Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Horfðum á járnið í skipinu rifna eins og pappír
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 27. febrúar 2021 kl. 13:35

Horfðum á járnið í skipinu rifna eins og pappír

Sjómaðurinn Matti Óla hefur komist í hann krappann á sjónum, lent í sjávarháska tvisvar en líka tekið þátt í björgun tveggja skipverja. Upplifunin að vera í brú Steindórs GK berjast um í brimi undir Krýsuvíkurbjargi, fyrir 30 árum, markaði líf Matta Óla. Hann átti síðan eftir að tapa aleigunni í hruninu, upplifa erfiða ástvinamissi og loks að lenda í því að velta olíuflutningabíl í Ísafjarðardjúpi. Þá hélt Matti að hann væri dáinn.

Marteinn Ólafsson eða Matti Óla flutti með stórri fjölskyldu sinni frá Tálknafirði til Sandgerðis þegar hann var 15 ára gamall. Hann fór strax á sjóinn og í einum af fyrstu túrunum lenti hann í sjónum ásamt tveimur öðrum af fimm manna áhöfn. Þeir komust aftur um borð enda veður gott en nokkrum árum síðar tók hann þátt í björgun tveggja skipverja á trillu í aftakaveðri utan við Sandgerði í október 1987. Ekki liðu nema fjögur ár þar til Matti var kokkur á Steindóri GK sem strandaði undir hrikalegu Krísuvíkurbjargi 20. febrúar 1991. Öllum var bjargað giftusamlega en Matti átti ekki afturkvæmt á sjóinn eftir að hafa slasast í óhappinu. Var frá vinnu í nokkur ár þar til hann fór að keyra olíubíla. Hann fór líka í tónlistarnám og 20. febrúar, þegar 30 ár voru frá slysinu undir Krýsuvíkurbjargi gaf hann út sína þriðju hljómplötu. Matti Óla segir okkur hér frá óskemmtilegri reynslu á sjónum en líka frá ánægjulegu atviki þegar hann tók þátt í björgun tveggja skipverja úr trillu, erfiðleikum eftir bankahrun og ástvinamissi og loks þegar hann velti stórum olíuflutningabíl. Þá hélt Matti að hann væri dáinn.

Matti Óla þetta eru skemmtileg tímamót hjá þér, þú ert að gefa út þína þriðju plötu núna 20. febrúar, en það er óhætt að segja að tímamótin séu svolítið sérstök. Fyrir 30 árum síðan lentirðu í alvarlegu atviki á sjó, viltu segja okkur kannski aðeins frá því?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Já, þetta eru tímamót, 30 ár eru náttúrulega langur tími. Það mildast margt með aldrinum, en í minningunni þá var þetta alveg gríðarlega erfiður tími. Við ströndum þarna undir Krýsuvíkurbjargi, 20. febrúar 1991. Aðstæðurnar þarna voru mjög slæmar, það hafði verið sunnanátt og hann var að snúa sér um nóttina í norðanátt, sem gerir það að verkum að það myndast mikið niðurstreymi fram af bjarginu. Sem kemur svo á móti öldunni, svo það myndast alveg gríðarlegt brim í fjörunni og við lendum þarna upp í bjarginu. Og það var bara skelfilegt í einu orði sagt. En þetta voru vanir menn um borð, og ein kona, Vigdís, vinkona mín og barnapía hjá okkur fjölskyldunni. Það var aldrei neitt óðagot sem greip um sig vegna þess að þetta snerist bara um að bjargast. Ég held að enginn okkar hafi verið hræddur á meðan á þessu stóð. Ég veit ekki almennilega hvernig á að koma orðum að því, en á meðan á þessu stendur eru allir einhentir að því að komast af, og það er ekki fyrr en eftir á sem áfallið kemur, og þegar menn fara að átta sig á því hvernig aðstæður voru.“

Giftusamleg björgun við hrikalegar aðstæður?

