Hressandi súpa fyrir ónæmiskerfið
Nú eru umgangspestarnar heldur betur farnar að láta á sér kræla og margir lasnir heima þessa dagana, ýmist með hálsbólgu, flensu eða kvef enda standa þessar sýkingar yfirleitt sem hæst á þessum árstíma. Fyrstu viðbrögð mín ef ég finn að ég er að byrja fá einkenni eru að tækla þetta strax með því að sjá til þess að líkaminn fái nóg af D-vítamíni, góðum omega fitusýrum, fjölvítamíni, auka skammt af C-vítamíni og sínki og góðum meltingagerlum (acidophilus).
Þetta er grunnurinn minn fyrir sterku ónæmiskerfi en svo tek ég aukalega oreganó olíu í hylkjum og grape seed extract hylki 3x yfir daginn en hvoru tveggja hefur sýkladrepandi áhrif og er mjög gagnlegt til að fyrirbyggja öndunarfærasýkingar. Svo nota ég auðvitað kröftuga jurtablöndu sem húrrar vel upp ónæmiskerfið enda besta lyfið að mínu mati og getur dregið verulega úr einkennum og flýtt fyrir bata.
Huga þarf vissulega vel að því hvernig maður nærir sig þegar maður er lasin og eru súpur mjög góð leið til að næra okkur og frábær leið til að koma inn virkum efnum úr grænmetinu til að styðja enn frekar við kerfið okkar. Þessi súpa er rótsterk og rífur vel í og inniheldur m.a. shiitake lækningasveppinn (fæst í næstu matvörubúð) sem hefur mjög breiða virkni gegn mörgum vírusum og bakteríum. Súpan inniheldur þar að auki ýmis krydd sem hafa mikla virkni og gefa henni gott bragð.
Ónæmisstyrkjandi súpa:
2 bollar gulrætur
1 b púrrulaukur
1 b sellerí
1 b laukur
4 hvítlauksrif
1 bolli steinselja
½ bolli shhitake sveppur
½ bolli fersk basilika
1 msk ólífu- eða kókósolía
1 tsk sjávarsalt
1 tsk turmerik duft
smá dass cayenne pipar
eða engifer duft
salt og pipar
8 b vatn
• Saxið grænmeti, hitið olíu í potti og bætið lauk og hvítlauk við. Steikið á miðlungshita í 5 mín.
• Bætið gulrótum og shiitake sveppum og steikið í aðrar 5 mín.
• Bætið þar næst sellerí, púrrulauk, steinselju, basiliku, kryddi og vatni.
• Hækkið hitann og látið suðu koma upp. Lækkið svo niður í miðlungshita og látið malla í 20 mín.
Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is