Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hugljúfir djasstónar Marínu
Marína Ósk í Duus Safnahúsum á Ljósanótt. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 26. september 2022 kl. 07:50

Hugljúfir djasstónar Marínu

Marína Ósk Þórólfsdóttir, djasssöngkona frá Keflavík, gaf nýverið út djassplötuna One Evening in July fyrir skemmstu. Með henni á plötunni leika þeir Mikael Máni Ásmundsson á gítar og sænsku bræðurnir Johann Tengholm á kontrabassa og Erik Tengholm á trompet en þeim tveimur síðastnefndu kynntist Marína þegar hún var í masters-námi í Stokkhólmi.

Mikil djassvakning á Íslandi 

Við settumst niður yfir kaffibolla heima hjá Marínu þar sem hún býr nú, í miðborg Reykjavíkur, og ræðum um uppgang djasssenunnar á Íslandi.

„Djasssenan hefur stækkað mikið á Íslandi að undanförnu og það virðast vera djassgigg út um allt,“ segir Marína. „Múlinn í Hörpunni lifir rosalega góðu lífi og Skuggabaldur við Austurvöll hefur verið mjög framarlega í senunni en honum var því miður lokað um síðustu helgi, sem er mjög leiðinlegt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við ræðum í framhaldi um mikilvægi þess að hafa svona stað þar sem hægt er að setjast niður og hlusta á djass á kvöldin en lengi vel hélt Skuggabaldur úti tónleikahaldi á hverjum degi og hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá djassunnendum en Marína hefur skoðun á hvað gæti haldið svona stað lifandi. „Það væri æðislegt ef t.d. FÍH myndi styrkja svona staði til að geta haldið úti tónleikahaldi á hverjum degi.“

Nú gafstu út plötu fyrr í sumar, hvernig hafa viðtökur við henni verið?

„Rosalega góðar og koma mjög skemmtilega á óvart. Ég fór af stað með Karolina Fund í byrjun sumars og ég hef ekki haft undan að keyra út plötum sem seldust þar. Það er búið að vera nóg að gera við að spila og mér sýnist haustið ætla að vera gott, það er allt í mótun núna.“

Önnur upplifun

Marína Ósk gaf One Evening in July út á vínil, geisladiski og platan er einnig aðgengileg á streymisveitum. „Maður verður að spila með,“ segir hún um ákvörðunina að streyma plötunni. „Ég hlusta sjálf mikið á streymisveitur en mér finnst samt yndislegt að setja plötu á fóninn, það er ákveðin athöfn að hlusta á hljómplötu og önnur upplifun. Maður hlustar frekar á plötuna frá A til Ö.“

Marína Ósk með kvartett sínum á tónleikum Jazzfjelags Suðurnesjabæjar í síðasta mánuði.

Marína hélt vel heppnaða tónleika hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar í síðasta mánuði og þá skemmti hún gestum og gangandi í Duus Safnahúsum á Ljósanótt.

„Hugmyndin er að spila mikið hér á höfuðborgarsvæðinu á næstunni og svo er jafnvel á döfinni að spila í Svíþjóð fyrst maður er með þessa flottu peyja þar. Það væri gaman,“ segir djasssöngkonan að lokum.


Í spilaranum hér að neðan leikur Kvartett Marínu Óskar á tónleikum hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar í ágúst.