„Já, þetta var alveg feiknamikið afrek sem þyrlusveitin vann þarna, við að bjarga okkur. Þetta var okkar eini möguleiki, við áttum engan annan möguleika undir þessum kringumstæðum. Til að lýsa í grófum dráttum hvað það er sem gengur á, að aflið er svo mikið að þú stendur ekki undir því. Þú bara koðnar niður, þegar höggin koma, þá bara gefur líkaminn sig og þú bara koðnar niður eins og deig. Þú gast ekki haldið þér, það var ekki nokkur möguleiki. Þú varðst að reyna að skorða þig einhvern veginn af. Og það var það sem við gerðum. Við horfðum á járnið í skipinu bara rifna eins og pappír fyrir augunum á okkur. Flettast í sundur.“

Hvar voruð þið í skipinu?

Við vorum uppi í brú. Það var náttúrulega gríðarlega margt sem gekk á meðan á þessu stóð og brotin gengu yfir okkur hvert á fætur öðru. Það náttúrulega brotnaði allt sem brotnað gat, brúin fylltist af sjó en sem betur fer komumst við í flotgallana. Um leið og við komumst upp í brú þá komumst við í flotgallana sem ná að halda á okkur hita, sem hjálpar okkur að halda krafti, því það gengur gríðarlega fljótt á orkuna við svona kringumstæður.“

Maður getur ímyndað sér að tíminn sé lengi að líða við svona aðstæður en björgunin gekk hratt fyrir sig er það ekki?

„Jú, þegar að til kom þá gekk hún mjög hratt fyrir sig. Það er náttúrulega mjög margt sem gengur á þarna og eitt af því sem gerist er að við náum að senda út neyðarkall áður en allt rafmagn slær út á skipinu. Svo líður tíminn og við vitum ekkert hvort einhver hafi heyrt neyðarkallið. Við fréttum ekki af því fyrr en seinna að neyðarkallið komst til skila og það voru skip sem voru þarna fyrir utan og þau biðu utan við brimgarðinn. Eins og þau sáu þetta og menn lýstu því, þá töldu þeir enga möguleika að nokkur maður væri á lífi um borð í skipinu þar sem það veltist um í briminu. En sem betur fer að þá komst neyðarkallið til skila og þyrlusveitin brást við. Ég er nú ekki með það alveg á hreinu hvað þetta eru margar mínútur, en þetta er einhver klukkutími sem líður þar til þyrlan kemur á svæðið. Og þegar þyrlan kemur, þá heyrum við í henni í gegnum brimskaflana, heyrum hana fljúga yfir og svo hverfur hljóðið. Við vorum alveg pottþétt á því að hún hefði ekki fundið okkur. Þetta væri bara búið. Þá flugu þeir yfir, skoðuðu aðstæður og svona mátuðu sig við þetta, flugu svo upp á bjargið og losuðu sig við allt lauslegt úr þyrlunni, meðal annars eldsneyti. Tveir úr áhöfninni fóru úr þyrlunni, með sjúkrabörur og annað, til að létta þyrluna, vegna þess að það var svo mikið niðursog með bjarginu að þyrlan hafði ekki afl til að halda sér á lofti ásamt því að bjarga okkur. Síðan komu þeir aftur og það var þvílíkur léttir að það er ekki hægt að lýsa því með orðum, að heyra hana koma aftur. Síðan hefjast björgunaraðgerðir. Þeir svífa yfir okkur, og þegar maður horfði upp, þeir voru neðan við bjargbrúnina, manni fannst eins og spaðarnir væru að snerta bjargið, þeir voru svo nálægt bjarginu. Þeir slaka niður tauginni og þá þurftum við að komast úr brúnni og út á brúarvænginn, til að komast í taugina. Og það var miklu meira en að segja það. Við hjálpuðumst að við það. Ég hafði lent í hnjaski þarna um borð og var dálítið illa á mig kominn. Það höfðu fallið saman hryggjarliðir og ég var svolítið kvalinn og ég fer fyrstur. Ég er hengdur í sigólina og hífður frá borði. Ég hef aldrei upplifað svona tilfinningu fyrr né síðar og á vonandi aldrei eftir að upplifa svona aftur. Þarna áttaði maður sig á því að maður var hólpinn. Þeir hífa mig upp í þyrluna og koma mér um borð. Ég sit þarna og þeir eru að slaka ólinni niður aftur og sækja næsta skipverja sem er Vigdís og ég er að fylgjast með þeim á meðan ég ligg þarna á gólfinu í þyrlunni. Það var ótrúlegt. Maður sér þetta ekki einu sinni í bíómynd. Þeir voru svo einbeittir og þyrlan hreyfðist ekki fet. Hún var bara kyrr og manni fannst maður geta snert bjargið. Síðan kemur Vigdís kom upp og þá hafði þyrlan ekki afl í meira, þegar við vorum komin tvö um borð. Þá þurftu þeir að fara með okkur upp á bjargið. Til þess að ná henni af stað þurftu þeir að steypa þyrlunni niður, þeir náðu ekki að lyfta henni upp. Svo sleikti hún  brimgarðinn, flaug síðan upp á bjargið og lét okkur þar niður. Þar var tekið á móti okkur og svo fór hún og sótti hina. Svona gekk þetta, hún náði okkur í þremur ferðum, við vorum átta. Lukkan var með okkur þennan dag.“

