Hreinsað við Þórshöfn
Sjálfboðaliðar Bláa hersins nýttu veðurblíðuna um síðustu helgi til hreinunarstarfa í Þórshöfn norðan við Ósabotna. Að sögn Tómasar Knútssonar söfnuðust um þrjú tonn af drasli í þessari yfirferð, gamlar netadræsur og fleira. Alls var unnið í um 50 klukkustundir í sjálfboðavinnu með góðum árangri þar sem ásýnd svæðisins er allt önnur eftir hreinsunina.
Eftir brotthvarf bandaríska hersins og tilkomu Ósabotnavegar hefur fólk í auknu mæli sótt inn á þetta svæði til að njóta útiveru og náttúru. Gaman er að ganga meðfram Ósabotnum inn að Þórshöfn en þar er mikið fuglalíf. Þá er líklegt að forvitnir selir skjóti upp kollinum til að skoða göngufólk.