Hugmynd að leigja Camper og elta sólina
Bylgja Baldursdóttir aðstoðarskólastjóri í Sandgerðisskóla ætlar í ferðalag til Akureyrar og Ísafjarðar í sumar. Hún stefnir einnig á að komast í Jökulfirði og segir það hugmynd að leigja Camper og elta sólina í nokkra daga. Þá segir hún að það séu fjölmargir möguleikar til ferðalaga á Suðurnesjum, eins og við komumst að í þessu Netpsjalli Víkurfrétta við Bylgju.
- Nafn:
Bylgja Baldursdóttir
- Árgangur:
1970
- Fjölskylduhagir:
Gift Þóroddi Sævari Guðlaugssyni, saman eigum við tvö börn, þau Sunnevu Ósk og Baldur Matthías sem er giftur Alexöndru Lilju, barnabörnin eru gullmolarnir Sævar Berg og Tómas Ari.
- Búseta:
Niður við sjóinn í Sandgerði í Suðurnesjabæ.
- Hverra manna ertu og upp alin:
Dóttir Baldurs G. Matthíassonar frá Grunnavík og Margrétar Bergsdóttur frá Bæjarskerjum og er fædd og upp alin í Sandgerði.
- Starf/nám:
Aðstoðarskólastjóri í Sandgerðisskóla, grunnskólakennari og er í stjórnunarnámi.
- Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?
Fróðleiksfús.
- Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Ég ætlaði að verða líffræðingur, fóstra eða prestur.
- Hver var fyrsti bíllinn?
Toyota Corolla Zetan árgerð 1984.
- Hvernig bíl áttu í dag?
Toyota Rav 4.
- Hver er draumabíllinn:
Nýr Rav 4, fínn ömmubíll.
- Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki?
Barbie hárgreiðslustofan sem ég fékk í jólagjöf frá afa.
- Besti ilmur sem þú finnur:
Sjávarloft.
- Hvernig slakar þú á?
Í gönguferð í fjörunni, eða heima að prjóna.
- Hver var uppáhalds tónlistin þín þegar þú varst 17 ára?
Allt með Bruce Springsteen.
- Uppáhaldstónlistartímabil?
Alæta á tónlist.
- Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?
Skemmtileg sumartónlist.
- Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?
Mest íslenskt, Ellý Vilhjálms, Villa Vill, einnig Abba og Kenny Rogers.
- Leikurðu á hljóðfæri?
Nei, því miður þá og mér finnst ég hafa misst af tungumáli að kunna ekki að lesa nótur.
- Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?
Nei ég er ekki mikil sjónvarpsmanneskja, Það er þá helst hámáhorf á valdar þáttaraðir á Netflix eða Skjánum.
- Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?
Fréttum.
- Besta kvikmyndin?
Forrest Gump.
- Hver er uppáhalds bókin þín?
Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur.
- Hvað gerir þú betur en allir aðrir á heimilinu?
Baka og flokka rusl.
- Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?
Eplakaka og randalína (mjólkur og eggjalaus bakstur).
- Hvernig er eggið best?
Spælt báðum megin.
- Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?
Smámunasemi eða fullkomnunarárátta.
- Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?
Óstundvísi.
- Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?
Besti dagur ævi þinnar er dagurinn í dag, ef þú notar hann rétt.
- Hver er elsta minningin sem þú átt?
Á fjórða ári í leik með vinum.
- Orð eða frasi sem þú notar of mikið?
Hvar eru gleraugun mín?
- Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færir þú?
Í jólamat til mömmu og pabba.
- Hver væri titilinn á ævisögu þinni?
Sjávarloftið laðar.
- Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndir þú gera?
Sr. David Attenborough og myndi skoða dýralífið á Madagaskar.
- Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?
Mömmu, pabba og Sævari.
- Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?
Árið 2020 verður minnistætt fyrir margra hluta sakir. En það sem hefur verið gleðilegast er fæðing sonarsonarins Tómasar Ara í febrúar.
- Er bjartsýni fyrir sumrinu?
Já, ég tel að sumarið verði gott og feli í sér einstakt tækifæri til að ferðast innanlands án þess að vera í örtröð við áhugaverða staði.
- Hvað á að gera í sumar?
Fara í viku ferð til Akureyrar þar sem dóttirin er að útskrifast frá HA, vera viku á Ísafirði og ef veður leyfir þá ætlum við að kíkja norður í Jökulfirði í þeirri ferð. Einnig er hugmynd að leigja Camper og elta sólina í nokkra daga.
- Ef þú fengir gest utan af landi sem aldrei hafa skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara fyrst og hvað myndir þú vilja sýna þeim?
Ég færi fyrst með gestina að Hvalsnesi þar myndum við skoða kirkjuna og fara yfir sögu sr. Hallgríms Péturssonar, Eftir það myndum við myndum skoða: Stafnesvita, Básenda, Gálgakletta, Þórshöfn, brúna á milli heimsálfa, Stampahraunið og færum upp í gíginn nær veginum, hnullungafjöruna sunnan við Valahnjúk, Gunnuhver, Brimketil og Bláa lónið. Ef gestirnir kæmu í heimsókn til mín eftir 15. júní og væru á hjólum þá myndum við hjóla að kvöldlagi nýja hjólastíginn frá Sandgerði inn í Garð að Garðskaga, njóta sólarlagsins, skoða vitana og fara í fjöruferð. Það er af nógu að taka og alls ekki allt upptalið sem áhugavert er að skoða eða gera á Suðurnesjum.