Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hrósað fyrir flott form eftir langa baráttu við búlimíu
Embla Kristínardóttir. VF-mynd: Sólborg
Föstudagur 27. október 2017 kl. 05:00

Hrósað fyrir flott form eftir langa baráttu við búlimíu

-Landsliðskonan Embla Kristínardóttir stígur fram og segir frá átröskun

„Ég er í landsliðinu, æfi tvisvar á dag og það var ekki auðvelt að æla hvern einasta dag,“ segir körfuboltakonan Embla Kristínardóttir, en frá því í nóvember í fyrra hefur hún glímt við átröskunina búlimíu. Fyrir nokkrum vikum síðan ákvað Embla að stíga fram og segja frá og í kjölfarið hafa margir leitað til hennar með svipuð vandamál og þá sérstaklega aðrar íþróttakonur.

Sjúkdómurinn, sem er andlegur, lýsir sér í átköstum sem leiða svo til þess að viðkomandi kastar upp. Embla segir lítið um fræðslu átraskana í samfélaginu og að margir þori ekki að tala um þess konar sjúkdóma. „Þessu fylgir svo mikil skömm og það eru svo fáar fyrirmyndir sem maður þekkir sem hafa stigið fram og sagt sína sögu. Í fyrstu var ég í algjörri afneitun, svo varð ég smám saman of þreytt til að geta verið með á æfingum. Þá fór ég fyrst að gera mér grein fyrir því að ég væri bara veik,“ segir Embla, en hún hélt sjúkdómnum leyndum í marga mánuði. „Það var auðvelt að fela þetta. Ef ég var veik sagðist ég bara vera með ælupest.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Embla byrjaði svo að fá hrós frá fólki varðandi útlit sitt eftir að hafa glímt við sjúkdóminn í tæplega hálft ár. „Ég grenntist ótrúlega mikið á stuttum tíma og þá fór fólk að segja mér hvað ég væri í flottu formi. Ég hafði þá verið að æla í fimm mánuði.“

„Þú ert svo grönn - þarft að borða meira“
Hún segir fólk forðast það þó að ræða sjúkdóminn við hana, en hún segir það nauðsynlegt að ræða átraskanir. „Fólk veit ekki hvernig það á að haga sér, ég veit ekki hvort það haldi að mér finnist óþægilegt að tala um þetta. Fólk þorir ekki einu sinni að segja orðið „búlimía“ við mig. Þetta er ekki tæklað rétt.“ Litla fræðslu er að fá í skólum að hennar sögn og litla hjálp almennt. „Ég man ekki eftir því að hafa lært um þetta í skóla. Flestir sem hafa rætt þetta við mig hafa bara verið að forvitnast og spyrja því þeir vita í raun ekkert um þetta.“

Útlitsdýrkun í samfélaginu er orðið stórt vandamál og segist Embla upplifa mikla pressu varðandi það hvernig hún líti út. „Ég á þriggja ára gamla stelpu og ég fékk oft athugasemdir frá fólki eftir að ég átti hana, að ég yrði nú enga stund að verða grönn aftur. Mér finnst fólk skipta sér óþarflega mikið af. Svo þegar ég var mjög grönn fékk ég oft að heyra að ég mætti nú til dæmis alveg leyfa mér tvær kökusneiðar, því ég væri nú svo grönn og að ég þyrfti að fara að borða meira. Þetta er fáránlegt. Fólk myndi ekki segja við feitt fólk að borða minna,“ segir hún.

Fyrrverandi kærastinn gagnrýndi útlitið
Embla upplifði einnig mikla gagnrýni varðandi útlit sitt frá fyrrverandi kærasta sínum sem minnti hana ítrekað á það að hún væri ekki í nógu góðu líkamlegu formi. „Hann spurði mig af hverju ég væri ennþá með bumbu fyrst ég væri að æfa tvisvar á dag. Þegar ég keypti mér ný föt spurði hann mig hvort hin væru hætt að passa, ég fékk að heyra að vinkonur mínar væru í betra formi en ég og fleira. Honum fannst ekkert að þessu og fattaði ekki að hann væri að segja eitthvað slæmt, en ég fékk að heyra svona hluti ítrekað og fór þá bara að trúa því að þetta væri rétt.“ Embla, sem var þó ekki í slæmu formi á þessum tíma, segist bara hafa nýtt sér þyngd sína í körfuboltanum. „Þegar ég var svo orðin ótrúlega létt og orkulítil og nánast ekki með neina vöðva lengur hugsaði ég með mér að nú þyrfti ég að segja stopp. Ég gat ekki gert þetta lengur.“

Metabolic hjálpaði mikið
Embla fór þá að æfa Metabolic hjá þjálfaranum Helga Jónasi sem hún segir hafa bjargað sér. „Þar fór ég að fá öðruvísi hrós frá fólki, ég fékk að heyra að ég væri orðin svo sterk í staðinn fyrir að heyra að ég væri grönn. Mér leið mjög vel í Metabolic og langaði að standa mig vel þar. Ég fór þá að reyna að einbeita mér að því að borða svo ég gæti mætt á æfingarnar. Það var ótrúlegt hvað Helgi hvatti mig mikið án þess að vita hvað væri í gangi hjá mér. Því lengur sem ég var í þjálfun hjá honum, því minna ældi ég.“ Hún segir uppköstin sem fylgja búlimíu þó ekki einhver meðvituð ákvörðun. „Ég ákvað ekkert að nú skyldi ég æla. Mér leið ekkert eins og mér sjálfri. Maður er bara það veikur að maður gerir þetta bara, en hugsar svo eftir á hvað maður hafi eiginlega verið að spá.“

Mikilvægt að tala um átraskanir
Hún hvetur fólk sem glímir við búlimíu að stíga fram og ræða veikindin. „Sérstaklega við fjölskylduna sína. Fjölskyldan er hópurinn sem mun hjálpa hvað mest. Við verðum að tala um þetta. Þær stelpur sem hafa leitað til mín vita ekkert hvað þær eiga að gera. Einhverjar þeirra hafa hætt í körfubolta og þora ekki að vera þær fyrstu sem stíga fram. Mér finnst geðveikt að ég geti hjálpað einhverjum, því ég vissi sjálf ekkert hvað ég ætti að gera. En það verður auðveldara í hvert skipti að tala um þetta.“

[email protected]