Hundrað manns í jóga í Keflavík
Um hundrað manns á öllum aldri togaði sig og teygði í blíðskaparveðri í opnum jógaviðburði í skrúðgarðinum í Keflavík síðdegis í gær. Jógastundin var forskot á sæluna en Hreyfivika UMFÍ hefst á mánudag í næstu viku.
Í Hreyfiviku UMFÍ geta allir sem vilja boðið sig fram sem boðbera hreyfingar. Í Keflavík var það Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Foreldrafélög grunnskóla Reykjanesbæjar sem buðu bæjarbúum í jóga í garðinum klukkan fimm. Jógastundin stóð í 30 mínútur. Að loknum teygjum og slökun var boðið upp á safa frá Ölgerðinni og epli.
Hreyfivika UMFÍ stendur yfir dagana 29. maí – 4. júní. Hreyfivikan er samevrópsk lýðheilsuherferð sem hefur það að markmiði að hvetja fólk til að finna sína uppáhalds hreyfingu og stunda hana að minnsta kosti 30 mínútur á hverjum degi.
Hreyfivika UMFÍ hefur stækkað mikið síðan hún var fyrst haldin á Íslandi árið 2012. Á síðasta ári buðu 150 boðberar hreyfingar í 55 sveitarfélögum upp á 480 viðburði. Þátttakendur voru 42.000 og höfðu aldrei verið fleiri.
Viðburðir í Hreyfivikunni geta verið af ýmsum toga. Það getur verið opin íþróttaæfing fyrir alla, skipulagður göngutúr, frítt í sund eða harmonikkuball.
Það er mjög einfalt að taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ. UMFÍ hvetur sambandsaðila og sveitarfélög til þess að gerast boðberar hreyfingar. Hlutverk boðbera er að virkja fólkið í samfélaginu, vekja athygli á því sem er í boði tengt lýðheilsu og íþróttum í samfélaginu og standa fyrir viðburðum sem allir geta sótt.
Nú þegar eru 153 viðburðir um allt land skráðir í kerfi UMFÍ. Þar á meðal eru hvorki fleiri né færri en 20 viðburðir á Hólmavík. Margir viðburðir eru líka í öðrum bæjarfélögum; Akranesi, Vík í Mýrdal, Mosfellsbæ, Reykjavík og á Seyðisfirði, en bæjarbúar þar eru sérstaklega virkir í Hreyfivikunni. Þá býður glímudrottningin Svana Hrönn Jóhannsdóttir upp á viðburð í Búðardal og Hulda Sólveig upp á góðan viðburð í Hafnarfirði.
Í Hreyfiviku UMFÍ geta allir sem vilja boðið sig fram sem boðbera hreyfingar. Í Keflavík var það Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Foreldrafélög grunnskóla Reykjanesbæjar sem buðu bæjarbúum í jóga í garðinum klukkan fimm. Jógastundin stóð í 30 mínútur. Að loknum teygjum og slökun var boðið upp á safa frá Ölgerðinni og epli.
Myndirnar tók Hilmar Bragi í jógastundinni í gær.