Hugarfarið skiptir sköpum
Sálfræðistofa Suðurnesja er eins árs um þessar mundir. Eigendur stofunnar, sálfræðingarnir Hulda Sævarsdóttir og Sigurður Þorsteinsson, segja að greinilega hafi verið þörf á þessari þjónustu á Suðurnesjum. „Í raun er alveg ótrúlegt að hér hafi ekki verið starfandi sálfræðistofa fyrr en nú,“ segir Sigurður. Hulda og Sigurður eru bæði með cand.psych próf frá Háskóla Íslands og unnu hjá Reykjanesbæ um árabil, Sigurður á Fræðslusviði og Hulda í Björginni – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja.
Stofan hefur leitast við að bjóða upp á víðtæka þjónustu í formi viðtala, greininga og námskeiða. „Við höfum tekið að okkur ýmis mál og erum meðal annars í góðu samstarfi við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð og Samvinnu. Mikil ásókn hefur verið í einstaklingsviðtölin, bæði fyrir börn og fullorðna. Við höfum til dæmis unnið með kvíða, þunglyndi, fælni, ofsakvíða, áföll, streitu og lágt sjálfsmat. Við styðjumst mest við hugræna atferlismeðferð, núvitund og EMDR áfallameðferð. Sigurður hefur tekið að sér greiningar á börnum og til stendur að veita þá þjónustu til fullorðinna,“ segir Hulda. Stofan er jafnframt í samstarfi við kennsluráðgjafa varðandi lesblindugreiningar barna og fullorðinna. Þau segjast ánægð með það hvernig starfið hefur þróast fyrsta starfsárið.
Kvíði og þunglyndi algengara en fólk grunar
Við erum að byrja með námskeið 20. apríl sem byggist á hugrænni atferlismeðferð „Bætt líðan – betri stjórn og til stendur að bjóða upp á fleiri námskeið með haustinu. Við erum oft föst í vissu hugarfari sem verður til þess að okkur líður verr heldur en okkur þyrfti að líða. Til dæmis getum við velt okkur upp úr því hvað öðru fólki gæti fundist um okkur og liðið illa, jafnvel þó við höfum ekkert fyrir okkur í því. Kvíði og þunglyndi er algengara en margan grunar, en sem betur fer eru til leiðir út úr þeim vanda og hefur hugræn atferlismeðferð gefið góða raun,“ segir Hulda.
Lesa má meira um námskeiðið á Facebook síðu Sálfræðistofu Suðurnesja.