Hulda Björk dró fánann að húni í skrúðgarðinum
Fjölmargir sóttu hátíðarhöld í tilefni þjóðhátíðardags 17. júní í skrúðgarðinum í Reykjanesbæ sl. sunnudag og létu óþekka veðurguði ekki stoppa sig. Hulda Björk Þorkelsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar dró þjóðfánann að húni eins og venja er. Sú athöfn fór fram í samvinnu við Skátafélagið Heiðabúa en skátarnir komu í skrúgöngu með lúðrasveit í skrúðgarðinn þar sem þeir bera stærsta fána á Íslandi.
Eftir fánahyllingu söng Karlakór Keflavíkur þjóðsönginn en það er ein af mörgum hefðum í þjóðhátíðardagskránni í Reykjanesbæ.
Guðbrandur Einarsson, forseti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar setti hátíðina en í ræðu hans kom hann inn á dræma kosningaþátttöku í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningunum. Guðbrandur greindi frá vali á Listamanni Reykjanesbæjar en hann er valinn á fjögurra ára fresti. Þann heiður hlaut núna Eiríkur Árni Sigtryggson, tónskáld og tók hann við viðurkenningu í tilefni útnefningarinnar.
Ávarp fjallkonu flutti Sandra Dögg Georgsdóttir, nýstúdent og þjóðhátíðarræðuna var í höndum Dagnýjar Gísladóttur, verkefnisstjóra hjá Atvinnuþróunarfélaginu Heklunni. Þar fjallaði hún um menningararfinn og sagði m.a.: „Á að varðveita gömlu sundhöllina sem er merki um dug og áræðni Keflvíkinga sem söfnuðu fyrir henni um árabil, á að viðhalda ásýnd herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, er keflvíska kokteilsósan menningararfur - og var bara allt í lagi að rífa Brautarnesti?“
Fjölbreytt skemmtidagskrá var á sviði þar sem áhersla var lögð á að skemmta yngri kynslóðinni. Bryn Ballett akademían sýndi dans og þá var atriði úr Dýrunum úr Hálsaskógi í höndum Leikfélags Keflavíkur auk fleiri atriða. Þá var ýmislegt í boði fyrir krakkana í skrúðgarðinum sem ýmis félög úr bæjarfélaginu sáu um. Svo var einnig skemmtidagskrá um kvöldið í Ungmennagarðinum þar sem m.a. Klaka boys og Danskompaní komu fram.
Víkurfréttir sýndu frá hluta dagskrárinnar í skrúðgarðinum í beinni útsendingu á Facebook síðu sinni.
Hulda með Herði Ragnarssyni, eiginmanni sínum í skrúðgarðinum.
Eiríkur Árni Sigtryggson, listamaður Reykjanesbæjar.
Sandra Dögg Georgsdóttir flutti ávarp fjallkonu.
Dagný Gísladóttir flutti þjóðhátíðarræðuna.
Ungir dansarar frá Bryn ballett sýndu listir sínar.