Hugmyndarík Skellibjalla
Ungmenni vikunnar
Nafn: Hildigunnur Eir Kristjánsdóttir
Aldur: 15 ára
Skóli: Njarðvíkurskóli
Bekkur: 10. bekk
Áhugamál: Píanó, fiðla og félagsstörf
„Ég er mikið í tónlistarskólanum þar er ég að æfa á píanó og fiðlu. Síðan er ég að vinna í Ísbúð Huppu, ég er leiðtogi í KFUK og í ungmennaráði Reykjanesbæjar og unglingaráði Fjörheima. Það er hægt að segja að ég sé eiginlega að gera of mikið,“ segir Hildigunnur Eir aðspurð hvað hún gerir utan skóla.
Hvert er skemmtilegasta fagið?
Ég elska að vera í íþróttum því þar get ég verið að öskra og láta öllum illum látum en samfélagsfræði er númer eitt því ég er mjög góð í henni.
Hver í skólanum þínum er líklegur til að verða frægur og hvers vegna?
Freysteinn bekkjarbróðir minn er klikkað góður í fótbolta og er 99.9999% viss um að hann verði atvinnumaður.
Skemmtilegasta saga úr skólanum:
Þegar ég keypti vatnsbyssu í frítíma og var að leika mér að sprauta á alla. Síðan tók vinur minn hana af mér og sprautaði á Jóhann kennara og lenti í vandræðum.
Hver er fyndnastur í skólanum?
Ég og vinahópurinn minn erum mjög fyndin og erum alltaf hlæjandi. Maður fær stundum harðsperrur í magann af hlátri.
Hvert er uppáhaldslagið þitt?
Brotlentur með Valdimar.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Butter chicken sem pabbi gerir er svo góður.
Hver er uppáhaldsbíómyndin þín?
Bibi blocksberg er uppáhaldsbarnæskumynd en annars dýrka ég báðar Mamma Mia!-myndirnar.
Hvaða þrjá hluti myndir þú taka með þér á eyðieyju og hvers vegna?
Fjölskylduna, eldhús og nóg af borðspilum.
Hver er þinn helsti kostur?
Ég er mjög hugmyndarík, fyndin og ófeimin.
Ef þú gætir valið þér einn ofurkraft til að vera með restina af ævinni, hvað myndir þú velja?
Ég myndi vilja getað „teleportað“.
Hvaða eiginleiki finnst þér bestur í fari fólks?
Elska þegar fólk er ófeimið og vill kynnast manni.
Hvað langar þig að gera eftir grunnskóla?
Ég stefni á því að fara í Kvennó og langar í skiptinám.
Ef þú ættir að lýsa sjálfum þér í einu orði hvaða orð væri það?
Ef ég þyrfti að lýsa mér í einu orði þá væri það skellibjalla.