Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hollvinasamtök Unu
Þriðjudagur 24. desember 2013 kl. 16:00

Hollvinasamtök Unu

Stundum er sagt  „Að fortíð skal hyggja, þá framtíð skal byggja“. Við erum í núi akkúrat núna, framtíðin ber sífellt að með sín úrlausnarefni og að baki er fortíð með allt sitt.

Ætli flestir gangist ekki við að í fortíðinni hvílir margt sem læra má af, geri okkur hæfari til framtíðar. Svo eru þar minningar, sem gott er að líta til.  Við viljum fremur sjá til þess sem var jákvætt og uppbyggilegt.  Það á við minningu um Unu Guðmundsdóttur, sem lengi bjó í húsinu Sjólyst í Garðinum.  Margt sígur svo í gleymskunnar dá.

Tímans tönn færir okkur heim sannin um að fjölmargir vilja muna Unu og það sem hún stóð fyrir og hlú að minningu hennar. Til þess geta verið breytileg viðhorf.  Margir minnast hennar sem læknamiðils og styrkgjafa, nutu hæfileika hennar þar.  Aðrir  minnast hennar frá uppvexti sínum sem veitandi einstaklings og áhrifavalds í góðum verkum í heimahögum.

Svo vill til að húsið Sjólyst, þar sem Una bjó  stendur í ágætu ásigkomulagi.  Húsið er merkilegt í sjálfu sér, fulltrúi húsa sem urðu til sinn hvoru megin við  aldamót 1900, leystu torfbæina af hólmi.  Þessi húsagerð er nú nánast alfarið horfin.  Þau hafa verið rifin eða felld í nýrri byggingar.  Stefán bróðir Unu hélt húsinu vel við á sínum tíma, síðar notaði  útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Nesfiskur í Garði húsið og hélt því í ágæti ásigkomulagi. Þó það sé gamalt og þurfi viðgerða,  má það standa um sinn án stórframkvæmda.
Hollvinasamtök Unu vilja halda minningu hennar á lofti.  Það má gera með því að safna heimildum og setja upp heimili í húsinu Sjólyst sem líkist því sem var.  Til eru munir úr fórum Unu.  Hollvinir vinna að ýmsu til eflingar verkefninu.  Húsið er opið á tilteknum tímum og fyrir hópa og haldnar hafa verið sagnasamkomur.  Stærsta einstaka verkefnið er gerð leikinnar heimildamyndar um Unu.  Guðmundur Magnússon frumkvöðull um varðveislu heimilda á myndrænu formi  í Garðinum hefur um nokkurra ára skeið unnið að undirbúningi myndarinnar.  Guðrún Eva Mínervudóttir hefur þegar gert drög að handriti og ætlar Guðmundur enn 2-3 ár til verkefnisins.  Hann safnar fé og kröftum til að koma því í framkvæmd.  Með verkefninu í heild verður jafnframt til efni og skráning atburða sem styðja við sögu um mannlíf í Garðinum.  Guðmundur hefur þegar sent frá sér myndir sem heita Undir ljósi Garðskagavita og Norðanáttin og stúlkan, auk margra myndþátta.  Á ársfundi hollvina nú í nóvember voru flutt efnismikil erindi, sem tengjast Unu að nokkru og almennri sögu Garðsins.  Gunnar M. Magnúss rithöfundur ritaði bók um Unu, Völva Suðurnesja.  Gunnsteinn sonur Gunnars minntist föður síns og starfs hans að verkefnum í Garðinum, ma. með vísan til persónulegrar dagbókar Gunnars. Þá flutti Jóna Björk Guðnadóttir afkomandi Álfs Magnússonar, sem var fæddur 1871 á Gaukstöðum í Garði  samantekt sína um merkilegan og einstæðan æviferil Álfs.  Flutt voru frumsamin lög við texta eftir Álf.  Þeir sem hlíddu  nutu þessa alls vel.

Í stjórn Hollvina Unu eru Guðmundur Magnússon, Jónína Hólm og Kristjana Kjartansdóttir.  Í meðstjórn eru Erna M. Sveinbjarnardóttir, Þórhildur Ída Þórarinsdóttir, Þórunn Þórarinsdóttir og Einar Jón Pálsson.
Þau og margir fleiri vilja leggja verkefninu lið.

(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024