Horfir öðruvísi á heiminn eftir dvöl í óbyggðum Afríku
Bjarni Halldór fór vel út fyrir þægindarammann
Í byrjun árs ferðaðist Bjarni Halldór Janusson um Suður-Afríku og landleiðina í gegnum fjögur Afríkulönd, um sjö þúsund kílómetra á 24 dögum. Leiðin lá í gegnum Namibíu, Botswana og Zimbabve. Þar svaf hann undir berum himni í eyðimörk, stóð í návígi við nashyrninga og kafaði með hákörlum og krókódílum, svo fátt eitt sé nefnt.
„Við vorum hópur af fólki frá ýmsum löndum sem ferðuðumst á stórum trukki með eldhúsi. Á leiðinni stoppuðum við á helstu stöðum þessara landa og tjölduðum. Stundum var ekki síma- eða netsamband í nokkra daga og lítið um sturtuferðir en það var hluti af ævintýrinu,“ segir Bjarni í samtali við blaðamann. „Það er ansi magnað hvað maður upplifði mikið og lærði í þessari ferð. Maður þarf að fara langt út fyrir þægindarammann og gerði til dæmis Suður-Afríkubúinn sem var með í ferðinni óspart grín að okkur Evrópubúunum,“ en Bjarni fór nokkuð langt út fyrir þennan svokallaða þægindaramma.
Langaði að prófa sjálfan sig og fara út fyrir rammann
Hann fór bæði í fallhlífarstökk í eyðimörk í Namibíu og teygjustökk, auk þess sem Bjarni fór á eigin vegum í hákarla- og krókódílaköfun í Suður-Afríku. „Mig langaði að „testa“ sjálfan mig og sjá hvernig ég myndi höndla þetta og það var svolítið gaman. Ég varð alveg smeykur á meðan á þessu stóð en það er mjög gaman eftir á að hafa gert þetta. Fyrst maður er kominn út fyrir þægindarammann er eins gott að fara bara lengst út fyrir hann,“ bætir Bjarni við en hann hafði einnig náin samskipti við framandi dýr í ferðinni. „Einn daginn fórum við að leita að nashyrningum á fjalli og maður upplifði að hafa þá svona tveimur metrum frá sér úti í náttúrunni. Sem betur fer voru þeir í góðu stuði og vildu greinilega ekki traðka á mér. Ég lærði í ferðinni að þó að mörg dýr geti verið árásargjörn eru þau líka friðsæl ef maður kemur fram við þau af virðingu.“
Fordómar fyrir framandi stöðum
Ferðin snerist mest um að vera í óbyggðunum en inn á milli hitti hópurinn heimamenn og fékk að kynnast menningu þeirra. „Það er aldrei að vita nema maður fari aftur á þetta svæði og komist þá í betri tengsl við heimamenn. Um leið og ég kom heim var ég alveg staðráðinn í því að fara aftur út, en þá ekki í óbyggðaferð heldur annars konar ferð þar sem maður kynnist heimafólki og/eða sinnir sjálfboðaliðastarfi.
Mér fannst mjög fróðlegt að læra um lífið og stjórnmálaástandið í þessum löndum en alltaf þegar við keyrðum á milli staða nýtti ég tækifærið og spjallaði við fararstjórann sem átti afa sem hafði upplifað aðskilnaðarstefnuna í S-Afríku á eigin skinni,“ en Bjarni hefur mikinn áhuga á samfélags- og stjórnmálum. „Stjórnmála- og efnahagsástandið í S-Afríku er að þróast í betri átt og það var rosa gott að vera þarna. Það kom mér á óvart af því að ég hafði lesið að Cape Town væri einhver hættulegasta borg í heimi með eina mestu morðtíðnina, en Cape Town var þar í 9.sæti í heiminum. Cape Town er mjög örugg borg fyrir ferðamenn og kom það mér á óvart þar sem maður var kannski með fordóma áður en maður mætti. Hins vegar er þar hverfi í borginni þar sem atvinnuleysi er hér um bil 100% og glæpagengi ráða ríkjum, eins og í fátækrahverfunum í Rio í Brasilíu. Ég fann samt aldrei fyrir óöryggi eða að það væri endalaust verið að reyna selja manni eitthvað dót. Það voru allir virkilega vingjarnlegir og það var eiginlega það besta við ferðina.“
„Margir Íslendingar halda að þeir séu ekki með fordóma en svo eru þeir oft innbyggðir í manni, fólk heldur oft að allt sé betra á Íslandi þó það hafi kannski aldrei komið á framandi staði. Þegar maður sér þetta með eigin augum breytir það miklu hvernig maður lítur á hlutina. Zimbabve var kannski undantekning, þar sá maður vel hvernig ástandið var þar. Daginn áður en við fórum yfir landamærin voru þar mótmæli þar sem kveikt var í byggingum og fólk lét lífið. Herinn var áberandi á götum úti þannig að það var eldfimt ástand þar sem samkvæmt heimamönnum er bara að versna. Ríkið hefur verið fátækt lengi, þar ríkir óðaverðbólga og opinberir starfsmenn fá aldrei launin sín á réttum tíma, en hermenn fá þó alltaf greitt á réttum tíma vegna þess að ríkið telur þá ómissandi í núverandi ástandi.“
Hristi vel upp í rútínunni
Vissulega upplifi og lærði Bjarni margt í ferðalaginu. Hann vill þó ekki detta í klisjugryfjuna og kalla sig breyttan mann. „Svona upplifun er kannski ekki alveg þannig að hún breyti manni um alla tíð en hins vegar lætur ferðalagið mann staldra aðeins við og hugsa. Klisjan um að svona ferð breyti manni er að einhverju leyti rétt en ekki kannski eins mikið og maður vill og áhrifin eru mislengi að dvína. Maður er svo fljótur að venjast lífinu á Íslandi aftur. Það er gott að fara í svona ferðir annað slagið til að hrista aðeins upp í rútínunni sem maður á það til að festast í. Það dugir ekki að fara í eina svona ferð, maður verður að stunda þetta ef maður hefur nægan áhuga. Ég stefni allavega á að fara í fleiri svona ferðir og fara um Asíu og S-Ameríku.“
Það var vetur í Afríku þegar Bjarni fór út. Hitastigið var því oft 35-40 stig á daginn en um nóttina var kannski við frostmark. Hann lét það þó ekki aftra sér frá því að gista undir berum himni í Kalahari eyðimörkinni í Botswana, sem er stærsta saltslétta í heiminum. „Ég var sá eini í hópnum sem svaf undir berum himni, í mörgum peysum og í svefnpoka á meðan hinir gistu í bílnum. Það var ansi mögnuð upplifun, það er engin ljósmengun þannig að maður sér allar stjörnurnar skína skært. Þarna liggur maður aleinn í afslappandi umhverfi og sofnar í algjöru hljóði. Þarna náði maður að kúpla sig alveg út og finna streitu undanfarinna mánuða líða úr sér. Ég var búinn að vera á fullu fyrir ferðina í skóla og pólitíkinni og fannst alveg fínt að losna við áreitið þaðan og hlusta ekki á fréttirnar á hverjum degi,“ segir ævintýramaðurinn Bjarni að endingu.