Hönnun Berglindar vekur athygli
Sækir einn virtasta hönnunarskóla heims í Mílanó
Berglind Óskarsdóttir er Keflavíkurmær sem í dag býr á Seltjarnarnesi með eiginmanni sínum Þórhalli Sævarssyni leikstjóra og börnum þeirra þremur. Eftir áramót liggur leið Berglindar til Milanó þar sem hún fékk nýlega skólastyrk í einum virtasta hönnunarskóla heims, Istituto Marangoni. Þar mun hún fara í mastersnám í fylgihlutahönnun með áherslu á lúxusvörur og gæðaframleiðslu. Berglind ústkrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 úr fatahönnun. Útskriftarlína hennar vakti mikla athygli og eftirspurn og nýlega fékk hún umfjöllun á heimasíðu ítalska Vogue.
Hvað hefur verið í gangi hjá þér eftir að þú útskrifaðist?
„Ég eignaðist litlu stelpuna mína eftir útskrift og hef verið með hana og notið þess að vera í fæðingarorlofi. Ég hef hins vegar unnið strangt að mínum markmiðum á meðan og það er að skila sér.“
Hvenær kviknaði þessi áhugi á hönnun hjá þér?
„Ég hef haft áhuga á hönnun og tísku alveg frá því ég man eftir mér. Ég hef alltaf haft mjög gott auga fyrir smáatriðum, það getur verið mikill kostur og stundum galli.“
Hvernig kom það svo til að þú ákvaðst að skella þér í þetta nám?
„Mér fannst listaháskólinn heillandi, fatahönnunardeildin þar er mjög metnaðarfull og kennararnir frábærir. Ég ákvað því að sækja um og komst inn.“
Hvað varstu búin að vera að brasa áður en þú fórst að læra fatahönnun?
„Ég hafði starfað hjá Iceland Express í nokkur ár sem flugfreyja. Það var mjög skemmtilegt, þar kynntist ég ótrúlega góðu fólki og fékk tækifæri á að ferðast mikið.“
Hvernig er þessi bransi á íslandi - eru miklir möguleikar á að koma sér á framfæri?
„Bransinn hér heima er vissulega erfiðari en erlendis en ég held að fólk sé farið að versla meira við unga hönnuði. Það er mikil vitundarvakning hjá fólki um hvaðan flíkurnar koma, hvar þær eru framleiddar og hver kemur að því ferli. Þegar upp er staðið þá endast vandaðar flíkur betur sem er þar af leiðandi umhverfisvænna og minni peningasóun fyrir neytandann.“
Útskriftarlínan þín hlaut nokkra athygli, hvernig er það ferli að setja saman svona línu?
„Þetta er heilmikið ferli sem margir kannski átta sig ekki á. Í byrjun safnar maður að sér myndum og býr til „moodboard“ til þess að setja saman réttu stemmninguna. Það er margt sem þarf að huga að, hver týpan ersem þú hannar fyrir, hvaða form eru spennandi, litir og fleira. Síðan tekur við skissuvinna og þegar maður hefur teiknað upp línuna og er ánægður þá hefst sníðagerð og mátanir. Ótrúlega skemmtilegt.“
Hvað er næst á dagskrá hjá þér?
„Eftir útskrift var mikil eftirspurn hjá mér og það var því annað hvort að stofna mitt eigið merki og fara í framleiðslu eða þá að fara í meira nám. Námið varð fyrir valinu og ætla ég að koma sterk til leiks á markaðinn í náinni framtíð.“
Glæsileg hönnun Berglindar í ljósmyndum frá Sögu Sig.