Er þér oft hugsað til þessa atburðar? Ég sé að þetta fær svolítið á þig.

„Já auðvitað gerir það það. Þetta hafði gríðarleg áhrif, og allt sem kom í kjölfarið á þessu. Sævar bróðir var skipstjóri þarna um borð og hann á náttúrulega lokaorðið í öllum ákvörðunum sem teknar eru um borð og hann tekur alltaf rétta ákvörðun. Þetta er einhvern veginn þannig, hann er bara einstaklega vel af manni gerður. Heldur ró sinni og undir svona kringumstæðum, þú veist, það má ekkert út af bera.

En þú átt fleiri sérstök atvik í þinni sjómennsku sem varði í um 20 ár er það ekki? Þið bræður náðuð að vera hinum megin við borðið þegar þið björguðuð tveimur sjómönnum sem að voru í vandræðum út frá Sandgerði, fjórum áður áður, 1987.

„Já, við vorum mikið saman til sjós, bræðurnir og það var náttúrulega einstaklega gott að vera með honum til sjós honum Sævari, hann er svoddan ljúfmenni. Það er þannig að þetta er um haustið 1987, í byrjun október. Við höfðum verið á veiðum hérna sunnan af landinu, og vorum á leið í land þegar aftaka veður skellur á.  Bara eins og hendi væri veifað, norðvestan stórviðri. Sem er versta átt sem þú getur fengið ef þú ætlar í innsiglinguna í Sandgerði. Þar sem við erum að skríða með landinu og áleiðis í land, þá held ég að Sævar hafi nú verið búinn að taka ákvörðun um að fara fyrir Garðskagann og fara inn í Keflavík. Þá siglum við fram á Birgir RE 230, 11 tonna trillu, á leiðinni í land, þar sem hann er að berjast í stórsjó. Þá höfðu þeir mjög líklega verið út á skerjum, þeir voru mikið þar. Við reyndum að kalla í þá en þeir svara okkur ekki. Sævar ákveður að fylgja þeim eftir og sjá hvernig þeim reiðir af. Svo þegar við erum að koma fyrir rennuna í Sandgerði, þá tekur Svanur heitinn, sem átti trilluna og var skipstjórinn um borð, ákvörðun um að fara inn í rennuna, frekar en að fara fyrir Garðskagann. Það var byrjað að brjóta saman í rennunni. Hann fer upp í rennuna, og það var ekkert annað í stöðunni fyrir okkur en að fylgja þeim eftir, því okkur leist bara engan veginn á þetta. Þegar við erum komir áleiðis inn í rennuna þá kemur þetta rosalega brot og við fáum það að hluta til á okkur þannig að hann leggst alveg á hliðina hjá okkur báturinn. Við sjáum brotið halda áfram þegar við erum að rétta skipið af og það lendir á Birgi og hann var bara eins og korktappi. Báturinn lyftist upp og hann bara snerist í loftinu og lenti með möstrin ofan í sjó. Það braut alveg látlaust.

