Humarinn vinsæll yfir hátíðarnar
Sigurður B. Magnússon, eigandi Humarsölunnar ehf, hefur haft í nógu að snúast síðustu misseri. Fjöldinn allur af fólki hefur sett sig í samband við hann og þessa dagana er hann í óðaönn við að keyra út humar fyrir gamlárskvöld.
Humarsalan ehf er í þann mund að ljúka sínu fyrsta starfsári og er eigandinn sáttur við gengið. „Viðtökurnar hafa verið vonum framar og nú yfir hátíðarnar hef ég mikið verið að þjónusta einstaklinga sem eru að biðja um humar en ég sel einnig humar til veitingahúsa og í verslanir,“ segir Sigurður, hógværðin uppmáluð. Á vefsíðu Humarsölunnar má þó sjá að nokkur þekkt og vel metin veitingahús í Reykjavík versla humar hjá Sigurði.
En lífið er ekki eintómur humar hjá Sigurði, hann býður einnig upp á skötusel og eftir áramót er stefnan tekin á það að auka fjölbreytnina í fyrirtæknu. „Eftir áramót stefni ég á það að taka inn flestar tegundir af fiski, t.d. steinbít, ýsu og þorsk,“ sagði Sigurður. Þess má til gamans geta að uppskriftir að dýrindis humarréttum er að finna á vefsíðu humarsölunnar og tjáði Sigurður blaðamanni að von væri á meiri fjölbreytni í þeim flokki.