Hrósaði nemendum Holtaskóla
Þorgrímur Þráinsson las upp fyrir 7. - 10. bekk.
„Hrós dagsins fá nemendur í 7.-10. bekk í Holtaskóla í Reykjanesbæ fyrir fyrirmyndarhegðun í morgun þegar mér bauðst að lesa fyrir þann fjölmenna hóp á sal. Einstakur agi, kurteisi, virðing og frábær hlustun og forvitnilegt að fylgjast með því hvað allt gekk snurðulaust fyrir sig. Skólinn, sem og margir aðrir, eru með svokallað PBS kerfi - Positive Behavior Support en um er að ræða heildstæðan stuðning við jákvæða hegðun sem eykur félagsfærni bætir samskipti og dregur úr hegðunarvanda,“ sagði verðlaunarithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson á Facebook síðu sinni í gær.
Þorgrímur hefur um árabil ferðast víða um land í skóla og lesið upp úr bókum sínum. Holtaskóli var meðal skólanna sem hann heimsótti í vikunni. Rithöfundurinn ráðagóði lét ekki einungis góð orð falla í garð nemenda heldur bætti um betur og hrósaði stjórnendum og kennurum líka: „[PBS kerfið er] Alveg klárlega að virka í Reykjanesbæ enda flottir skólastjórnendur og kennarar. Til hamingju, þið!“