Á þessu augnablki tók Sævar ákvörðun um að sigla á eftir honum, fara upp að honum og gera allt sem hægt væri til að bjarga mönnunum. Hann rekur inn rennuna og upp á eyrina sem er bara brimgarður og þetta gerist náttúrulega allt mjög hratt. Við förum á eftir þeim, annar maðurinn er í sjónum og þetta var eins og snjóbylur. Þú áttir fullt í fangi með að hafa augun opin því það frussaðist á þig alveg látlaust. Annar maðurinn er í sjónum og við náum að sigla að honum og reynum að henda til hans björgunarhring en hann sér ekkert og heyrir ekki í okkur. Við þurfum að gera einar tvær tilraunir og svo náðum við að henda hringnum í hann. Þá áttar hann sig og nær að setja höndina ofan í hringinn en hann var orðinn svo máttfarinn að hann gat ekkert meir. Við náðum, mjög varlega, þar sem hann hékk í hringum, að toga hann til okkar og koma höndum á hann og um borð. Það er sagt að menn verða þungir þegar þeir blotna, það er sko engin lygi. Við vorum þrír karlmenn á besta aldri og við áttum fullt í fangi með að koma karlinum um borð. En það hafðist. En þá var trillan á hvolfi hinum megin við okkur og Svanurhékk á skrúfunni á henni. Þetta gerist allt mjög hratt en við snerum okkur beint að því að reyna að bjarga honum og það tekst. . Skipið okkar rekur alveg upp að flakinu og við náum að rétta honum björgunarhringinn. Hann nær að smokra honum utan um sig og við náum að toga hann til okkar. Hann ætlaði ekki að vilja sleppa bátnum. Við þurftum að kalla í hann margoft „slepptu bátnum, slepptu!“ Svo sleppti hann honum á endanum og við náðum honum til okkar. En þá var ekki allt búið. Þá áttum við eftir að komast út úr brimgarðinum aftur og upp í rennuna, til að komast í land. Á því augnabliki þegar við erum að snúa og fara inn í rennuna aftur þá tökum við tvívegis niður í brimgarðinum og það bara lemur alveg upp í skipið. En við komumst inn í rennuna aftur og að bryggju. Þar biðu sjúkrabílar og fólk sem tók á móti okkur og tók við mönnunum. Annar þeirra var mjög máttfarinn. Það var bara spurning um sekúndur, ekkert annað. Skipið okkar fór beint í slipp á eftir og við vorum frá í einhverjar vikur vegna viðgerða. Þarna tók Sævar skipstjóri margar ákvarðanir á augabragði sem allar gengu upp. Allar.“

Svo þú upplifir þarna tvö gríðarstór atvik í þínu lífi á sjónum, bara ungur maður en það var ekki allt.

„Já, ég geri það og ekki þau fyrstu. Ég byrjaði til sjós þegar ég var fimmtán ára. Þá lenti ég í sjónum í fyrsta skiptið. Þá vorum við að toga. Við vorum á humartrolli út frá Sandgerði og vorum að toga yfir hól sem kallast skeljabingurinn og fórum að einhverjum hluta yfir hann. Sem gerði það að verkum að trollið var fullt af skel þegar við erum að taka á því og þetta var á þeim tíma að það voru ekki komnar þessar nútíma græjur, spil og allt sem er í dag. Þetta var meira og minna tekið á höndum. Sem sagt, þegar trollið er komið upp og við erum að vinna við að þurrka belginn, erum á síðunni og erum að nýta ölduna til að þurrka það, kemur djúp alda og lyftir vel undir. Ég og skipstjórinn, Guðjón Bragason, flækjumst í netinu og förum út með netinu. Við erum fimm á skipinu. Við flækjumst í netinu og bara svífum. Sem betur fer þá losnum við strax úr netinu en við svífum út í sjó. Þórsi vinur minn er frammi á forgálganum og hann hleypur aftur eftir og ætlar að bjarga okkur en stígur í netið og svífur út á eftir okkur. Það voru tveir eftir um borð en þrír í sjónum. Sem betur fer endaði það vel, það var mjög gott veður og við náðum að komast um borð aftur. En þetta hafði svolítil áhrif á mig. Þetta gerði það að verkum að ég var einhvern veginn alltaf varkár til sjós.“

Er ekki tekið neitt sérstaklega á því þó 15 ára peyi lendi í sjónum?

„Maður bara fór og skipti um föt og svo hélt dagurinn bara áfram, þetta var ekkert flókið sko.

