Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 29. desember 1999 kl. 22:28

HORFÐI Á SKIP FARAST

Tómas Þorvaldsson fæddist árið 1919 og hefur alla tíð verið búsettur í Grindavík. Hann starfaði um tíma sem sjómaður og stofnaði síðan útgerðarfyrirtækið Þorbjörn hf. sem hann á nú með börnum sínum. Tómas hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum um ævina, hann var m.a. formaður SÍF í 19 ár, sat í stjórn LÍÚ í 32 ár, formaður björgunarsveitarinnar í Grindavík í 32 ár og á þeim tíma björguðu björgungarsveitarmenn í Grindavík 116 manna. Tómas hefur því komið víða við um ævina og hefur margs að minnast frá öldinni sem senn er á enda. „Eftirminnilegast í mínum huga er þegar sjór gekk meira en 300 metra upp að Járngerðastaðabæjunum. Þetta var árið 1924 og ég sá þegar aldan skall á bæjunum sem stóðu á túnunum fyrir neðan Velli og Vallarhús. Fjósið á öðrum bænum flaut upp um 200 metra með kúnum í. Það urðu sem betur fer engin slys á fólki en mannvirkin skemmdust mikið. Akurhús flaut t.d. upp af grunninum og fór 100-200 metra upp á land. Þegar við krakkarnir komum út var fiskur út um öll tún, karfi og keila og fleiri fisktegundir“, segir Tómas og bætir við að hann eigi erfitt með að velja einn atburð því honum sé svo margt minnisstætt. „Þegar ég var sex ára, árið1926, horfði ég á skip farast í innsiglingunni hérna í Grindavík. Níu menn drukknuðu og þremur var bjargað en einn þeirra dó á leiðinni í land. Ég horfði á skipið í brimrótinu og heyrði hrópin og köllin. Ég gerði mér kannski ekki alveg grein fyrir hvað var að gerast og ég greindi ekki orðaskil. Annar mannanna sem lifði af, flutti eftir þetta til Grindavíkur og býr nú í Njarðvíkunum. Hann hét Guðmundur Kristjánsson og er faðir Einars Guðmundssonar sem var lengi skipstjóri á Keflvíkingi.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024