Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hugljúf athöfn á Hlévangi
Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir talar til brúðhjónanna í fallegu athöfninni á Hlévangi. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 5. janúar 2024 kl. 06:06

Hugljúf athöfn á Hlévangi

Undir lok síðasta árs gengu þau Kara Tryggvadóttir og Eysteinn Sindri Elvarsson í hjónaband, sem þykir í sjálfu sér ekkert svo sérstakt nema fyrir þær sakir að giftingin fór fram á Hlévangi í Reykjanesbæ og það er sennilega í fyrsta sinn sem gifting fer fram á hjúkrunarheimili hérlendis. Ástæðan fyrir vali þessarar óvenjulegu staðsetningar var að faðir brúðarinnar, Tryggvi Björn Tryggvason, er vistmaður á heimilinu og til að hann gæti gefið brúðina frá sér var ákveðið að halda athöfnina á Hlévangi.

Tryggvi leiðir dóttur sína upp að altarinu ...
... og fékk koss að launum.

Það var hátíðlegt um að litast þegar gestir komu sér fyrir í salnum á Hlévangi sem var búið að útbúa sem litla „kapellu“ fyrir brúðkaupið. Brúðguminn stóð og horfði á þegar Tryggvi leiddi brúðina upp að altarinu þar sem brúðhjónin játuðust hvort öðru við fallega athöfn fyrir framan sína nánustu. Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur í Njarðvíkurprestakalli, annaðist giftinguna og hafði hún á orði í upphafi athafnarinnar að þetta væri ólíkt gleðilegra verkefni en þau sem hún sinnti vanalega á hjúkrunarheimilinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Foreldrar brúðgumans, við hlið þeirra situr Björn Bogi, hringaberi og eldri sonur brúðhjónanna. Í aftari röð er Frans Elvarsson, bróðir og svaramaður Eysteins, ásamt konu sinni og dóttur.

Foreldrar brúðarinnar. Karitas Sigurvinsdóttir og Tryggvi.

Amma þurfti aðeins að hafa ofan af fyrir Maroni, yngri syni brúðhjónanna, meðan á athöfninni stóð.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fékk að vera viðstaddur athöfnina og má sjá fleiri myndir neðst á síðunni.

Gifting á Hlévangi 29. desember 2023