Þannig var þetta bara. Það var ekkert gert neitt mikið mál úr þessu. Jú, jú, menn höfðu gaman að þessu, sérstaklega ef menn fengu sér í glas og svona, þá var gert grín að þessu. En auðvitað var þetta alvarlegt mál þannig séð og mikil eldskírn.“

„Aflið er svo mikið að þú stendur ekki undir því. Þú bara koðnar niður, þegar höggin koma, þá bara gefur líkaminn sig og þú bara koðnar niður eins og deig. Þú gast ekki haldið þér, það var ekki nokkur möguleiki. Þú varðst að reyna að skorða þig einhvern veginn af. Og það var það sem við gerðum. Við horfðum á járnið í skipinu bara rifna eins og pappír fyrir augunum á okkur. Flettast í sundur.“

Hver einasti dagur var gríðarlegt átak

- Missti konu, foreldra og son á fjórum árum - Tapaði aleigunni í bankahruninu

Matti Óla á ekki bara erfiða lífsreynslu að baki á sjónum því hann tapaði öllu sem hann átti í bankahruninu, missti marga ástvini og var síðan mjög heppinn að halda lífi þegar hann velti stórum olíuflutningabíl með 40 þúsund lítra af bensíni í Ísafjarðardjúpi.

Fyrrverandi sjómaður og núverandi trukkabílstjóri? Þú vinnur við að koma olíu á milli landshluta?

„Já, ég þurfti að gera eitthvað, gat ekki bara hangið og veslast upp. Ég ákvað að fara og taka meiraprófið. Svo bara stökk ég út í djúpu laugina og lét reyna á hvort það væri ekki hægt að nota mig eitthvað í því. Ég kemst inn hjá Esso á Keflavíkurflugvelli, í Knútsstöð, sem þá var. Ég er búinn að vera í olíunni síðan, frá árinu 1997. Fljótlega eftir að Esso er lagt niður og N1 tekur þetta yfir, þá flyt ég mig til, fer til Skeljungs í Reykjavík, og fer að flytja eldsneyti um allt land og er búinn að vera í því síðan. Finnst það frábært, ég þekki fólk um allt land og er alltaf hittandi nýja karaktera.“

En það var ekki alveg eins skemmtilegt hjá þér í bankahruninu?

„Já, ég fékk þá flugu í höfuðið að verða sjálfstæður í þessum bransa. Var samt með annan fótinn í olíunni, þeir segja að ef þú byrjar í olíunni þá ertu bara þar. Þú hættir ekkert í því, þetta er svo þægileg vinna. En ég kaupi mér minn eigin bíl og vagn og fer að harka í þessu öllu saman. Þetta er 2007. Ég varð að taka þátt í þessu.“

Taka þátt í góðærinu?

„Já já, maður var að tapa einhverju. Það vöknuðu allir hvern morgun og fannst þeir vera að tapa á einhverju því það voru allir að græða alls staðar. Og ég ákvað að taka þátt í þessu og legg til pening í lítið fyrirtæki, tek erlent lán til að fjármagna þetta. Það gengur alveg gríðarlega vel en botnlaus vinna. Ég var að keyra sem verktaki fyrir hina og þessa og að vinna fyrir Skeljung líka. Svo vaknaði maður bara einn daginn og veröldin var hrunin. Maður átti útistandandi fullt af peningum. Þeir voru bara frosnir og maður náði ekkert í þessa peninga. Það segir sig auðvitað sjálft að ég þurfti að standa við mínar skuldbindingar og reyndi það eftir fremsta megni. Ég lagði bílnum, fór að vinna sem launþegi hjá Skeljungi áfram, lagði alla mína peninga, hverja einustu krónu, í fyrirtækið til að reyna að halda þessu gangandi. Það gekk bara ákveðið lengi. Svo hrundi veröldin. Þetta var bara búið og ekkert elsku mamma hjá bankanum. Það er engin gæska í gangi þar. Þeir líta ekkert á þetta sem einhverja keðjuverkun, þú þarft bara að standa í skilum. Það var gengið á mann og þetta endaði þannig að fyrirtækið var gert upp og ég tapaði því. Tapaði fullt af peningum og tapaði húsinu. Þetta var auðvitað gríðarlega erfitt og hjónabandið þoldi þetta ekki. Við skiljum og það erfiðasta í þessu öllu saman er að í kjölfarið á þessu veikist konan, fyrrverandi konan mín. Hún fær krabbamein. Það líður ekki nema rúmt ár þar til hún deyr. Þetta var svo ótrúlegt að þetta náði ekki nokkurri átt. Fram að því að konan mín dó hafði ég samið við bankann um að halda áfram að greiða af fyrirtækinu. Ég var í persónulegri ábyrgð fyrir ákveðinni skuld hjá fyrirtækinu, sem voru auðvitað mistök. Þegar konan mín dó gekk ég inn í bankann til bankastjórans og ég sagði við hann: „Ég er hættur að borga þér. Ég ætla aldrei að borga þér eina einustu krónu héðan í frá. Þú ræður hvernig þú tekur á þessu máli en héðan í frá borga ég þér ekki eina einustu krónu.“ Síðan gekk ég út og hef ekki greitt þeim eina einustu krónu síðan. Þeir viðhalda þessari skuld og það er bara þeirra.“

