Hugljúf athöfn á Hlévangi
Undir lok síðasta árs gengu þau Kara Tryggvadóttir og Eysteinn Sindri Elvarsson í hjónaband, sem þykir í sjálfu sér ekkert svo sérstakt nema fyrir þær sakir að giftingin fór fram á Hlévangi í Reykjanesbæ og það er sennilega í fyrsta sinn sem gifting fer fram á hjúkrunarheimili hérlendis. Ástæðan fyrir vali þessarar óvenjulegu staðsetningar var að faðir brúðarinnar, Tryggvi Björn Tryggvason, er vistmaður á heimilinu og til að hann gæti gefið brúðina frá sér var ákveðið að halda athöfnina á Hlévangi.
Það var hátíðlegt um að litast þegar gestir komu sér fyrir í salnum á Hlévangi sem var búið að útbúa sem litla „kapellu“ fyrir brúðkaupið. Brúðguminn stóð og horfði á þegar Tryggvi leiddi brúðina upp að altarinu þar sem brúðhjónin játuðust hvort öðru við fallega athöfn fyrir framan sína nánustu. Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur í Njarðvíkurprestakalli, annaðist giftinguna og hafði hún á orði í upphafi athafnarinnar að þetta væri ólíkt gleðilegra verkefni en þau sem hún sinnti vanalega á hjúkrunarheimilinu.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fékk að vera viðstaddur athöfnina og má sjá fleiri myndir neðst á síðunni.