Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hugleiðsla dregur úr stressi
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 15. febrúar 2020 kl. 07:08

Hugleiðsla dregur úr stressi

Rannsóknir hafa sýnt fram á það að hugleiðsla dregur úr framleiðslu líkamans á kortísól, sem oft er kallað stresshormón líkamans. Á sama tíma eykur hugleiðsla framleiðslu á róandi hormónum eins og melatónín og serótónín. Það skemmtilega er að hugleiðsla dregur úr framleiðslu öldrunarhormóna og lækkar einnig blóðþrýsting. Þeir sem stunda hugleiðslu reglulega og til lengri tíma eru í minni hættu á að fá hjartasjúkdóma. Allar þessar upplýsingar ættu að ýta undir að fólk á öllum aldri, bæði ungir sem aldnir, hugleiddu reglulega.

Bókasafn Reykjanesbæjar hefur hleypt af stokkunum hugleiðslustund sem fram fer í hádeginu á hverjum mánudegi. Blaðakona Víkurfrétta var viðstödd fyrstu hugleiðslustundina sem var í umsjá Rannveigar Garðarsdóttur eða Nannýjar eins og hún er oftast kölluð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hugleiðsla róar hugann og auðveldar okkur að finna innri frið og ró. Við stoppum skvaldrið í huganum og stýrum honum inn í kyrrð. Ég og Anna Margrét byrjuðum á þessum hugleiðslustundum fyrir einhverjum árum hér í Bókasafninu en fórum svo báðar í frí og þá datt þetta niður á meðan. Við vildum byrja á þessu aftur en nú njótum við stuðnings fleiri áhugasamra, alls konar fólk mun leiða hugleiðslu. Hér verður því mjög fjölbreytt upplifun á hverjum mánudegi klukkan hálfeitt í hádeginu. Þetta tekur hálftíma og því upplagt að bregða sér hingað í hádegishléi og rækta hugann. Ég var mjög glöð með þátttökuna í dag, átti ekki von á svona mörgum í fyrsta skipti eftir langt frí en fólk er greinilega áhugasamt um hugleiðslu. Geggjað. Við Anna Margrét hugsuðum þessar hugleiðslustundir sem framlag okkar til samfélagsins, gjöf til þeirra sem vilja njóta. Þetta kostar ekki neitt og allir eru velkomnir. Fólk á von á ljúfri stund í erli dagsins, kemur hingað til að hlaða kútana, endurnýja sig og upplifa frið í hjarta. Þetta er fyrir alla, fólk á öllum aldri sem langar að prófa. Þú þarft ekki að hafa neina reynslu,“ segir Nanný hlýlega.

Stefán Helgi Kristinsson:

Spenntur að prófa mismunandi hugleiðslu

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt með hópi en ég hef verið að hugleiða sjálfur heima og fylgjast með á Youtube en það er á ensku. Það var mjög gott að fá leiðsögn í dag á íslensku. Mér finnst hugleiðsla róa hugann og það er þessi djúpa öndun sem gerir mann afslappaðan. Mér líður vel eftir þetta, ég er afslappaður. Það var smá Qigong-hreyfing í upphafi áður en við settumst niður að hugleiða, það var öðruvísi. Ég er spennt ur að prófa hugleiðslu með fleiri leiðbeinendum og mismunandi aðferðir.“

Unnur Þorláksdóttir:

Mér leið bara vel

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem. Mér leið bara vel. Ég hef prófað eitthvað að hugleiða áður. Mér fannst smá áskorun að útiloka öll hljóð í upphafi en það tókst. Ég skynjaði mikinn kærleika.“