Og er hún þarna í bankanum ennþá?

„Já já, það er enginn gæska þar sko. Ég hefði getað farið og lýst mig gjaldþrota. Ég tók ákvörðun að gera það ekki, ég bara á ekkert. Ég hef aldrei lifað betra lífi, samt á ég ekki neitt. Þrátt fyrir allt, öll þessi áföll hef ég verið alveg gríðarlega heppinn. Ég lifi ofboðslega góðu lífi og er sáttur við lífið og tilveruna þrátt fyrir allt. Konan mín dó árið 2012. Svo deyja foreldrar mínir 2013 og 2014 og svo árið 2015 deyr sonur minn. Þá var þetta orðið mjög mikið, ofboðslega erfitt.·

Hvernig var að vinna sig úr því?

„Þetta voru gríðarleg áföll. En lífið heldur bara áfram, það er bara þannig. En þetta var bara þannig að hver einasti dagur var gríðarlegt átak. Alveg bara skelfilegt. Bara að vakna og komast í gegnum daginn var alveg gríðarlega erfitt. Fljótlega eftir að sonur minn deyr var það afrek að komast í gegnum daginn. Ég þurfti að gera eitthvað, ég gat þetta ekki. Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að ég gat svolítið stjórnað hugsunum mínum með önduninni. Þetta voru gríðarlega erfiðar hugsanir og þegar þær hellast yfir mann verður þetta svo yfirþyrmandi. Ég fann það út að með önduninni náði ég að brjóta upp hugsanir mínar. Bara með því að draga djúpt andann, halda honum niðri í mér og slaka vel á, þá náði ég að brjóta mig út úr þessum hugsanagangi sem var í gangi í höfðinu á mér. Þannig náði ég að komast í gegnum þetta. Með því að nota þetta leið alltaf lengri og lengri tími milli þess sem þetta helltist yfir mig. Smátt og smátt náði ég tökum á þessu og ég áttaði mig á því um hvað lífið snýst. Þetta snýst ekki um þetta góðæri og þessa botnlausu efnishyggju. Hún skiptir engu máli. Bara engu. Heldur bara njóta hvers dags. Með fólkinu sínu. Með börnunum sínum, barnabörnunum og barnabarnabörnunum. Í dag hef ég það alveg gríðarlega gott og líður feiknarlega vel.“

Bíddu, ætli ég sé dáinn?

Eftir að hafa keyrt stóra olíuflutningabíla í tæp tuttugu ár lenti Matti Óla í ótrúlegu óhappi í Ísafjarðardjúpi með 40 þúsund lítra af bensíni í tönkunum. Hann missti stjórn á bílnum sem endaði á stórum kletti. Þar rankaði Matti Óla í bílstjórasætinu, horfði upp til himins og hélt að hann væri kominn yfir móðuna miklu.

