Hugmyndir barnanna eru okkar verkefni
– Vinasetrið er með aðsetur að Ásbrú í Reykjanesbæ
Vinasetrið er heimili og vettvangur fyrir börn sem þurfa á stuðningsfjölskyldum að halda að mati félagsþjónustunnar og/eða foreldra og forráðamanna. Heimilinu er ætlað að vera athvarf og hvíldarstaður þar sem hvert barn getur notið sín og fengið þá nánd og aðhlynningu sem er nauðsynlegt þroska þess og aðstæðum. Við tókum tali eigendur Vinasetursins, Hildi Björk Hörpudóttur og Silju Huld Árnadóttur.
Gleði í erfiðleikum
„Hingað kemur blandaður hópur barna á aldrinum 6 - 15 ára. Einstaka börn tökum við yngri sem eru þá hluti af systkinahóp. Börnin koma eina til tvær helgar í mánuði og það skiptir miklu máli að þau upplifi hér að þau séu heima. Hér búa þau saman til viðmið og gildi og við erum fjölskylda,“ segir Hildur, framkvæmdastýra. Börnin geti gengið að sínum rúmum og tannburstum og sama starfsfólkinu sem mætir kl. 14 á föstudögum og fer heim kl. 18 á sunnudögum. „Við höldum upp á öll afmæli, höfum kósíkvöld, föndrum, bökum eða veitum þeim nýja upplifun. Gerum ýmislegt sem jafnvel sum hver þeirra missa alveg af í daglegu lífi. Hvert barn hefur möguleika á að upplifa gleði þrátt fyrir aðstæður þess eða erfiðleika; læra að treysta öðrum og umhverfi sínu og upplifa kærleiksríka nánd.“
Fæst barnanna af Suðurnesjum
Einnig er myndað þétt stuðningsnet með fagmönnum og fjölskyldunum sjálfum. Barnaverndarstofa veitir leyfi til starfseminnar og börnin koma í gegnum barnaverndarnefndir, félagsþjónustuna eða sveitarfélögin. „Börnin koma víða af Suðvesturlandinu; Mosfellsbæ, Árborg, Þorlákshöfn, Kópavogi, Hafnarfirði og af Suðurnesum. Fæst koma úr Reykjanesbæ,“ segir Hildur og Silja bætir við að félagslegar aðstæður geti verið tímabundnar vegna veikinda, álags, áfalla eða fráfalla. Sum börn hafi stokkið á milli stuðningfjölskyldna og þetta sé þá aukaval fyrir foreldra. Hildur og Silja segja báðar afar mikilvægt að börnin finni fyrir vinalegu umhverfi sem sé laust við óöryggi, stress eða slíkt. „Við hittum alltaf foreldra, barn og félagsráðgjafa áður en dvöl hefst. Foreldrar eru sumir skeptískir þegar þeir koma fyrst en breyta um skoðun þegar þeir sjá aðstöðuna, gleðina og nándina.“
Hrósað og fagnað
Silja segir að börnunum líði undantekningarlaust vel þegar þau komi til þeirra og komi hlaupandi inn, sérstaklega þegar þau sjá dýnugólfið. „Við erum ekki með neinar klukkur, engar tölvur og ekki sjónvarpsrásir. Þau hafa einhvern til að hlusta á sig og tala við sig í 16 klukkutíma og það er mikið spjall á þeim,“ segir Hildur og hlær. Þá er starfsfólk ekki með sína persónulegu farsíma í vinnunni og algjör friður ríki innanhúss. „Engin truflun, engar heimsóknir, auðveldur aðgangur að okkur starfsfólkinu sem fer að sofa um leið og börnin. „Svo lesum við fyrir þau, líka unglingana. Þeim finnst ekki minna gott þegar við lesum fyrir þá. Svo erum við að fara að opna í haust svipuð úrræði fyrir 13 - 15 ára. Ekki veitir af,“ segir Hildur. Vegna þess að sum börnin koma oftar en önnur segir Silja að tengsl verði og þau hittist aftur. „Við höldum fundi á föstudögum á dýnugólfinu þar sem börnin eru látin finna hvað þau eru velkomin og þeim er hrósað og fagnað. Þau þurfa á hrósi að halda og jákvæðu andrúmslofti. Við reynum að brjóta upp þetta dagsfyrirkomulag sem þau eru vön. Þeirra hugmyndir eru okkar verkefni og við vinnum svolítið eftir því líka. Þau fá að tjá sig, tala um vináttu og virðingu og læra að taka tillit hvert til annars.“
Reykjanesbær greiddi götuna
Spurðar um aðdraganda stofnunar Vinasetursins segja þær Hildur og Silja að þær hafi verið í næstum ár að fara með Barnaverndarstofu í gegnum lagaumhverfið og ræða við sérfræðinga því það er ekkert þessu líkt til. „Svo kynntist Silja Hjördísi Árnadóttur á ráðstefnu og í framhaldi af því var Reykjanesbær boðinn og búinn að aðstoða okkur og tengja okkur við Kadeco. Allt gerðist mjög hratt, allt í einu vorum við komin með húsnæði og öll tilskilin leyfi,“ segir Hildur og bætir við að starfsemin sé mjög viðkvæm og þurft hafi mörg leyfi. „Við vorum mjög heppin. Svo gerði Reykjanesbær við okkur vináttusamning sem opnaði fyrir okkur aðgang að söfnum, sundlaugum og ýmislegu sem við höfum nýtt með börnunum okkar. Það hefur gert okkur kleift að nýta svæðið hérna. Það er svo margt hægt að gera og umhverfið er skemmtilegt.“
Allir þurfa einhvern tímann hjálp
Hjá Vinasetrinu starfar fagfólk með mikla menntun og reynslu. Hvert barn hefur sinn tengil sem kemur á heimili þess áður en dvöl hefst og kynnist barninu, aðstandendum og aðstæðum þess. Viðkomandi sér um að fylgjast náið með líðan barnsins til skemmri og lengri tíma og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið. „Við lögðumst í rannsóknarvinnu um hvar þörfin væri brýn og hvernig væri hægt að mæta henni. Við höfum fengið svo mikla aðstoð við að feta okkur áfram og hjálp við að aðlagast og finna farveg innan reglurammans,“ segir Silja og Hildur bætir við: „Við erum dálítið uppteknar af því að einhvern tímann á lífsleiðinni þurfi allir hjálp og við tökum á móti ólíkum tilfellum. Við viljum að börnunum finnist þau hafa verið valin í að koma hingað en ekki að þau hafi verið send. Enda þurfa þau að vilja koma hingað. Allir vinna saman að því hvað er best fyrir hvert og eitt barn.“
Texti og myndir: Olga Björt Þórðardóttir // [email protected]