Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hollusta um jólin
Laugardagur 25. desember 2010 kl. 17:40

Hollusta um jólin

Gullfallegan morgun í frosti og dúnalogni, bankaði ég á dyrnar hjá kraftmikilli konu í Keflavík. Hún opnaði með bros á vör og bauð mér að ganga í bæinn. Tilefnið var hollustujól. Anna Sigríður Jóhannesdóttir heitir konan, ólst upp á Dalvík, vinabæ Reykjanesbæjar en hún er gift Óla Þór Magnússyni. Saman eiga þau fjögur börn á aldrinum þriggja til níu ára. Blaðasnápur braut allar reglur um sætindi þennan morgun enda ekki annað hægt þegar Sigga, eins og hún er oftast kölluð, bauð upp á hollustusmákökur, svona líka bragðgóðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sigga er matreiðslumaður að mennt og hefur tekið ótal námskeið í líkamsrækt. Hún kenndi fyrst líkamsrækt á Perlunni í gamla daga hjá Bigga og Öldu en var á sama tíma að læra matreiðslu hjá topp matreiðslumönnum á Glóðinni.
Í dag er Sigga heimavinnandi húsmóðir en kennir mömmuleikfimi á morgnana í Akademíunni.

Börn og hollusta
„Já, eftir að ég eignaðist fyrsta barn okkar Óla, þá langaði mig að prófa að bjóða upp á svona mömmuleikfimi, þar sem börnin eru með okkur í tíma og við gerum æfingarnar í kringum þau eða með þeim. Þau eru stundum lóðin okkar þegar við lyftum þeim upp á ákveðin hátt. Ég hef þróað þessa leikfimi sjálf og eru tímarnir mjög vinsælir hjá mæðrum. Ég er einnig með fræðslu í þessum tímum um gott mataræði og stelpurnar kunna vel að meta það,“ segir Sigga.
Sigga og Óli eignuðust fjögur börn á fimm árum, þar af tvíbura í lokin og hefur verið nóg að stússa í kringum heimilið. Sigga valdi að vera heimavinnandi því hún vildi sinna móðurstarfinu vel og heimilinu. Henni finnst það forréttindi að leyfa sér að vera heima.
„Það er fyrirtæki að reka sex manna fjölskyldu. Mér finnst dýrmætt að vera heima þegar börnin koma heim á daginn, ég er þá til staðar fyrir þau, hjálpa til við lærdóm, gef þeim að borða og sinni þeim. Ég nýt þess til fulls að vera með börnunum mínum.
Reykjanesbær er líka svo skemmtilegur barnabær. Hér er alltaf verið að hugsa um fjölskylduna, viðburði og fleira skemmtilegt er gert til afþreyingar,“ segir Sigga með ánægjusvip.
Sigga er þekkt fyrir kraft sinn og dugnað en hún starfar ötullega m.a. í foreldrafélögum skólanna, stuðningsneti foreldra í íþróttafélögum barnanna og í safnaðarstarfi Keflavíkurkirkju. Sigga hefur einnig brennandi áhuga á heilsu og hreyfingu. Hún segir þetta allt verða að spila saman.