„Já, ég hef starfað núna í áratugi við að flytja olíu um landið, og það eru tvær gerðir af bílstjórum. Það eru þeir sem hafa velt þessum bílum, og þeir sem hafa ekki gert það. Ég er í fyrri hópnum. Ég hef velt svona bíl. Það var í janúar 2012 og ég var á ferðinni inni í Ísafjarðardjúpi. Það er komið fram á kvöld, vegurinn er auður en það er rigningarúði. Búið að vera fínasta færi, en svo kem ég inn í Hestfjörð og er að koma inn í botn á firðinum þegar ég er allt í einu kominn út á svartan ís, alveg rennandi blautan svartan ís. Ég finn bara hvernig ég er að missa bílinn, sem betur fer var ég ekki á mikilli ferð, ég var ekki á nema svona 60-70 kílómetra hraða, en á fulllestuðum bíl, með yfir 40 þúsund lítra af bensíni í bílnum. Ég er að slást við bílinn og finnst ég vera að ná tökum á honum, þá kemur svona smá hnykkur á hann og þá finn ég það, og maður gerði sér alveg grein fyrir því, að þá var ég er búinn að missa bílinn. Það var bara þannig. Bíllinn snýst á götunni og það er klettur beint á móti, ég sé bara hvernig hann kemur æðandi á móti mér. Það kemur svona augnablik, ég var samt alveg sallarólegur. „Jæja, þá er þetta búið kallinn minn.“ Og ég keyri beint inn í klettinn og hann var bara þverhnípt stálið.
En ég var svo heppinn að vagninn var ekki alveg beint á eftir bílnum. Sem gerir það að verkum að þegar ég keyri inn í klettinn, þá ýtir vagninn bílnum til hliðar og skautar svo með honum. Ef hann hefði verið beint fyrir aftan, þá hefði hann kramið mig upp í klettinn. En hann snýst, fer til hliðar við mig og veltur. Ég rotaðist ekki en svona hálf vankaðist og ég þurfti smá tíma til að átta mig á því þegar allt var yfirstaðið hvar ég var og hvað var í gangi. Ég ligg í bílstjórasætinu og horfi út um framrúðuna sem var farin og það rignir á andlitið á mér. Í eitt augnablik hugsa ég með mér „bíddu, ætli ég sé dáinn?,“ en það var ekki, ég var ennþá hérna megin. Fékk þarna einn séns í viðbót. Þeir eru orðnir nokkrir. Ég klöngrast út úr bílnum, út um framrúðuna og horfi niður og þá voru bara fleiri fleiri metrar niður, því að vagninn lá á hliðinni utan við veginn og bíllinn stóð svona upp á endann, ofan á vagninum. Og ég var í bílstjórasætinu þarna uppi. Ég bara trúði þessu ekki, hvernig þetta gat verið svona. En ég náði að klöngrast niður bílinn og niður á vagninn og stökkva niður á veg. Það var svartamyrkur og á meðan á þessu gengur þá er einn annar bíll að keyra í djúpinu. Hann keyrir framhjá mér akkúrat þegar ég er að klöngrast út úr bílnum. Ég lá alveg til hliðar við veginn og hann keyrir alveg meðfram flakinu, lendir ekki á því. Hann þurfti einhverja hundruð metra til að stoppa bílinn en nær því og kemur labbandi til baka með sígarettu í kjaftinum. Og þarna flæddu þúsundir lítra af bensíni um Hestfjörðinn. Ég sé bara glóðina þegar hann kemur nær og nær og ég kalla til hans og bið hann um að drepa í sígarettunni því það flæddi þarna bensín um allan veg. En hann karlgreyið, fór bara í hálfgert taugaáfall. Hann drap í sígarettunni og  var í verra ástandi heldur en ég sem var sallarólegur yfir þessu, en hann var alveg í taugahrúgu ef hann hefði nú sprengt þetta allt saman upp. En þetta fór nú allt vel.“

Það hefði nú orðið bíómyndasprengja?

„Já, það hefði nú bara enginn orðið vitni af því nema við tveir því það er langt yfir á Súðavík. Það tók þá langan tíma að komast en hann var með síma og náði að hringja á eftir hjálp. Það var stórmál að komast til okkar vegna hálku, bæði slökkvilið, lögregla og sjúkrabíll. Ég var fluttur beint til Ísafjarðar á sjúkrahúsið þar, ég bað nú um að fá að vera þarna á staðnum að aðstoða þá við að ganga frá en þeir vildu það ekki, þeir vildu senda mig í einhverja skoðun. En það var ekkert að mér, bara sært stolt.

Að vera kominn í hópinn sem hafði velt olíuflutningabíl?

„Já, fram að þessu var ég í seinni hópnum, sem hafði ekki velt. En svona er nú lífið.“