Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hreyfing úti við besta ráðið gegn pirringi og þreytu
Guðbjörg á hlaupum á Vetrarbrautinni ásamt Svani Má Scheving. VF-mynd/dagnyhulda
Laugardagur 4. febrúar 2017 kl. 06:00

Hreyfing úti við besta ráðið gegn pirringi og þreytu

- Hlauparinn Guðbjörg Jónsdóttir í viðtali

Sannkölluð hlaupabylting hefur átt sér stað undanfarin ár, bæði á Suðurnesjum og víðar um landið. Einn af kyndilberum byltingarinnar á Suðurnesjum er Guðbjörg Jónsdóttir sem leiðbeint hefur fjölmörgum byrjendum og lengra komnum. Þessa dagana þjálfar hún hlaupahóp 3N, þríþrautardeildar UMFN og byrjendur og aðeins lengra komna á HlaupaFitCamp námskeiðum. Allar byrja æfingarnar og enda við fótboltavöllinn við Sunnubraut í Reykjanesbæ. „Ég trúi því að allir geti hlaupið og liðið vel á meðan, lykillinn er að beita líkamanum á réttan hátt og það kennum við á hlaupanámskeiðunum,“ segir Guðbjörg. Nokkur hundruð manns hafa sótt hlaupanámskeiðin hjá Guðbjörgu í gegnum tíðina, sem hún er ýmist ein með eða með aðstoð góðra vinkvenna sinna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hlaupahópur 3N á æfingu. Hópurinn hleypur þrisvar sinnum í viku auk þess að hjóla og synda.

HlaupaFitCamp námskeiðin eru fyrir fólk sem hefur ekkert stundað hlaup og þá sem geta hlaupið nokkra kílómetra. Á æfingunum eru einnig gerðar styrktaræfingar. Guðbjörg segir mikilvægt fyrir flesta að æfa með öðrum í hóp, þannig fái fólk aðhald og hætti síður að stunda hlaupin. Þegar hlauparar í HlaupaFitCamp eru farnir að geta hlaupið um 7 kílómetra geta þeir fært sig yfir í hlaupahóp 3N. Guðbjörg segir það mjög gefandi og skemmtilegt að þjálfa hlaupara. „Til dæmis að sjá fólk sem trúir því varla að það geti hlaupið. Svo hleypur það einn hring, 500 metra, á vellinum og ljómar alveg. Það er yndislegt að sjá og ein besta tilfinning í heimi.“ Guðbjörg segir hugarfarið skipta sköpum í hlaupunum og að hugurinn beri fólk hálfa leið og gott betur en það.

Áhuginn kviknaði þegar Guðbjörg sá hlaupara með vasadiskó
Guðbjörg byrjaði sjálf að hlaupa árið 1994. Í þá daga var mun sjaldgæfara að fólk væri úti að hlaupa en í dag. „Þá vissi ég um þrjá til fjóra sem fóru reglulega út að hlaupa í Reykjanesbæ. Eitt sinn hlupu tveir þeirra fram hjá heima hjá mér og voru með vasadiskó. Þá hugsaði ég með mér að þetta langaði mig að gera.“ Stuttu síðar byrjaði Guðbjörg að hlaupa með vinkonu sinni, Önnu Lóu Ólafsdóttur, og ákvað í kjölfarið að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni. Síðan þá hefur Guðbjörg tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni nær árlega. Fram til ársins 2004 hljóp Guðbjörg aðeins á sumrin en ákvað þá ásamt vinkonu sinni að fara út að hlaupa tvisvar sinnum í viku allan veturinn líka, alveg sama hvernig veðrið var. „Við bara klæddum okkur vel og létum slæmt veður ekki stoppa okkur. Ef það var alveg brjálað veður, þá hlupum við bara inni í Reykjaneshöllinni.“

Í dag hleypur Guðbjörg yfirleitt þrisvar sinnum í viku með 3N, þríþrautarhópi UMFN. Síðan árið 2007 hefur hún æft þríþraut en í þeirri íþróttagrein er keppt í sundi, hlaupi og hjólreiðum. „Þegar ég var að verða fertug árið 2007 fannst mér vanta áskorun í lífið og ákvað að skella mér í þríþraut í London. Á þeim tíma kunni ég ekki skriðsund og það tók mig um hálft ár að ná tökum á önduninni. Mér fannst ég vera að drukkna eftir hverja ferð og synti skriðsund í fjórðu hverri ferð og bringusund á milli.“ Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Guðbjörg æfir nú sund tvisvar sinnum í viku og hjólar einu sinni til tvisvar. Hún hefur tekið þátt í nokkrum þríþrautum. Sú lengsta er hálfur járnkarl árið 2014. Í hálfum járnkarli byrja keppendur á að synda 1900 metra svo hjóla þeir 90 km og enda svo á hálfu maraþoni, 21,1 km.

Fagnar fimmtugsafmælinu með fjölmennum hlaupahópi
Guðbjörg segir það hafa verið góða ákvörðun í kringum fertugt að byrja í þríþraut. Hún hafði heyrt frá eldri konu að lífið byrjaði um fertugt og ákvað að trúa því og hefur síðan þá unnið hvern persónulega sigurinn á fætur öðrum. Guðbjörg fagnar fimmtugsafmælinu í næstu viku og ákvað að halda upp á tímamótin með því að fá sem flesta til að hlaupa með sér Berlínarmaraþon í byrjun apríl. Hlaupið er hálft maraþon og er Guðbjörg þegar komin með 30 hlaupara sem ætla með. „Hlaupahópurinn hjá 3N fjölmennir í Berlínarmaraþonið. Við ákváðum þetta í kringum Ljósanótt í fyrra og þá skráði fólk sig og pantaði flug. Það hefur því verið mikil tilhlökkun hjá okkur í vetur sem hefur gert æfingarnar enn skemmtilegri.“

Ekki er hægt að ljúka spjallinu án þess að fá Guðbjörgu til að lýsa því hvað það er við hlaupin sem er svo eftirsóknarvert. „Eftir hlaupin finn ég alltaf fyrir yndislegri tilfinningu, ég er létt í lund og trúi að ég geti allt sem mig langar til að gera. Svo fylgir hlaupinu líka mikið frelsi því að þó að gott sé að æfa með hóp þá er engin ástæða til að sleppa æfingu á ferðalögum enda er hægt að hlaupa næstum því hvar og hvenær sem er.“ Guðbjörg segir það algengt að fólk fari ekki út að hlaupa því það telji sig ekki hafa næga orku. „Þvert á móti þá fær fólk orku með því að hlaupa. Þegar maður er pirraður og þreyttur er einmitt besta ráðið að klæða sig eftir veðri og fara út að ganga eða skokka.“

[email protected]

Sjónvarpsviðtal við Guðbjörgu má sjá hér:

 

 

Frá hlaupaæfingu 3N á Vetrarbrautinni við fótboltavöllinn í Keflavík á dögunum.