Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Hreinsaði flöskur og taldi töflur
  • Hreinsaði flöskur og taldi töflur
Laugardagur 10. janúar 2015 kl. 14:03

Hreinsaði flöskur og taldi töflur

– Þórdís kvaddi samstarfsfólk eftir 50 ár í apótekinu

Síðasti vinnudagur Þórdísar Herbertsdóttur hjá Lyfjum og heilsu í Reykjanesbæ var 30. desember síðastliðinn. Þá hafði hún starfað í sama húsinu, sem áður hýsti Apótek Keflavíkur, í 50 ár. Sama dag varð Þórdís 67 ára. Víkurfréttir mættu á staðinn og ræddu við Þórdísi og samstarfsfólk hennar, sem sagði hana mikinn prakkara og vildi með öllu móti hafa hana lengur.

„Það er voðalega skrýtið að vera að hætta og þetta er skrýtinn dagur. Ég var búin að ákveða að hætta 67 ára og ætla ekki að breyta því þótt þau vilji hafa mig áfram til sjötugs,“ segir Þórdís og hlær. Hún segir að henni hafi fundist yndislegt að vinna í sama húsinu og ganga inn um sömu dyrnar í fimmtíu ár. „Hér er mjög gott fólk og fínir yfirmenn. Viðskiptavinirnir þekkja mig orðið svo vel líka. En svona er þetta líf. Nú taka við rólegheit og að lifa lífinu.“

Byrjaði 13 ára
Þegar Þórdís rifjar upp árin í vinnunni segir hún breytingarnar hafa orðið mjög miklar. „Í gamla daga var allt öðruvísi. Ég byrjaði á því að skola og þrífa lyfjaflöskur og önnur ílát þrettán ára með skóla. Svo vann ég mig upp í að sjá um vörurnar og endaði í versluninni. Við vorum að telja hérna töflur og fylla á mixtúrur og ýmislegt áður. Það var mjög mikil vinna. Nú kemur þetta allt tilbúið og það þarf ekkert að pæla í því,“ segir Þórdís og tekur fram að tímarnir hafi verið afar skemmtilegir. „Ég veit ýmislegt um heilsu fólks og er að sjálfsögðu bundin trúnaði gagnvart því. Þegar ég geng hér inn fer ég í annan gír og svo aftur þegar ég geng út. Ég skil vinnuna algjörlega eftir þar, það er mikilvægt að geta það.“

Samtals 211 ára
Einnig segir Þórdís mikla breytingu hafa orðið þegar starfsmenn lærðu á afgreiðslukassana frammi í búð sem urðu æ tæknivæddari eftir því sem árin liðu. „Á tímabili slógum við inn allar upplýsingar á lyfjaglösin á límmiða með ritvélum. Núna er bara ýtt á takka og miðarnir eru tilbúnir.“ Auk Þórdísar hafa tvær konur starfað í 50 ár eða lengur hjá gamla apótekinu, þær Unnur Þorsteinsdóttir og Sólveig Guðmunda Sigfúsdóttir. Þær voru mættar í kveðjuhóf sem samstarfsfólk Þórdísar efndi til á síðasta starfsdegi hennar og hlógu mikið þegar þær rifjuðu upp skondin atvik frá gömlum tímum. Þær komust líka að því að samtals væri þríeykið 211 ára og fylgdi þeirri uppgötvun mikil hlátrasköll.

Er mikill prakkari
Blaðamaður bað nokkra samstarfsmenn um að lýsa Þórdísi í orðum. Það stóð ekki á svörum og voru þeir fyrst og fremst sammála um að hún hafi alla tíð verið mikill prakkari. „Ekki bara hér heldur líka utan vinnunnar. Hún stundaði það hér áður fyrr að hringja og þykjast vera læknir og láta óreynda lyfjafræðinga taka niður lyfseðla.“ Þórdís bætti hlæjandi við að eitt sinn hafði hún látið einn hlaupa apríl og hann hafi orðið svo reiður að hann elti hana um allt hús. Annar samstarfsmaður vildi meina að nauðsynlegt væri fyrir hvern vinnustað að hafa slíkan gleðigjafa innan borðs. „Þess vegna hef ég lagt mikið að henni að bæta við tíu árum hér. Hún er svo skemmtilegur samstarfsmaður, enda kornung manneskja. Hún lítur ekkert út fyrir að vera að fara á eftirlaun.“



Þórdís ásamt Unni Þorsteinsdóttur og Sólveigu Guðmundu Sigfúsdóttur. Sigurður Gestsson apótekari fékk að vera með þeim á myndinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024