Mannlíf

Horfa á góðar myndir, spila og hlæja
Mánudagur 18. desember 2023 kl. 08:29

Horfa á góðar myndir, spila og hlæja

Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, er mikið jólabarn og hefur tekist að smita því yfir í konuna og börnin. Hann segir jólin vera tíma fjölskyldunnar og ætlar að reyna að slaka á og njóta í faðmi hennar.

Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið var nú bara þokkalegt fram að því að pabbi veiktist mjög snögglega og kvaddi svo þessa jarðvist. Það sem stendur svo upp úr er fríið sem við fórum í í kjölfarið til Krítar í tvær vikur, annars stendur karfan alltaf fyrir sínu og stendur sjálfsagt upp úr.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ert þú mikið jólabarn?

Já, ég verð að segja það og mér hefur tekist að smita því yfir í konuna og börnin.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Það er misjafnt en fer sennilega upp í kringum 10. desember þetta árið, eiginlega því fyrr því betra.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Ég á nokkrar fyndnar og skemmtilegar en sú eftirminnilegasta var þegar við fengum skíði í jólagjöf, spennan var svo mikil að fá að prófa að okkur Siggu systir tókst held ég að skemma þau sama kvöld þegar við ákváðum að fara á skíðunum heim til ömmu og afa í jólaboðið. Það var sem sagt ekki mikilill snjór, eiginlega enginn, nema á gangstéttunum – en ég man ekki hvaða ár þetta var. Ég man alla vega að ég var ennþá rauðhærður þegar þetta var en er auðvitað kastaníubrúnhærður í dag.

En skemmtilegar jólahefðir?

Hefðin er að hitta systkinin og spila saman, þetta er nú tími fjölskyldunnar. Annars hefur okkur alltaf langað að prófa að vera á náttfötunum ein jólin, hver veit nema maður brjóti hefðina og verði ekki í jakkafötunum.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Ég er vanalega svo ýktur þegar kemur að því að gefa, ætli ég verði ekki að versla síðustu aukagjöfina á þorláksmessu.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Þetta er góð spurning, er að reyna að svara henni í þriðja skiptið. Verð ég ekki bara að segja jólatónlistin, annars eru engin jól.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Langar að segja skíðin úr spurningu fjögur en hálsmenið sem krakkarnir og konan gáfu mér með þeirra rithönd á er sú allra fallegasta gjöf sem ég hef fengið, það féllu nokkur tár í það skiptið

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Ég er tækjakall eins og flestir vita – en mig langar í fallegt úr. Ég er meira að segja búinn að finna það en í ár er efst á lista að reyna að hafa þessi jól eins heimilisleg og hægt er þar sem maður býr nú á nýjum stað fjarri sinni heimabyggð og kannski soldið erfitt fyrir börnin.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Það eru hefðir en aðrar en ég ólst upp við. Við munum hafa hamborgarhrygg eins og undanfarin tuttugu ár sirka.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Ef ég fengi að ráða þá færi ég upp á hálendi. Hver veit nema ég geri það en annars ætla ég að reyna að slaka á og njóta í faðmi fjölskyldunnar. Horfa á góðar myndir, spila og hlægja.