Þessi gullni meðalvegur
„Hreyfing og mataræði er samspil. Þú getur ekki verið að passa upp á hreyfingu en borðað svo hamborgara og pitsur eða borðað voða hollan mat með engri hreyfingu. Það gengur ekki upp. Allt er gott í hófi, bæði hreyfing og hollusta. Ég nýt þess að borða í veislum en þegar ég kem heim þá drekk ég svona fjögur vatnsglös til að skola út sykurinn. Við þurfum smátt og smátt að færa okkur yfir í betra mataræði og ég heyrði góða reglu, sem ég vil fara eftir; Borðaðu ekkert sem langamma þín þekkir ekki sem mat! Við eigum að njóta en einnig að vera meðvituð um hvað við setjum ofan í okkur,“ segir Sigga ákveðið.
Hún er ákveðin og kraftmikil hún Sigga, örugglega góður og hvetjandi leikfimiskennari. Hún hefur haft gaman af því að færa sig yfir í hollustufæði en hún lærði á sínum tíma matreiðslumanninn með enga sérstaka áherslu á hollustu. Hún hefur sjálf gert tilraunir á uppskriftum og ætlar að leyfa lesendum Víkurfrétta núna að njóta þeirra. Alltaf gaman að prófa gamlar uppskriftir fyrir jólin með hollustu útfærslum.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft
„Krökkunum mínum finnst gott að borða grænmeti og ávexti, ég held þessu líka að þeim. Þegar þau koma heim úr skólanum og eru svöng þá bý ég oftast til hollustu hristing handa þeim, frekar en að gefa þeim kókómjólk og kex. Við foreldrarnir stýrum matarvenjum barna okkar. Þau finna hvað þeim líður miklu betur af svona fæði en sætindum og þau biðja um sheik eftir skóla. Fyrir jólin hafa þau gaman af því að baka með mér og við njótum þess að borða eitthvað sætara í desember. Við búum m.a. til piparköku gardínur í eldhúsið, skreytum þær og borðum þær svo um jólin. Ég hef alltaf mikið grænmeti með öllum mat og vil hafa eins mikið lífrænt eins og ég get. Maður finnur svo mikinn mun á lífrænni matvöru. Þú finnur betra bragð og varan endist lengur, við notum einnig minna af lífrænu því hún er sneisafull af vítamínum. Líkaminn fær meira úr lífrænni fæðu, heldur en þar sem skordýraeitur hefur rýrt gæði vörunnar. Krakkarnir mínir hafa verið í skólagörðum á sumrin og ræktað þar gott grænmeti, sem þeim finnst mjög gaman. Þar læra þau að rækta grænmeti frá grunni og njóta þess svo að borða það. Ég held að allt sem við gerum með börnunum kennir þeim betur en það sem við segjum við þau,“ segir Sigga.

Við þökkum Siggu kærlega fyrir hlýjar móttökur og gagnlega fræðslu fyrir jólin.

Eftirfarandi spennandi uppskriftir koma frá Siggu og fjölskyldu, einnig uppskrift og fræðsla um aðventukrans. Njótið vel!

Sigga mælir með lífrænu hráefni:

Morgunsjeik
– hollustu hristingur
1 bolli haframjöl
½ bolli kókósmjöl
½ bolli möndlur
1 frosinn banani
5 döðlur
Vatn og klaki...
1-2 tsk hollt kakó
Frábær morgundrykkur eða hvenær sem er. Þessi gefur góða fyllingu næstu klukkustundir.

Jarðarberjasjeik
½ glas frosin jarðarber
½ glas frosin hindber
1 banani
150 ml appelsínusafi
Klaki (má sleppa)
*Prófið að setja sojamjólk eða hrísgrjónamjólk eða léttmjólk í staðinn fyrir appelsínusafa.

Bláberjasjeik
1 glas frosin bláber
1 banani
150 ml mjólk/hrísmjólk
1 tsk Agave síróp

Grænn sjeik
-góður á morgnana, getur haldið þér frá sykrinum!
3 dl vatn
100 g spínat
1 epli
1 avakado
2 cm fersk engiferrót og 2 cm sellerí
1 sítróna

*** Í alla ávaxtasjeika má skutla 1 góðri lúku af spínati út í fullan sjeik og þá er hann enn hollari og einnig er hægt að setja hreint skyr út og þá er þetta fullkomin máltíð.

Hrákaka
1 bolli þurrkuð epli
1 bolli mjúkar döðlur
1 bolli hnetur eða möndlur
½ bolli kókósmjöl
3 góðar msk hnetusmjör eða möndlusmjör
1 tsk kanill (má sleppa)
Öllu skellt í matvinnsluvél og blandað vel saman, þrýst í eldfast mót eða á disk og skellt í kæli.
1 plata 100g 70% súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og hellt yfir kalda kökuna.
Kælið og njótið með þeyttum rjóma.

