjálfur að greiða fyrir þessar keppnisferðir. Ég keppti fyrir Íslands hönd til fjölda ára en síðasti Íslandsmeistaratitillinn kom þegar ég var 48 ára gamall en þá unnum við Grindvíkingar sveitakeppnina en ég hætti að glíma um fimmtugsaldurinn. Það er ekki gott að segja hvenær júdógarpurinn toppar en við getum keppt lengur en knattspyrnumaður t.d. sem toppar á bilinu 27-30 ára að talið er.
Ég held að framtíðin í júdó á Íslandi sé góð en landslagið er breytt því það hafa margir útlendingar flust til Íslands á undanförnum árum. Það er bæði gott og slæmt en fleiri bardagalistir hafa þ.a.l. komið hingað, t.d. sambó sem er rússnesk fjölbragðaglíma. Við verðum að passa að slíkt taki ekki júdóið yfir en auðvitað koma þá í leiðinni fleiri öflugir glímumenn og munu vonandi reynast júdóíþróttinni vel.“
Útgerðarsmiður
Jói reyndi fyrir sér í útgerð. „Ég gekk alltaf með útgerðarmannsdraum í maganum og reyndi fyrir mér í strandveiðinni en sá fljótt að þetta skyldi ekki nóg eftir sig til að sinna viðhaldi en ég lenti í bilunum eins og gengur og gerist. Þetta er erfitt ef maður á ekki kvóta og ég lagði því útgerðarmanninn á hilluna og einbeitti mér að því sem ég kann best, að smíða hús. Þótt ég sé hættur að vinna, enda orðinn 80 ára gamall, þá er ég oft með hamarinn í höndunum. Heilsan er í toppstandi, ég er hvergi af baki dottinn og sé fyrir mér góð ár þar til ég held á fund forfeðranna,“ sagði Jói að lokum.