Bananaspes
2 bananar
2 bollar haframjöl
1 bolli smátt skornar döðlur (mjúkar)
½ bolli hnetur/möndlur
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilludropar
Blandað saman og sett á plötu með msk og bakað við 180° þar til gullbrúnar.
Ég mæli með að þær séu borðaðar samdægurs eða þá að setja þær í box í frystinn.
ATH - Það er enginn sykur og ekkert hveiti í þessari uppskrift.

Kalkúnasalat
Gott blandað salat fyrir afgangana.
Gúrka
Tómatar
Rauðlaukur
Paprika
Fetaostur
Sólþurrkaðir tómatar
Ólífur
Nachos flögur settar í rétt í lokin (má sleppa)
Kaldur kalkúnn tættur niður eða léttsteiktur á pönnu með smá BBQ sósu

Middle east sósa
10 msk engifer
1 búnt steinselja
1 hvítlauksgeiri
5 msk hunang
3 msk dijon dinnep
Salt og svartur pipar
Allt sett í múlinex
0,5 ltr olía
Smá jalapeno (má sleppa)

Hvítlauksbrauð
½ kg spelt hveiti og ½ heilhveiti
2 msk þurrger
2 tsk salt
0,5 dl olía
6 dl volgt vatn
Hrærivél (nota krók)
Hnoða á stillingu 1 í 2 mín og stillingu 2 í 4 mín
Látið hefast í 30 mín
Móta brauð og gera holu í miðjuna eftir endilöngu deiginu, fylla með hvítlaukssmjöri og rifnum osti og klemma deigið aftur saman.
Látið hefast í 20 mín.
Baka í 25-35 mín. eða þar til gullbrúnt á 180-200°

Magnað múslí-nammi
5 dl haframúslí
1 dl agave-síróp
1 dl hnetusmjör
½ dl kókósolía
½ dl kakóduft
Smá vanilluduft
Best er að bræða kókósolíuna með því að láta renna heitt vatn á krukkuna (helst undir 45°).Setjið allt nema múslíið í matvinnsluvél og blandið. Bætið síðan múslíinu út í og blandið bara örstutt til að halda áferðinni grófri. Setjið í lítil pappaform eða á smjörpappír, svo í frysti í 15 mín. Geymist best í kæli eða frysti.

Gojikökur
150 g smjör
1 stk egg
150 g hrásykur
220 g grófmalað Spelt
150 g kókósmjöl
50 g gojiber
1 tsk matarsódi
Aðferð
Allt sett saman í skál og unnið rólega með káinu í hrærivél.
Bakað við 180° í ca.10 mín.

Til gamans gefur Sigga okkur uppskrift að:

Aðventukrans
500 g hveiti
3 dl volgt vatn
1 msk þurrger
1 tsk salt
½ dl olía
Blandið hráefninu saman og hnoðið.
Látið hefast í 30 mín.
Skiptið deiginu í 3 hluta og búið til langar pylsur.
Festið endana saman öðru megin og fléttið deigið.
Hafið fléttuna beina eða myndið hring.
Látið á plötu með smjörpappír og setjið inn í 180° heitan ofn og bakið í 20-30 mín. eða þar til kransinn er orðinn gullbrúnn.
Stingið 4 kertum í heitan kransinn (gott er að hafa kertastatíf)
Setjið kertahring eða slaufu utan um hvert kerti.
Kransinn klár.

Aðventukrans
Kertin eru fjólublá og eitt ljós er rautt.
Táknmál aðventukransins:
1) Hringurinn táknar eilífðina og eilífa nærveru Guðs.
2) Græni liturinn táknar eilíft líf með Guði (vöxtur)
3) Fjólublái liturinn táknar undirbúning og iðrun (fastan)
4) Ljósrauði liturinn táknar gleðina.
5) Rauði liturinn minnir okkur á blóð lambsins.
6) Hin fjögur kertn minna okkur á Guðspjöllin.

Hvað heita kertin?
1) Spádómskertið.
2) Betlehemkertið.
3) Fjárhirðakertið.
4) Englakertið.
5) Kristkertið.